sunnudagur, 27. nóvember 2016

Sumarhús Dalí

Sumarhús Dalís er fróðlegt að heimsækja, ef maður hefur áhuga á listamanninum Dalí. Keyrður er fjallavegur til þorps út við Costa Brava ströndina sem heitir Cadaqués 240 km fyrir norðan Tarragona. Þaðan liggur leiðin til Portlligat, sem er pínulítið fiskiþorp og þar er sumarhúsið. Hann dvaldi þarna löngum fram til 1982 þar til konan hans Gala lést á þessum stað. Eftir það kom hann þangað ekki aftur, en dvaldi í Gala Dali Castle i Púbol og helgaði líf sitt minningu hennar. Hún stóð honum mjög nærri og var módel í fjölmörgum mynda hans.
Áhugi minn á Dalí vaknaði í gegnum Kanasjónvarpið á sínum tíma. Þar var stundum umfjöllun um þennan sérstæða listamann. ( Þið munið sjónvarpinu sem var lokað á Keflavíkurflugvelli af því að það átti að hafa slæm uppeldisáhrif á óhörnuð íslensk ungmenni.)
Það hefur verið draumur minn að heimsækja þennan stað í áratugi og nú loksins rættist hann. Minnist sérstaks þáttar um list Dalís sem var tekinn upp á þessum stað, en ég man ekki lengur hvar ég sá þennan þátt, hvort það var á RÚV, SR eða í Kanasjónvarpinu.
Verð að bæta því við að sjón er sögu ríkari. Það kom mér á óvart hvað Dalí var fjölhæfur listamaður, eftir að hafa skoðað verk hans líka í Figureres, en þar er stórt safn með verkum hans. Skartgripirnir, málverkin, fígurnar, húsgögnin og allt það sem fyrir augun bar.

Frá Tarragona

Það hefur svo margt komið mér á óvart þennan tíma hérna á Spáni. Ég hafði ákveðna staðalmynd af landinu, sem byggði á mjög þröngri sýn á landi og þjóð, já fordómum. Í stuttu máli var Spánn í mínum huga sólarstrendur, letilíf og frekar óspennandi og ég hafði engan áhuga á að elta allan þann fjölda ferðamanna sem þangað fór í "hvítum" buxum í áraraðir. Þessar bráðum sex vikur sem við höfum dvalið hérna í Tarragona hafa gjörbreytt þessu viðhorfi. Hvílíkt land, fólk, menning og saga! Ég gæti skrifað langan pistil um þetta en ég ætla aðeins að segja nokkur orð um fólkið hér í Katalóníu. Það vekur fyrst athygli gestsins hvað hér er mikið af fallegu og myndarlegu fólki, sem samsvarar sér vel í líkamsburði. Maður nánast sér ekki fólk sem stríðir við vigtarvandamál. Það hlýtur að skrifast á mataræðið. Það vekur athygli hvað fólk er snyrtilega til fara og kurteist. Vandamál mitt er að ég skil ekki spænsku né katalónsku og það gerir samtöl erfiðari því flestir sem ég hef hitt skilja ekki mikið í ensku. Ég hef þó notið samvista við fræðimenn við háskólann hér í Tarragona sem tala ensku. Maður hefur meira að segja þurft að grípa til þýsku sem ég hef ekki reynt að tala í áratugi. Allt hefur þetta gengið einhvern veginn. Nú veit ég að sólarstrendur og sangrían er annar heimur í þessu landi, "business," sem er nánast aðskilinn hluti af daglegu lífi Katalóníumanna. Skreppi maður út í Salou, þar sem ferðamenn dveljast á sólarströndu er um aðra veröld að ræða. Þar er nú eins og að horfa yfir autt leiksvið. Enginn á ferli og hús og strendur bíða þess að nýtt ferðamannatímbabil hefjist. Spænski menningarheimurinn er viðfemur og hann býður upp á góða tilbreytingu frá hinum engilsaxneska, sem maður þekkir mun betur.

fimmtudagur, 17. nóvember 2016

Af hverju ESB?

Katalóníumenn eru 9 milljónir alls. Þeir tala sérstakt tungumál. Eiiga mörg þúsund ára sögu. Þá dreymir um sjálfstæði. Þeir hafa miklar áhyggjur af framtíð evrunnar og efnahagsmálum sínum. Atvinnuleysi sem er þó mun minna en almennt á Spáni. ca 18,%. Fjöldi fjölskyldna lifir á eftirlaunum afa og ömmu. Við erum 0,3 milljónir manna. Sjálfstæð þjóð með eigin gjaldmiðil og stjórn okkar mála, Atvinnuleysi er 2 til 3%, samt eru til hópar sem vilja gefa upp á bátinn okkar sjálfstæði og ganga í ESB og taka upp evruna. Er það nema von að maður verði hugsi.

miðvikudagur, 9. nóvember 2016

Trump vann forsetakosningarnar !!

Framkvæmdamaðurinn Trump er á leiðinni í Hvíta húsið. Það sem kemur fyrst upp í hugann er skoðanamyndandi áhrif fjölmiðla og skoðanakannana og hversu hrapalega vitlaust var spáð fyrir sigri Hillary Clinton. Bak við eyrað voru þó samtöl við nokkra Ameríkana úr ólíkum áttum, sem sögðu að Trump myndi sigra. Annað truflaði mig, það var hversu mikil umræða var um Trump á félagsmiðlum, þótt hún væri aðallega neikvæð. Þriðja atriðið var hvernig hann vann keppinautana í forvalinu. Ted Bush t.a.m. hafði ekkert í hann í kappræðum. Fjórða var samtal við spænskan lögfræðing hér í Tarragona, sem búið hefur í USA. Hann fullyrti að Trump væri ameríski draumurinn holdi klæddur, hann yrði sigurvegari kosninganna. Kom þetta á óvart? Já, en samt ekki.

sunnudagur, 30. október 2016

Efnahagserfiðleikar á Spáni

Ég átti áhugavert samtal í dag við Katalóníumenn um stjórnmál og efnahagsmál. Þau vissu augljóslega úr fréttum hvernig úrslit kosninganna á Íslandi fóru. Það kom þeim ekki á óvart að Píratar fengu ekki meira fylgi. Þeir flokkuðu þá með öðrum "fráviksflokkum," líðandi stundar í Evrópu, en ekki sem langtímaafli í samfélaginu. Nú hefur tekist loks að mynda hægri minnihlutastjórn á Spáni, allavega tímabundið. Katalóníumennirnir horfði mjög til þess árangurs sem við höfum náð í efnahagsmálum og vonuðu að Katalóníu mundi takast að vinna sig úr sínum erfiðleikum. Það er mikið atvinnuleysi og áhyggjur af næstu framtíð. Ég reyndi að vera hvetjandi og sagði að við hefðum getað framleitt vörur til að selja og svo hefði ferðamannaþjónusta vaxið mikið. Auk þess sem vel hefði gengið að greiða úr skuldamálum okkar. Í nýlegum spænskum hagtölum væri aukning ferðamanna og minnkandi atvinnuleysi. Þeir játtu því og sögðu að þeir kynnu ferðamannaþjónustu. En höfðui áhyggjur því að þeir væru háðir gengi evrunnar og vísuðu til þess hvernig þeim hefði tekist áður að lækka pesetann til þess að gera Spán aðlaðandi áningarstað ferðamanna. Þessar umræður fóru fram á útiveitingastað í 25 stiga hita það hljálpar

mánudagur, 24. október 2016

Aðskilnaðarkvíði

Hér á Spáni hefur stjórnarmyndunarkreppu verið afstýrt með því að félagshyggjuöflin hafa ákveðið gera hægrimönnum kleift að mynda minnihluta ríkisstjórn. Ef eitthvað er að marka þessar skoðanakannanir sem birtar eru á Íslandi, sýnist stefna í svipað ástand eftir nokkra daga.
Stjórnarandstöðuflokkarnir eru hættir að tala til kjósenda, en eyða tíma sínum þess í stað á kaffihúsum að ræða um skiptingu kjötkatlanna eftir kosningar. Engin skýr stefna, engir valkostir aðeins glundroði virðist í spilunum.
Píratar eða sjóræningar á íslensku er stærsta stjórnmálaaflið! Samfylkingin í molum í forystukrísu, hvað vannst við reka Árna Pál? Kommarnir tvíefldir í Vinstri grænum með Steingrím í felum. Þeir þjappa sér alltaf saman á óvissutímum. Ætlar fólk aftur að veita honum brautargengi? Björt framtíð án framtíðar, en þó einn ljós punktur að mínu mati. Formaður þeirra talar oft af skynsemi. Ef til vill teknókratísk sýn, en gengur þetta ekki út á að finna nothæfa einstaklinga til að stjórna landinu?
Nýtt afl, sem kennir sig við Viðreisn bíður fram krafta sína. Auðvitað er hér um einsmálsflokk að ræða sem vill inn í ESB, sama hvað. Þeir hafa heitið stuðningi við vinstri. Vita sem er að Steingrímur er til í hvað sem er, bara ef hann verður ráðherra.
Ég þjáist af "aðskilnaðarkvíða" gagnvart Viðreisn. Þarna eru á ferð margir kunningjar, fyrrum samherjar og skólabræður, sem maður hefur deilt geði við á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Einstaklingar sem mér er vel við en er einlæglega ósammála um að ganga á hönd ESB.
Aftur til upphafsins. Erum við ekki á sama róli og stjórnmál almennt í Evrópu, sem einkennast af því að "hefðbundnir" flokkar eru í erfiðleikum og fólk er leitandi? Eitt er víst, við göngum óvissutíma á hönd í stjórnmálum.

laugardagur, 22. október 2016

.. og ég vissi ekki af því.

Ég á 11 ára afastrák, sem er að auki alnafni minn. Honum finnst gaman í tölvum og vill helst hvergi annars staðar vera. Nú nýlega spurði hann mig undrandi: Afi, hvernig stendur á því að þú ert með heimasíðu og ég vissi ekki af því? Það varð nú eiginlega fátt um svör. Ég er búinn að halda þessari síðu gangandi síðan 2004. Það byrjaði þannig að börnin mín sem öll hafa verið mikið í tölvunum byrjuðu að blogga og ég var forvitinn og langaði að prófa líka. Þau aðstoðuðu mig við að opna síðu og ég man þegar ég byrjaði á þessu var ég svo spéhræddur og feiminn að ég þorði varla fyrir mitt litla líf að skrifa á bloggsíðuna mína. Svo vandist þetta og næstu árin var ég nokkuð duglegur. Síðan kom facebook og bloggið mitt datt niður og ég var næstum því hættur að blogga. En skelti inn einu og einu þess í milli. Þau eru öll löngu hætt aða blogga og líklegast búin að loka sínum bloggsíðum. Ég held mínu áfram meðan ég get og nenni. Hvað gerir maður ekki fyrir barnabörnin. Ég velti því stundum fyrir mér hversu lengi þessi síða muni verða til. Hef kynnst því að vefsíður og myndasíður hafa horfið sporlaust á netinu.  Þetta pár er þá bara eins og að skrifa í sandinn. Næsta alda kemur og skolar þessu pári í burtu. Hinsvegar finnst mér gaman að pára stundum svona á bloggið. Það festir betur í minni og mótar afstöðu um menn og málefni með markvissari hætti. En til hvers er maður þá að þessu. Jú líklegast til þess að deila skoðun sinni og hafa áhrif á þig, helst til góðs.

laugardagur, 8. október 2016

Þetta er Jakinn

"Farðu úr sætinu mínu strákur!" Með þessum orðum kynntist ég Guðmundi J(aka) á fundi í Aflamiðlun, nefnd sem skipulagði útflutning á ísfiski á tíunda áratug síðustu aldar. Það kom mér á óvart hvað hann var mikið ljúfmenni við nánari kynni. Annað, sem heillaði mig var að hann vissi hver afi minn var, Axel Gunnarsson sem vann hjá Reykjavíkurhöfn. Já, Dagsbrúnarforinginn þekkti sitt fólk. Aðra sögu kann ég af honum. Ég var staddur á fundi í Sjálfstæðisfélagi Kópavogs, þar sem framsögumenn voru Einar Oddur og Guðmundur Jaki. Jakinn sagði í ræðu sinni sögu af Kristjáni Ragnarssyni formanni LÍÚ, sem líka er Flateyringur eins og Einar Oddur. Sagan er í stuttu máli þannig að Kristján kemur inn í frystihúsið á Flateyri með öðrum manni til þess að heilsa sveitungunum. Hann gengur að borðunum í kaffistofunni en þekkir ekki nokkurn mann. Þetta eru allt erlent fólk og Kristján hrökklast út úr frystihúsinu. Maðurinn sem er með Kristjáni í þessari heimsókn er sögumaðurinn og kryddar lýsinguna eftir atvikum. Jakinn var þarna að lýsa þeirri breytingu sem orðin væri í fiskvinnslunni og vestfirsku þorpunum. Sagan þótti fyndin og fólk hló, en mér þótti fyndnast að vera sögumaðurinn nafnlausi í frásögn Jakans og hann hafði ekki hugmynd um það, þar sem ég sat á fundinum. Fyrir ykkur yngri lesendur var Guðmundur Jaki þingmaður og einn frægasti verkalýðsforingi sinnar tíðar. Einar Oddur Kristjánsson var líka alþingismaður, formaður Vinnuveitendasambandsins og útgerðarmaður. Hvers vegna er ég að hugsa um Jakann?. Ég var með móður minni í Hallgrímskirkju í dag og er hún sá Kristlíkneski í kirkjunni, þá segir hún upp úr eins mann hljóði. Þetta er Jakinn.

miðvikudagur, 28. september 2016

if it ain´t broke don´t fix it

Fyrstu árin í starfi hafði ég það starf með höndum að hringja í bankana og spyrja hvort útgerðarlánin færu ekki að hækka. Þetta gerði ég samviskusamlega í nokkur ár og stundum voru þau hækkuð vegna þessa, að ég taldi. Einu sinni á götu, eftir svona hringingar, hitti ég yfirmann afurðalánadeildar Landsbankans. Hann tekur mig tali og spyr mig hvort ég viti ekki hvers eðlis þessi útgerðarlán eru. Ég sagðist telja að þetta væru sérstök lán til útgerðar. Hann brosti þá og sagði sposkur: "Sveinn, þetta er yfirdráttur á tékkhefti." Ég hringdi ekki aftur í bankana til að biðja um almenna hækkun á "útgerðarlánum." Annað dæmi er af útgerðarmanninum fyrir vestan, sem seldi skip sitt og aflaheimildir háu verði og sagðist hættur í þessum rekstri fyrir fullt og allt. Nokkrum mánuðum síðar rakst ég á hann aftur og hann er kominn að nýju í útgerð. Ég var forvitinn um þessi sinnaskipti og spurði hverju þetta sætti. Það stóð ekki á svari. Jú, ég fékk ágætis verð og fékk stærstan hlutann af kaupverðinu greitt með skuldabréfum. Vandinn var sá að það vildi enginn kaupa þessi skuldabréf af mér, nema aðilar í sjávarútvegi. Það er enginn markaður fyrir skuldabréf, sem gefin eru út af aðilum í sjávarútvegi. Þetta eru dæmi um þá breytingu sem orðið hefur í sjávarútveginum. Nú er það almennt viðhorf í landinu að sjávarútvegurinn sé eitt helsta gullegg þjóðarinnar. Eitt helsta keppikefli margra stjórnmálamanna er að brydda upp á framsæknum aðferðum til að skattleggja greinina nógsamlega í þágu heildarinnar. En gætið að, það er auðveldlega hægt að eyðileggja þennan árangur og þarf ekki langan tíma til. Þessvegna segi ég "if it ain´t broke don´t fix it."

mánudagur, 26. september 2016

Stórtónleikar Rótarý - eitt af verkefnum Rótarý Ísland.

Í ársbyrjun á hverju ári í tvo áratugi hefur Rótaryhreyfingin staðið fyrir stórtónleikum. Það var Rótarýklúbbur Reykjavíkur sem hafði frumkvæði að því að efna til fyrstu hátíðartónleikanna árið 1997. Forseti klúbbsins var þá Friðrik Pálsson. Ásamt honum undirbjuggu Gunnar M Hansson og Jónas Ingimundarson tónleikana. Segja má að þessir árvissu tónleikar hafi þróast í það að vera mikilsverður viðburður  í tónlistarlífi landsins og tónlistarlegri fræðslu okkar Rótarýfélaga, lítil tónlistarakademía sem fært hefur gestum gleði og fegurð í upphafi árs. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í Borgarleikhúsinu og komu þar fram margir kunnir tónlistarmenn.  Síðar voru tónleikarnir haldnir í mörg ár  í Salnum í Kópavogi, einum fullkomnasta tónlistarsal landsins, en nú hin síðari ár í Hörpunni. Það hallar á engan þótt það sé tekið fram að Jónas Ingimundarsson hefur borið hitann og þungann af hinni listrænu hlið stórtónleikanna. Auk þess sem hann hefur leikið undir á píanó á mörgum þeirra og talað við og frætt gesti. Tónleikarnir hafa ávallt verið vel sóttir og oft hafa færri fengið  miða en vildu.
Fjöldi ungra og hæfileikaríkra söngvara og hljóðfæraleikara hefur komið fram á stórtónleikunum Rótaryhreyfingarinnar. Þessir ungu listamenn  hafa þannig fengið tækifæri til þess að kynna sig á sviði  margir hverjir í upphafi ferilsins.
Árið 2003 var Tónlistarsjóður Rótarý á Íslandi stofnaður fyrir þann ágóða sem varð af stórtónleikunum.  Sjóðurinn hefur haft það að markmiði að styðja unga efnilega tónlistarmenn til frekara náms. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari fékk fyrstu viðurkenningu sjóðsins á 100 ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar árið 2005.  Styrkir úr sjóðnum hafa verið afhentir á þessum tónleikum og vart er hægt að hugsa sér glæsilegri umgjörð í því tilefni.
Stórtónleikar Rótarý eru gott dæmi um þau verkefni, sem hreyfingin hefur staðið að í okkar samfélagi, Rótarýhreyfingunni til sóma og ungum tónlistarmönnum til uppbyggilegrar hvatningar. Því má bæta við að hér er dæmi um það hvernig öflugt sjávarútvegsfyrirtæki vinnur að sjálfbæri nýtingu sjávarauðlinda, styrkir menninguna og félagsstarfsemi í landinu samanber auglýsinguna sem gerði birtingu þessarar greinar mögulega.
Sveinn Hjörtur Hjartarson

föstudagur, 23. september 2016

Þú ferð ekki að gefast upp núna!

Skemmtisögur um áfengisnotkun eða frásagnir af dramafullum sögum af misnotkun áfengis eru ef til vill ekki hæfi á þessum vettvangi. En eina slíka sanna sögu datt mér í hug í morgun, sem ég ætla að láta flakka. Skipverji á togara sem þótti sopinn góður, meira en góðu hófi gegnir, hafði tekið hraustlega á því í inniveru skips. Á föstudegi kemur hann niðurlútur til útgerðarmannsins og illa haldinn af fráhvörfum eftir sukksama daga, búinn að eyða öllum sínum peningum í vín og skemmtan. Skipverjinn er ráðviltur og daufur og sér ekki fram úr sínum málum, enda ástandið eftir því. Þá kveður útgerðarmaðurinn upp úr og segir: " Hva, þú ferð ekki að hætta núna, við förum ekki á veiðar fyrr en eftir helgi." Réttir honum því næst tvær flöskur og peninga." Gleðibros breiddist yfir sjúskað andlit mannsins og hann hvarf glaður á braut. Sögunni fylgdi að hann hafi síðar bætt ráð sitt í þessum efnum og verið lengi í þjónustu útgerðarinnar. Heitir þetta ekki að sjá brýnustu þarfir starfsmanna sinna án þess að þeir þurfi að biðja? 

miðvikudagur, 14. september 2016

Þrjátíu ára gömul hugleiðing og sjálfspeglun.

Eftirfarandi texti spratt fram við lestur fyrirtækjatalsins, Heildverslanir 1987, útgefið af Félagi íslenskra stórkaupmanna og skrifuð á spássíur þess á því skattlausa ári.

„Það er einkennilegt hvernig maður getur vaxið frá sumum draumum sínum. Einu sinni ætlaði ég að vera sjálfs míns herra. Reka eigið fyrirtæki, heildverslun eða eiga önnur viðskipti. En árin líða eitt af öðru og nú er ég orðinn „kerfiskarl“ í þjónustu annarra.

Í stuttu máli lifi ég af því að velta pappírum frá einni borðbrúninni að þeirri næstu. Skoða tölur, sem segja sögu annarra. Hvort þeir hafi þénað milljóninni meira eða minna  á síðastliðnu ári, svo rýni ég í meðaltalsreikninga útbúna af kollegum, sem svipað er ástatt um. Þess í milli velti ég mér upp úr hugsunum um eigin persónu og því hvort ég sé meiri eða minni karl en ég var í gær, í fyrra eða fyrir fjórum árum.

Fyrir allt þetta allt þigg ég sæmilegustu laun, miðað við enn aðra meðaltalsreikninga, sem gerðir eru af félagi Viðskipta- og hagfræðinga fyrir þá, sem svipað er ástatt um og eru flestir í svipaðri stöðu og ég.

Hugsun okkur leikrit með dágóðum fjölda leikenda, þannig er lífið. Sumir hafa stór hlutverk, aðrir smærri. Stóra spurningin er væntanlega fyrir þann, sem er í litla hlutverkinu, hvort hann geti komist í „aðalhlutverkið.“ Augljóslega eru margar hindranir á veginum. Sú fyrsta er sjálfur leikarinn, sem leikur aðalhlutverkið. Getur nokkuð velt honum úr sessi. Síðan er það hlutverkið sjálft. Hvers konar persónugerð er um að ræða. Það er erfitt fyrir lítinn og feitan að taka að sér hlutverk hins stóra og granna. Þannig mætti lengi halda áfram.

Öll höfum við leikendur væntingar um „stóra“ hlutverkið, sem færir okkur frægð og frama og síðast en ekki síst virðingu og viðurkenningu annarra. Það er erfitt að gefa einhlít ráð við svona hugleiðingum, en samt er ýmislegt, sem vert er að hugleiða:

1.      Af störfum sínum er að lokum hver og einn metinn.
2.      Ræktun persónuleika, andlega, menntunar, framkomu og líkamlegs atgervis skiptir hér miklu.
3.      Óbrengluð hugsun og hæfileg skynsemi er ómetanlegt veganesti.
4.      Ákvarðanataka og framkvæmd í kjölfarið skiptir miklu.
5.      Þolinmæði hefur mikið að segja.
6.      Fálkinn er ránfugl. Hann tekur bráð sína og er árásargjarn. Það má taka hann til fyrirmyndar.
7.      Hollusta og heilsusamlegt líferni, ásamt gæfu er líka nauðsynlegt.“



mánudagur, 5. september 2016

Í minningu Stefáns Sigurðssonar

Við félagar Stefáns Sigurðssonar í Rótarýklúbbi Kópavogs minnumst með þakklæti og hlýhug félaga okkar við skyndilegt fráfall hans.
Okkur þótti mikill fengur að því að fá Stefán til liðs við klúbbinn fyrir nokkrum árum og væntum okkur mikils af þátttöku hans um ókomin ár. Hann hafði af mikilli reynslu og þekkingu að miðla úr atvinnulífinu, sem vel þekktur veitingamaður, kokkur og framkvæmdastjóri veitingahússins Perlunnar.
Stefán var umfram allt góður félagi og vinur. Hjálpfús, hófsamur og alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd hvenær sem færi gafst. Hann var jafnframt kappsamur og metnaðarfullur í störfum sínum og í fremstu röð í hverju sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann var úr hópi gjörvulegra Kópavogsbúa, sem ólst upp á frumbýlisárum bæjarfélagsins. Æskuheimili Stefáns var viðkomustaður margra Kópavogsbúa á þessum árum, enda faðir hans og móðir leiðandi í málefnum bæjarins um árabil.
Saga Stefáns og afrek, sem ekki verða tíunduð í stuttu máli eru til marks um dugnað þess fólks og þeirra fjölskyldna, sem byggðu sér heimili í Kópavogi og ólu hér upp harðduglegt og gott fólk.
Sjálfur varð Stefán forvígismaður í sínum störfum eins og hann átti kyn til.
Stefán fylgdi með klúbbsaðild sinni í fótspor föður síns, Sigurðar Helgasonar hrl., sem var einn af stofnfélögum, bróður, Helga Sigurðssonar, sem er fyrrverandi forseti klúbbsins og systur, Margrétar Maríu Sigurðardóttur, sem er fyrsta konan, sem gerðist félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs.
Hugur okkar er hjá eiginkonu, sonum og fjölskyldu hans og við biðjum þess að almáttugur Guð styrki þau. Við þökkum Stefáni samfylgdina.
Fyrir hönd Rótarýklúbbs Kópavogs,
Sveinn Hjörtur Hjartarson.

Til Grænlands að nýju

Átti nokkra góða daga á Grænlandi í síðustu viku. Tilefnið var þátttaka í vestnorrænni ráðstefnu, sem bar yfirskriftina fiskveiðistjórnun, gagnkvæmur ávinningur fyrir atvinnulíf og samfélag. Þátttakendur voru frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þó að aðstæður séu um margt ólíkar í löndunum var gott að heyra af þeirri umræðu, sem fram fer í hverju landi um þennan málaflokk. Við Íslendingarnir stóðum fyrir þema sem nefndist fiskveiðistjórnun, byggðapólitík og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Farið var yfir þann mikla árangur sem náðst hefur í því að ná tökum á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu fiskimiðanna. Þar liggur að stórum hluta hin samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna þ.e. að vinna að sjálfbærri nýtingu, ásamt fjölþættri ábyrgð á mörgum sviðum gagnvart starfsfólki og samfélagi. Við erum ekki einir um það að ná góðum árangri á þessu sviði, þótt augljóslega höfum við um margt verið brautryðjendur. Danskur prófessor hélt erindi um hversu langt Danir eru komnir í að bæta samkeppnishæfi sjávarútvegsins og hversu hratt nauðsynleg hagræðing hefur gengið fyrir sig þar í landi. Umræða um veiðigjöld var fyrirferðamikil. Færeysk stjórnvöld eru í umdeildri tilraunarstarfsemi með uppboð á veiðiheimildum, sem ekki sér enn fyrir endann á. Það var sannarlega gaman að koma til Grænlands að nýju, en síðast kom ég þangað fyrir 30 árum. Maður nýtur frábærrar náttúru og gestristni heimamanna og endurnýjar gamlan kunningskap við kollega og kynnist nýju áhugaverðu fólki. Ég ætla að gera orð grænlensks gestgjafa okkar að mínum lokaorðum um þessa ferð, þar sem við sátum í "besta" bátnum í skoðunarferð um Ísfjörðinn eftir ráðstefnuna.(Það var boðið upp á bjór í þessum eina bát.) Hann sagði: "Drengir, við bjóðum ykkur allt það besta í dag, sem landið skartar, í eins góðu veðri og hugsast getur. Pabbi minn sagði, að maður ætti að njóta dagsins, því að enginn veit hvað morgundagurinn hefur í för með sér, skál."

fimmtudagur, 11. ágúst 2016

Þingeyrarþankar um þorsk

Þróun  sjávarútvegs á síðustu áratugum


Þorskurinn er okkar mikilvægasti nytjastofn. Hlutfall hans í útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur um árabil verið um 30%. Í ljósi nýjasta fjölrits Hafró um nytjastofna og aflahorfur er full ástæða til bjartsýni um áframhaldandi vægi þorskveiða. Þar kemur fram að þorskstofninn hefur verið að vaxa og langtímahorfur eru góðar. Hrygningarstofninn hefur ekki verið stærri í 40 ár. Segir í skýrslunni að meðalþyngd sé nálægt langtímameðaltali síðustu 60 ára og hann verði nú kynþroska síðar. Kynþroskahlutfall 6 ára þorsks hefur lækkað úr 50% á síðustu árum í 30%. Það þýðir að náttúran sjálf metur ástand stofnsins viðunandi og frestar kynþroska.
Hagkvæmari veiðar
Aflaráðgjöf Hafró á næsta fiskveiðiári nemur 244 þúsund tonnum og hefur sjávarútvegsráðherra farið að tillögum stofnunarinnar. Hægt og bítandi vaxa aflaheimildir að nýju sem staðfesting á því að uppbyggingarstarfið hafi tekist, þrátt fyrir svartsýnisspár margra. Það sem er einstakt í þessu uppbyggingarstarfi er að atvinnugreinin sjálf hefur borið þá gæfu að standa sjálf vörð um þetta starf.
Fjölrit Hafró er í góðu samræmi við fréttir af veiðum og vinnslu í helstu sjávarbyggðum landsins. Það er mun auðveldara að sækja þorskinn en áður og meðalþyngd landaðs afla hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum. Þetta þýðir að það eru færri fiskar í hverju tonni sem veitt er og það tekur styttri tíma að ná í aflann. Veiðarnar verða þar af leiðandi hagkvæmari og vinnslan sömuleiðis.
Togurum fækkar
Uppbyggingarstarfið hefur haft miklar breytingar í för með sér fyrir atvinnugreinina og sjávarbyggðir. Þess sér stað í mikilli fækkun aflamarksskipa á undanförnum árum með tilheyrandi raski fyrir mörg byggðarlög og starfsfólk. Árið 1985 voru skráðir um 106 ísfisktogarar í landinu (39 metrar og lengri). Á Vestfjörðum einum voru þeir 22 talsins. Nú eru þrír ísfisktogarar gerðir út frá Vestfjörðum og einn frystitogari. Alls eru ísfisktogarar (39 metrar og lengri) um 14 talsins. Töluverðum fjölda ísfisktogara var breytt í frystitogara, sem verka og vinna afla um borð. Í þessum flokki skipa eru um 15 skip í dag en þau voru um 35 þegar þau voru flest.
Togaravæðingin mikla
Stefna stjórnvalda í atvinnuuppbygginu sjávarbyggða, kölluð togaravæðingin mikla, sem hófst í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar fól í sér mikið ofmat á aðstæðum og gjaldþrot fyrir marga. Það voru í raun ekki forsendur til þess að minni byggðarlög gætu rekið einn til tvo togara og frystihús. Þessi stefna er skólabókardæmi um það hvernig ekki eigi að standa að atvinnuuppbyggingu. Hvergi var þetta augljósara en hér á Þingeyri, þar sem þessi pistill er skrifaður.
Þorskstofninn einn og sér þoldi ekki stóraukinn sóknarþunga og það á við um fleiri stofna. Þekking og kunnátta til þess að reka fyrirtæki vantaði í sumum þessara fyrirtækja. Við sjáum nú að rekstur stærri eininga er á þeim stöðum þar sem til staðar er mannafli og aðstæður til þess að sinna þessum rekstri með góðu móti. Minni sjávarþorp hafa sniðið sér stakk eftir vexti og stunda sjósókn sem tekur mið af aðstæðum.    
Hröð framþróun 
Það er athyglisvert að upplifa hversu hröð þróun í vinnslu á þorski hefur verið á undanförnum árum. Áherslan er í vaxandi mæli á unnar ferskar afurðir sem sendar eru beint héðan á markaði erlendis. Róbótar og fullvinnslulínur eru að ryðja sér til rúms, þar sem mannshöndum við flæðilínurnar fækkar ár frá ári. Um þetta vitnar ný framleiðslulína hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, en þar sinna róbótar  verkefnum til að létta og hraða vinnu.
Það sem skiptir sköpum við vinnslu og sölu á þorskafurðum í dag er gott aðgengi að flutningstækjum úr landi, hvort heldur er með flugi eða skipum. Framfarir í meðhöndlun og flutningatækni eru lykilþættir í því hversu vel hefur tekist í þessum efnum.

Aukið markaðsstarf
Næsta stig í viðleitni okkar til að auka verðmæti þorskafurða er að vinna aukið markaðsstarf. Þorskafurðir eru almennt mun lægri í verði en eldislax í verslunum erlendis. Það gefur tilefni til að ætla að verð á þorskafurðum hafi svigrúm til að hækka mikið á komandi árum a.m.k. til jafns við eldislax. Það verður ekki gert öðruvísi en með nýrri hugsun í markaðsstarfi, þar sem haft verður að leiðarljósi sú augljósa staðreynd að það eru til venjulegir strigaskór og það eru til Nike strigaskór.

Höfundur er hagfræðingur.
Greinin birtist í Fiskifréttum júlí 2016

fimmtudagur, 28. júlí 2016

Sumarfrí í Svíþjóð

Við höfum nú verið tvær vikur hér í Hässleholm í Svíþjóð og átt hér góða daga. Fyrri vikuna vorum við með bifreið og notuðum tækifærið til að ferðast um. Eftirminnilegast er ferð til Ölands en þangað höfðum við ekki komið í tæpa fjóra áratugi. Skoðuðum vitann Lange Jan í suðri og Solliden höllina. Í Kalmar gistum við eina nótt og notuðum tækifærið til að heimsækja Kalmar kastala, sem er mikil og glæsileg bygging sem á langa sögu. Við keyrðum Glasrundan til baka og komum við í Nybro, Boda, og Kosta. Hér í nær höfum við farið til Kristianstad, Yngsjö og víðar. Þessa vikuna höfum við haldið okkur í Hässleholm utan einn dag sem við skruppum til Kaupmannahafnar. Þetta hafa verið ljúfir dagar og hitinn verið allt að 27 gráður og sól. Miðar ekki ágæti fría við það hversu sólarstundirnar eru margar?

þriðjudagur, 5. júlí 2016

Dýrafjarðardagar


Það er gott að skipta um umhverfi og vera þorpari í litlu þorpi vestur á fjörðum, nánar tiltekið Þingeyri við Dýrafjörð. Hér þessa helgi eru Dýrafjarðardagar. Boðið er upp á ýmsa afþreyingu fyrir gesti og heimamenn. Í dag tókum við Lilja sonardóttir okar þátt í ratleik. Mitt hlutverk var nú bara að koma henni í lið. Ég hefði ekki átt séns í að hlaupa á eftir þessum fimm skottum í liðinu hennar, Sykurpúðunum, eins og þær kölluðu sig um þorpið. Svo á kvöldgöngunni mættum við hópi föngulegra meyja að að fara á ball. Sveimérþá ef blikið í augum þeirra sagði ekki, "komdu með ungi maður." Við vorum fyrr í dag á Bolungarvík og hittum Mörthu hans Karvels heitins og Stínu dóttur hans. Það voru fagnaðarfundir. Mamma og Martha fóru saman að horfa á börn spreyta sig í söng. Myndin sem ég tók af þeim er lýsandi fyrir gamlan og góðan vinskap, sem hefur verið milli foreldra minna og Mörthu og Karvels um áratugaskeið.
Martha og Unnur 

Við höfum gert hér ýmislegt til dægrastyttingar. Farið í ferðir til Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. Farið yfir heiðarnar háu og notið ægifagurs útsýnis á Hrafnseyrarheiði og Dynjanda. Dorgað á bryggjunni á Þingeyri og átt hér hina ljúfustu daga.
Lilja dorgar á Þingeyri
Þá höfum við fylgst með gengi íslenska landsliðsins í fótbolta á EM og haft gaman af. Ég fór eitt kvöldið og horfði með nokkrum Ítölum á lið þeirra tapa í vítaspyrnukeppni fyrir Þjóðverjum og svo fór ég í strætisvagn sem hér er og horfði á leik Íslands og Frakklands. Gestirnir klöppuðu alltaf á vitlausum stað þannig að ég laumaði mér aftur í Litlaholt og horfði á leikinn þar.

sunnudagur, 26. júní 2016

Nýr forseti

Líst alveg ljómandi vel á Guðna Th Jóhannesson, nýjan forseta Íslands. Þekki hann ekki persónulega, en hefur oft fundist hann frambærilegur viðmælandi í sjónvarpi. Hinsvegar þekkti ég föður hans, Jóhannes Sæmundsson.  Hann var leikfimiskennari minn í Menntaskólanum í Reykjavík.
Eftirminnilegt er samtal okkar Jóhannesar þegar hann sagðist í samskiptum við mig hafa gert sér grein fyrir að hann væri að kenna ungu fólki en ekki unglingum, sem glímdi margt við sömu viðfangsefni og hann.
Hann var að vísa til þess að við hefðum eignast syni á sama ári. Jóhannes var boðberi nýrra aðferða í leikfimi og Tjarnarhlaupa menntaskólanema m.m. Hann lést árið 1983 langt um aldur fram.
Hann var okkur strákunum góður kennari og umfram allt hvetjandi í störfum sínum. Það var ómetanlegt að umgangast hann á þessum árum og njóta hvatningar hans og velvilja.

Óska nýjum forseta til hamingju með embættið.

þriðjudagur, 21. júní 2016

Brexit, inni eða úti

Það er ekki mikil umræða hér á landi um Brexit þ.e. hugsanlega útgöngu Breta úr ESB. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hver áhrif þess verða í álfunni hætti Bretar í sambandinu, hvað þá á okkur Íslendinga.

 Svörtustu spár spá verulegum samdrætti í efnahagslífi Breta, vaxandi atvinnuleysi og gengissigi. Því er haldið fram að þessi staða muni hafa versnandi áhrif á efnahagslíf okkar í ljósi þess að Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar. Aðrir gera minna úr þessum efnahagslegu áhrifum og halda því fram að Brexit muni leiða til þess að nýir möguleikar skapist. 

Eftir stendur að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer má ljóst vera að ESB er á tímamótum. Verulegir erfiðleikar í jaðarríkjum kringum þýsk - franska öxulinn skapar mikla óvissu í álvunni. (Svo er Frakkland ekkert í sérstaklega góðum málum, en hafa gamalt og gott tak á Þjóðverjum).

Stórmál eins og Schengen og evran og ójöfn samkeppnisskilyrði á innri markaði bandalagsins eru mikil vonbrigði. Ljóst að evran er mun veikari en talið var. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með helsta talsmanni Brexit úr flokki íhaldsmanna Boris Johnson, sem heldur því blákalt fram að ESB sé steinrunnið batterí, sem kosti Breta stórfé en skili litlum sem engum árangri.

 Hamrað er á hlutverki ESB sem öryggisstofnun fyrir Evrópu m.a. hefur Obama blandað sér í umræðuna hvað það varðar. Reyndin er hinsvegar sú að ESB hefur náð afar takmörkuðum árangri á þeim vettvangi.

 Sambandið og stofnanir þess hefur aftur á móti reynst góð "mjólkurkú" fyrir bírókrata, sem hafa haft góða afkomu í Brussel á meðan fólk í aðildarlöndum ESB hefur það í vaxandi mæli fremur skítt.

 Í öllu falli er ljóst að gangi Bretar úr ESB eru framundan miklar breytingar í farvatninu á vettvangi Evrópumála. Stofnanir og hinir betur settu vilja óbreytta aðild en almenningur í Bretlandi, grasrótin, virðist vera búin að fá sig fullsadda af þessum félagsskap. Nóg í bili.

mánudagur, 20. júní 2016

St Etienne, ég var þar

Leikur Íslands og Portugals í fótbolta er einn af þessum atburðum í lífinu, þar sem maður er viðstaddur og gleymir seint. Þetta var fyrsti leikur Íslands í Evrópumeistarakeppni í knattspyrnu karla. Leikurinn endaði með jafntefli 1 1.

Andstæðingurinn var verðugur, eitt öflugasta lið keppninnar, þó ekki væri nema það eitt að hinn knattknái Ronaldo er í liðinu. Stemningin á vellinum var mögnuð allan leikinn.

Þegar við komum loks til St Etienne var klukkan ríflega sjö að kvöldi. Leikurinn hófst kl. 21.00. Tíminn leið sem örskotstund og áður en við vissum af vorum við farin að syngja lagið Ég er kominn heim og svo þjóðsönginn.


Við lögðum af stað frá St. Etienne upp úr miðnætti og vorum komnir í Mylluna í Commessey klukkan hálf fimm að morgni sælir og glaðir.

þriðjudagur, 7. júní 2016

Eldhugar Fjölsmiðjunnar


Þessir tveir, Ásgeir Jóhannesson og Þorbjörn Jensson hafa báðir verið útnefndir Eldhugar Kópavogs. Ásgeir fyrir að hafa átt hugmyndina og stofnað Fjölsmiðjuna og Þorbjörn fyrir að hafa rekið hana með frábærum árangri í finmtán ár. Fjölsmiðjan er vinnustaður fyrir ungt fólk, sem skólakerfið hefur gefist upp á. Verkefnið hefur vaxið og dafnað undir stjórn Þorbjörns, sem um árabil var þjálfari landsliðsins í handbolta. Ljósið formar geislabaug yfir höfði Ásgeirs til marks um það að hann ætti hann skilið fyrir sitt mikilvæga brautryðjendastarf. Það er ómetanlegt að á meðal okkar er fólk, sem hugsar í lausnum og er tilbúið að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins og ungu fólki til heilla.

mánudagur, 6. júní 2016

Minnisstæður útgerðarmaður

Hjó eftir því hjá Elísabetu Jökulsdóttur í umræðuþætti í gær að hún nefndi nafn útgerðarmanns og skiptstjóra sem var ágætis kunningi minn. Hann hét Óskar Þórarinsson, stundum kenndur við bát sinn Frá VE í Vestmannaeyjum. Af öllum þeim útvegsmönnum sem ég hef kynnst á 30 ára ferli hjá samtökum útvegsmanna voru fáir betur máli farnir en Óskar. Það var hrein unun oft á tíðum að hlusta á hann reifa málin á útvegsmannafundum, þótt hann væri ekkert alltaf sammála síðasta ræðumanni. Hann var hnittinn með afbrigðum og beittur í senn. Hann gat verið mikill grallari og gleðimaður var hann. Víðlesinn og fróður um margt. Fræg er sagan þegar hann keypti verðlauna stóðhestinn upp á landi á einhverju hestamannamótinu. Eftir nokkurn tíma var hringt og hann spurður hvort ekki ætti að fara sækja gripinn. Óskar mundi ekkert eftir þessum kaupum en skoðaði í tékkheftið sitt og mikið rétt þar stóð hrossakjöt fyrir 700 þús. krónur. Já, eða þegar þeir fóru á barinn í Tryggvagötu nokkrir félagar úr Eyjum og ætluðu að finna þar reykvískan glæpon, sem þeir höfðu heyrt að héldi til þar. Mikið rétt þeir sáu einn við barinn, sem gæti verið glæpon. Tókum manninn tali og spurðu hann hvaða starf hann hefði með höndum. Það stóð ekki á svari: Ég er bara svona venjuleg fyllibytta eins og þið. Síðar kom í ljós að maðurinn var prófessor við Háskóla Íslands og fór vel á með þeim þarna á búllunni. Óska sjómönnum og útgerðarmönnum til hamingju með daginn.

föstudagur, 3. júní 2016

Eftirmálin af þeim grænlensku

Má eiginlega til með að segja ykkur frá málalokum í samskiptum við grænlensku sjómennina, sem komu hingað árið 1992 til að veiða "grænlensku" loðnuna, sem við leigðum af þeim. Þetta var í fyrsta skipti sem viðskipti með aflaheimildir áttu sér stað milli landa, það best ég veit.

Það gékk því miður margt úrskeiðis hjá okkur við að koma þeim um borð í loðnuflotann þegar verið var að veiða grænlenska kvótann. Bæði voru þess valdandi land- og veðurfræðilegar aðstæður, einhverjir skipstjórar vildu þá ekki um borð, en svo var líka hitt að biðin var sjómönnunum erfið, sérstaklega áfengið og í einhverjum tilvikum konur. Aðrir komust með í túr.

Hann var færeyskur, útgerðarstjórinn hjá stóru útgerðarfyrirtæki, sem ég var í samskiptum við vegna fullnustu þessa tímamóta veiðisamnings. Nokkru eftir að sjómennirnir koma til Grænlands hringir hann í mig og segir að nú séu góð ráð dýr. Þeir séu með himinháar bótakröfur vegna svikinna loforða um skipsrúm á Íslandi.


Ég átti minnislista yfir hvern og einn sjómann, hvert þeir fóru, hvernig þeir höfðu hagað sér og af hverju þeir hefðu ekki komið til skips. Hann var æði skrautlegur án þess að ég greini frá því í smáatriðum. Það næsta sem ég frétti frá Grænlandi var að það yrðu engin eftirmál vegna vanefnda á samningnum eftir fund með sjómönnunum.

Sumarið eftir var sjávarútvegsráðstefna hér á landi og ég frétti að þar væri færeyskur maður sem vildi hitta mig. Þetta var þá kontaktaðili minn í Grænlandi vegna grænlenska kvótans.Hann sagði mér upplýsingarnar hefðu komið sér vel.

Þegar hann hóf lestur listans hurfu allar kröfur eins og dögg fyrir sólu og allt annað hljóð var komið í menn. Þeir sögðu að Íslendingar væru frábærir og hefðu gert vel við sig. Einn sagðist hafa fengið gefins klukku og þeir gerðu enga kröfur um bætur.

Þar með var þessi fyrsti leigusamningur á grænlenskum aflaheimildum fullefndur.

mánudagur, 30. maí 2016

Nýja nýja Ísland

Við verðum að ræða hvaða áhrif ferðamennska hefur á atvinnumál, vinnumarkaðinn, landnýtingu, íbúa- og byggðaþróun svo nokkuð sé nefnt. Hvers væntum við á ferðamannalandinu Íslandi? Hér  á meðfylgjandi mynd má sjá farþegafjölda um Keflavíkurflugvöll til Íslands (skv. Hagstofu).



Í lok 20. aldar og byrjun þessarar var mikið talað um nýja hagkerfið þ.e að lykilstarfsemi fyrirtækja mundi ekki lengur snúast um framleiðslu heldur óefnislegar eignir þeirra s.s. vörumerki, tækniþekkingu og fleira. Framleiðslan mundi flytjast í austurveg til Kína og fleiri landa. Upplýsingatæknin átti að vera lykilþáttur í starfsemi fyrirtækja.

Um margt hefur þetta ræst. En við megum ekki gleyma því að það var framleiðslugeta þjóðarinnar, sérstaklega í sjávarútvegi, sem var okkar helsta haldreipi í efnahagshruninu.

Áleitin er sú spurning hvort skólakerfið þjónar lengur með skilvirkum hætti þeim breytingum, sem eiga sér stað eða hvort það aðlagar sig á síðari stigum. Er áhersla á klassíska bóknámið úrelt menntaleið miðað við vinnuaflsþörf  á næstu áratugum? Ekki síst í ljósi þess að "Google" þ.e. youtube og wikipedia virðast hafa svör við flestum spurningum.

Í sjávarútvegi heldur sama þróun áfram. Litlu og meðalstóru fyrirtækjunum fækkar áfram og fyrirtækin verða færri og stærri. Sjálfvirkni tækninnar mun minnka enn frekar mannaflaþörf í fiskvinnslu og fiskveiðum á næstu árum. Fyrirsjáanleiki í aflaúthlutun næstu ára gefur atvinnugreininni tækifæri til þess að skipuleggja starfsemina enn betur og hagkvæmni eykst.

Hvað tekur við af sjávarútveginum í strandbyggðum? Vaxandi ferðamennska? Þetta eru nokkrar af þeim grundvallarspurningum sem við þurfum að ræða og rannsaka til þess að mæta gjörbreyttum áherslum í íslensku samfélagi.

Í landbúnaði munu stóru búin sækja að litlum og meðalstórum búum eins og í sjávarútvegi. Sjálfvirkni, aukin tæknivæðing og stærð markaðarins mun ekki leiða til fjölgunar starfa.

 Þjónustugeirinn er að vísu drjúgur hvað störf varðar, en fyrirsjáanlegur samdráttur í bönkum og þjónustustofnunum er ekkert sérstaklega uppörvandi hvað varðar fjölgun vel launaðra starfa í þessum geira.

Í ferðaiðnaði er obbinn af starfsframboðinu mikið láglaunastörf og yfirleitt störf við þjónustu almennt s.s. verslun.

Hvernig munum við þróa nýtt Ísland, fjölmenningarsamfélagið? Hvað ber að forast, hvert viljum við stefna?

Þessar fjölmörgu spurningar leiða aftur til spurningarinnar í upphafi um hvers við væntum. Hvar liggja tækifæri framtíðarinnar fyrir ungt langskólagengið fólk? Þetta er áleitið umhugsunarefni þessa dagana þegar stór meirihluti hvers útskriftarárgangs skrýðist hvítum kollum úr menntaskólum landsins. Verður það til þess að eldri kynslóðir hverfa fyrr af vinnumarkaði en áður?


þriðjudagur, 24. maí 2016

Söngfélag Skaftfellinga


Þá er lokið viðburðarríkum söngvetri Söngfélags Skaftfellinga 2015/2016. Hér að neðan er yfirlit yfir vetrarstarfið. Eins og skýrsla stjórnar ber með sér er Söngfélagið líflegur kór karla og kvenna og ein meginstoð í starfsemi Skaftfellingafélagsins.


Skýrsla stjórnar veturinn 2015/2016


Fyrsta æfing kórsins var haldin þriðjudaginn 15. september í Skaftfellingabúð.  Æfingar voru á þriðjudögum eins og undanfarin ár. Langur laugardagur var haldinn fyrir áramót þriðjudaginn 31. október.
Helstu viðburðir á dagskrá kórsins var fjölsótt aðventuhátíð sem haldin var 6. desember. Þá voru sjúkrastofnanir heimsóttar 8. desember. Farið var á geðdeild LSH og Landakot. Að auki sáum við um söng í guðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju og heimsóttum Hjúkrunarheimilið Eir þann sama dag, 27. desember. 
Æfingar á vorönn hófust þriðjudaginn 12. janúar í Skaftfellingabúð. Langur laugardagur var haldinn 20. febrúar. Farið var í kvöldheimsókn til Gerðubergskórsins föstudaginn 11. mars og sungu kórarnir nokkur lög í Fella- og Hólakirkju. Þetta var vel sóttur atburður og þótti takast vel.
Kórinn söng við Skaftfellingamessu 13. mars og í framhaldi var boðið upp á messukaffi á vegum kórsins og Skaftfellingafélagsins. Að þessu sinni komu kirkjukórar Víkur, Ása og Prestbakkakirkju og sungu einnig við messuna. Sameiginlegur kvöldverður með kórunum var á Hótel Holti laugardagskvöldið 12. mars.
Lokatónleikar voru haldnir 1. maí í Seltjarnarneskirkju eins og undanfarin ár. Þrír undirleikarar spiluðu undir í hluta laganna, þeir Jón Rafnsson bassaleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Karl  Olgeirsson á píanó. Tónleikarnir tókust mjög vel og voru vel sóttir. Eftir tónleikana var svo boðið í vorkaffi Skaftfellingafélagsins og kórsins í Skaftfellingabúð.
Vorferð kórsins var farin austur í Vík í Mýrdal helgina 7.-8. maí og og tókst mjög vel. Rúmlega þrjátíu manns fóru í þessa ferð og var sungið á fjórum stöðum: Dvalarheimilinu Lundi á Hellu, veitingahúsinu Svörtu Fjöru í Mýrdal, Dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík og svo tónleikar á Icelandairhoteli í Vík. Gist var á Hótel Kötlu að Höfðabrekku og borðaður sameiginlegur kvöldverður. Allt var þetta hin besta skemmtun og tókst í alla staði mjög vel.
Virkir söngfélagar hafa verið 35 í vetur en heldur kvarnaðist úr hópnum er leið á starfsárið. Yfirleitt hafa mætt um 28 manns á æfingar. Æfingargjald fyrir hvora önn var 15.000.-  Margrét Bóasdóttir kom á tvær æfingar til þess að raddþjálfa kórinn, en kórstjóri í vetur hefur verið Friðrik Vignir Stefánsson.
Í stjórn hafa verið í vetur Sveinn Hjörtur Hjartarson formaður, Sigurlaug Jóna Sigurðardóttir, Kristjana Rósmundsdóttir, Helga Lilja Pálsdóttir, Gísli Þórörn Júlíusson, Svanhildur Kristjánsdóttir og Þórunn Jónasdóttir. Stjórnin hélt fjóra formlega stjórnarfundi. Meðstjórnendum er þakkað gott samstarf á liðnum vetri.









Siðbótin byrjar hjá okkur sjálfum

Var minntur á það í dag að á hverjum degi erum við fyrst og fremst að takast á við okkur sjálf. Þetta þekkja fáir betur en þeir sem kynnst hafa áfengisvanda, tóbaksnautn, matarnautn, vandræðum í skóla, vinnu og svo mætti áfram telja. Hvað varð til þess að ég fór að velta þessu upp. Jú, félagi minn sagðist vera með tvær spurningar sem hann vildi ræða í hádeginu.

Í fyrsta lagi hvernig við gætum komið í veg fyrir vaxandi spillingu í þjóðfélaginu og í öðru lagi hvernig vinnum við gegn vaxandi misskiptingu gæða? 

Mín fyrstu viðbrögð við spurningunum var að þagna vegna þess að þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Tími til frekara spjalls leið fljótt og fundurinn hélt áfram án þess að gott svar kæmi við spurningunum. Niðurstaða mín eftir því sem leið á daginn voru upphafsorðin í þessum passus.
 
Takist okkur að bæta okkur eru vonandi líkur til að spilling almennt minnki og ef við ljáum málum stuðning, sem leiða til jafnari skiptingu gæða næst árangur í þeim efnum líka.

Siðbótin hlýtur að byrja hjá okkur sjálfum. Við enduðum fundinn á að fara með okkar ágæta fjórpróf, sem eru svona:

Er það satt og rétt?
Er það drengilegt?
Eykur það velvild og vinarhug?
Er það öllum til góðs?


miðvikudagur, 11. maí 2016

Ferðamennska

Það eru gríðarlegar breytingar að eiga sér stað í landinu vegna ferðamennsku. Það var framan af hægur stígandi í þessu, en undanfarin þrjú, fjögur ár hefur orðið stökkbreyting. Þetta er allavega upplifun mín af því að ferðast um Suðurland. Ég hef í rúm fjörtíu ár keyrt Suðurlandsveg milli Skaftártungu og Kópavogs á ýmsum árstímum. Lengst af þegar maður keyrði austur féll umferðarþunginn niður eftir að komið var á Selfoss. Eftir að Landeyjarhöfn opnaði jókst aðeins þunginn þangað. Nú keyrir maður austur og það er bíll við bíl bæði austur og vestur. Það er erfitt að fá inn á hótelum vegna eftirspurnar. Upplifði það í fyrsta skipti að vera "óvart" afbókaður í Fjósinu undir Eyjafjöllum með 30 manna hóp, sem hafði þó verið bókaður með mánaðar fyrirvara. Ástæðan var auðvitað sú að þau höfðu yfirbókað. Maður fékk eitt lítið "sorry," en svo urðum við að leita annað með mat. Auðvitað spyr maður sig hvað þetta getur gengið svona lengi og hvenær bakslagið kemur. Ég hugsa að það sé ekki langt í það að við náum að verðleggja okkur út af markaðnum. Frétti af sænskri fjölskyldu, sem gat farið í þriggja vikna frí til USA fyrir viku kostnað á Íslandi. Bíll innifalinn. En mikið er gaman að ferðast um landið okkar í fallegu veðri.

sunnudagur, 24. apríl 2016

Úr grjótinu til Grænlands

Við skulum bara kalla hann Hans. Hann var grænlenskur sjómaður sem hingað var kominn fyir kvart öld eða svo til þess að kynna sér loðnuveiðar ásamt sex öðrum sjómönnum, sem sendir voru með flugvél frá Nuuk. Þeir áttu að verða 14 en seinni vélin komst ekki í loftið í tíma, þannig að þeir urðu sjö. Það gékk á ýmsu við að koma þessum sjómönnum um borð í loðnuskipin meðan grænlenski leigukvótinn var veiddur. Það er of langt mál að segja frá því.

Hans komst um borð í tvo báta og kynntist loðnuveiðum úr stýrishúsinu. Hann tók ekki beinan þátt í veiðunum, en stytti skipstjórnarmönnum stundir á meðan veiðiferðinni stóð. Sagðist hann vera sonur grænlensks útgerðarmanns sem ætlaði að fjárfesta í loðnuskipi og veiða grænlenska kvótann. Hann ávann sér nokkra athygli með þessari sögu og jafnframt vissa tortryggni. Menn vildu nú ekki vera að deila of mikilli þekkingu með hugsanlegum samkeppnisaðila í framtíðinni.

Hvar sem grænlensku sjómennirnir mínir komu voru ströng fyrirmæli af minni hálfu að hvergi yrði haft áfengi í herbergjum og þeim yrði ekki selt áfengi meðan þeir væru í minni umsjón. Þetta hélt að sjálfsögðu ekki og sögurnar og klögur streymdu inn. Hans og grænlenskur félagi hans komust í barinn á hótelherbergi hér í bæ, sem gleymst hafði að fjarlægja. Þetta endaði þannig að barinn var tæmdur og Hans dó áfengisdauða á gangi hótelsins.

Hann var sóttur af lögreglu og farið með hann í Hverfissteininn. Þá var komið að mér að fá hann leystan úr haldi vegna þess að hann átti að fara heim til Nuuk síðar þennan dag. Ég mætti í Hverfissteininn og það var ekkert mál að fá hann lausan. Lögreglan upplýsti að hann hefði í raun ekkert gert af sér annað en að verða öfurölvi og sofnað áfengisdauða.

Hans var hinsvegar ekki sjálfur glaður með frammistöðu sína þegar ég hitti hann niðurlútan í grjótinu. Hefur örugglega brugðið við að vakna þarna. Hann muldraði þráfaldlega kjökrandi á dönsku að nú væri illa fyrir sér komið og hann hefði betur farið að fyrirmælum móður sinnar og látið áfengið eiga sig.

Þegar við erum komnir út úr grjótinu og upp í bílinn minn var hann enn lítill, kjökrandi og niðurlútur. Ég keyrði þegjandi niður á Sæbraut og segi við hann þegar þangað er komð til að uppörva hann: Hans sérðu hvítu fjöllin þarna handa flóans eftir nokkra tíma verður þú aftur kominn heim til Grænlands til þinna hvítu fjalla. Hann breyttist á einu augabragði og varð eitt sólskinsbros í framan og allar hans áhyggjur voru roknar út í veður og vind. Hef ég reyndar aldrei séð mann skipta jafn skjót um skap áður.

Ferðin til Keflavíkurflugvallar gékk vel og þegar þangað var komið bað ég starfsmann fyrir hann þannig að enginn frekari óhöpp kæmu upp. Síðan hef ég ekki frétt af Hans hinum grænlenska. Það fylgdu nokkur símtöl næstu daga frá mönnum til að forvitnast um son grænlenska útgerðarmannsins.

Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu? Það er nú einfalt, hefur alltaf fundist þetta skemmtileg saga.

föstudagur, 22. apríl 2016

Flateyrarborðið

Sonur minn og tengdadóttir eru með sameiginlegt áhugamál sem mjög gaman er að fylgjast með. Þau gera upp gömul húsgöng, sem fólk lætur frá sér og gefa þeim nýtt „líf.“  Nú nýlega gerðu þau upp gamalt skrifborð. Það var vægast sagt í mikilli þörf fyrir upplyftingu. Þegar þau voru búin að fara sínum höndum um borðið buðu þau það til sölu með eftirfarandi orðum á netinu:

„Yndislegt gamalt skrifborð sem við fundum ansi illa farið. Það var ekki fyrr en við fórum að ditta að því að við rákum augun í texta undir einni skúffunni þar sem í ljós kom að borðið var árið 1934, sjötugsafmælisgjöf Jóns Guðmundssonar frá Veðrará í Önundarfirði! Við standsettum það og það kemur svona líka ljómandi vel út, bæði sem skrifborð og sem snyrtiborð.“

Það næsta sem gerist er að afkomandi fyrrum eiganda gefur sig fram og kaupir það. Það kemur í ljós að þetta borð var smíðað á Flateyri af sænskum manni sem þar bjó um tíma. Vitað er a.m.k. um eitt borð til viðbótar sem maðurinn smíðaði. Töluverðar vangaveltur voru uppi um hvar borðið hafði lent, en engin skýring hefur fengist á því.


Það sem eftir situr er hversu máttugt netið er til þess að tengja fólk saman. Hitt er svo aftur líka umhugsunarefni hvort það sé hrein tilviljun eða því sé stýrt af ósýnilegum höndum að borðið lendi hjá þessu unga fólki sem fer um það endurlífgandi höndum áður en það fer svo aftur til síns heima. Dæmi hver fyrir sig. Allavega er þessi saga ein af þessum skemmtilegu "anekdotum" hins daglega lífs. 


þriðjudagur, 19. apríl 2016

Tuddinn tekinn

Það var eitt sumarið að ég glímdi við einelti á fótboltavellinum á Smárahvammstúní. Það var strákur sem var aðeins eldri, sem lagði okkur yngri strákana í einelti. Hann var sérstaklega illskeyttur við mig. Maður bjó við þetta og hafði fáar varnir gagnvart óþokkabrögðum hans. Hann sýndi þessa framkomu gagnvart fleiri strákum. Svo gerist það þetta sumar að völlinn koma tveir stálpaðir unglingar, sem eru gestkomandi í hverfinu. Annar þeirra sér fljótt hvernig strákurinn tuddast um völlinn og skeytir skapi sínu á okkur yngri strákunum. Hann blandar sér óvænt í leikinn og stoppar af strákinn með nokkrum hæðnisorðum. Þegar hann sér að orðræða dugir ekki byrjar hann að ögra honum og hrinda til eins og hann hafði gert við okkur yngri strákana. Tuddinn ætlar ekki að gefa sig og það endar með því að þeir rjúka saman. Sá slagur endar skjótt á því að unglingurinn skellir honum í jörðina með þeim orðum að nú viti hann hvernig það sé að níðast á okkur yngri strákunum. Þetta var mikil upplifun að sjá hvernig tuddinn lippaðist niður fyrir framan okkur. Hvernig hann tapaði stöðu sinni sem skelfirinn mikli í það að liggja sem slytti fyrir framan unglinginn. Hver er svo punkturinn með þessari sögu. Jú hann er sá að maður eigi að gæta að því hvernig maður kemur fram við aðra. Tími skelfisins var liðinn. Hann var ekki lengur sú ógn í augum okkar strákanna sem hann hafði verið. Svona tilfelli koma fyrir enn þrátt fyrir alla uplýsinguna og umræðu um eineilti. Það er hlutverk okkar eldri og reyndari að skakka leikinn í tilvikum sem þessum.  

fimmtudagur, 7. apríl 2016

Er alþjóðahyggjan að líða undir lok?

Það voru fréttir af birtingu svokallaðra Panamaskjalanna um eignir fólks í skattaskjólum, sem eru þessa valdandi að forsætisráðherra varð að stíga til hliðar.

Mér finnst áhugavert að velta því upp hvort alþjóðahyggjan varðandi fjármagn sé að líða undir lok. Hvort þjóðríkin munu sameinast um taka á þessum skattaskjólum og koma í veg fyrir að fjármagnið flýi þangað, þar sem eru litlir eða engir skattar og ekki er hægt að spora notkun þess. Eðlilegt er að spurt sé hvort slíkt fjármagn sé notað í samkeppni við fjármagnseigendur sem greiða heiðarlega skatta og skyldur af sínu fé, því það skekkir samkeppnina.

Mannskeppnan er ekki öll þar sem hún er séð. Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins sagði nýlega á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, að ef teknar væru saman upplýsingar um allt tiltækt fjármagn í heiminum og það væri alls 100, mundi samt vanta a.m.k. 60 til viðbótar. Þannig urðu Rotchildarnir ríkir á sínum tíma vegna þess að þeir földu fé sitt milli þilja og greiddu ekki af því skatta og skyldur segir sagan.



Enn hefur alþjóðahyggjan með frjálsu flæði fjármagns runnið sitt skeið á enda? Það er mjög ólíklegt. Kapitalistar munu áfram leita allra leiða til þess að verja fé sitt ásælni skattmanns. Það er lykilþráður í sögu mannkyns. Þótt forsætisráðherra hafi verið vikið frá störfum vegna skattaskjólspeninga eiginkonu sinnar og kröfu þeirra á föllnu bankanna er ólíklegt að það valdi straumhvörfum á alþjóðavísu. 

Kunnugir segja að nýríkir Kínverjar eigi þvílíkar eignir að þekktir milljarðamæringar á lista Forbes séu hreinir smælingjar í samanburði. Fjármagnseigendur eru sterkir og þeir munu ekki gefast upp úrræðalausir eða án verulega átaka.

Ég tek undir með hagfræðingnum Tómas Piketty í bók sinni Capital að á 21. öldinni verður fókusinn á fjármagn og ójöfnuð milli þjóðfélagshópa helsta umfjöllunarefnið.

föstudagur, 1. apríl 2016

Það sem er öðruvisi vekur athygli

Var boðinn í sænskt páskapartý í gærkvöldi og beðinn að mála páskaegg,sem ku vera siður þar. Ég notaði eingöngu rauðan lit. Fyrst málaði ég indjánaprófíl með fjöður. Svo teiknaði ég karfa, enda með rauðan lit. Þar næst G lykilinn og svo F lykilinn á nótnaskalanum, en hann var eins og broskarl. Setti svo bara mitt egg meðal fagurskreyttra eggja í gylltum litum fagurlega munstruðum. Taldi málið þar með dautt enda eggið allt málað. Náði ekki að snúa mér við áður en Svíarnir tóku upp myndavélina og mynduðu eggið í bak og fyrir. Svo var farið að greina myndirnar. Índjáni með fjöður, borðar fisk, elskar tónlist og brosir mót tilverunni. Ég var eiginlega kjaftstopp. Ég var bara að krota á eggið til þess að það færi ekki hvítt og nakið í bakkann. Svona er lífið. Það sem er öðruvísi vekur athygli.

mánudagur, 21. mars 2016

Skömm í hattinn fyrir rekstaráætlun

Ég vann fyrstu rekstraráætlunina fyrir nýja flugstöð árið 1981. Niðurstaðan kom rétt í því sem Ragnar Arnalds varð fjármálaráðherra. Yfirmaður minn sagði mér síðar að ástæðan fyrir því að þessi rekstaráætlun hafi komið honum á óvart hafi verið vegna þess að ráðherra veitti honum ekki áheyrn í mánuð, sjálfum ráðuneytisstjóranum. Ragnar skammaðist mikið yfir því að ekki hafi verið reiknað með fjármagnskostnaði, sem hefðu verið háar fjárhæðir og snúið rekstaráætluninni á hvolf. 

Svona ríkisfjárfestingar voru kallaðar stofnfjárfestingar og af þeim var ekki reiknaður fjármagnskostnaður. Plön og helmingur flugstöðvarinnar eða um 75% fjárfestingarinnar var greiddur af Bandaríkjamönnum! Þannig að nær væri að tala um fjármagnstekjur af því framlagi. Þá voru raunvextir á þessum árum neikvæðir, þannig að það var ekkert nema stór plús að fara í þetta verkefni.

 Það var ekki gaman fyrir ungan hagfræðing að fá háðulega umfjöllun í fjölmiðlum af hendi yfirmanns og eiga engan möguleika á að verja sig eða útskýra mál sitt. Enginn reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu mína og ég hafði mjög gaman af að vinna þetta verkefni. Rakst á þessa umfjöllun í Tímanum þar sem sjálfur Ólafur Jóhannesson þá utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra varði þessa niðurstöðu.(Tíminn 10. apríl 1981)


sunnudagur, 21. febrúar 2016

Fyrsta myndin

Myndin sem hér fylgir er eftir Sigfús Halldórsson máluð á Þingvöllum 1958. Þannig var að Sigfús bað mig um að aðstoða sig við að mála glugga á efri hæð. Hann sagðist svo lofthræddur og ekki treysta sér í stigann. Það var ekki mikið mál og ég málaði gluggana en hann stýrði verkinu af jörðu niðri. Þegar við vorum búnir vildi hann endilega borga mér fyrir aðstoðina, en ég vildi það ekki. Leit á þetta sem sjálfsagt viðvik við nágranna og vin foreldra minna. Þá sagði hann að fyrst ég vildi ekki greiðslu fyrir aðstoðina væri lágmark að við hefðum kaup kaups. Ég hefði málað fyrir hann og því rétt að hann málaði fyrir mig. Síðan fór hann með mig inn í vinnuherbergi sitt og ég fékk að velja mér mynd. Þetta er myndin sem ég valdi. Minnir að þetta hafi verið sumarið 1967 frekar en 1966. Þessi mynd hefur veitt mér mikla gleði og fleirum. Tengdamóðir mín var með hana að láni í mörg ár. Myndin er sérstök að því leiti að hún sýnir kunnuglega íslenska náttúru en ekki í sínum litríkasta blóma eins og er svo algengt með náttúrumyndir.


fimmtudagur, 18. febrúar 2016

Fyrirlestur um Skaftárhlaup

Fór á fyrirlestur hjá FÍ um Skaftárhlaup og áhrif þeirra á gróðurfar í Skaftárhreppi Mjög fróðlegur fyrirlestur um þá gríðarlegu krafta sem felast í þessum reglubundnu hlaupum. Áhrif á gróðurinn eru að sjálfsögðu mikil og vandséð hvernig tjón á gróðri verður bætt. Fyrirsjáanlegt er að loftmengun í Skaftártungu munu aukast á næstu árum, þó ekki nema vegna síðasta hlaups sem var stærsta hlaup sem mælingar ná yfir. Erindi fluttu Tómas Jóhannesson eðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands og Sveinn Runólfsson frá Landgræðslu Íslands. Það sem situr sérstaklega í manni eftir þennan fyrirlestur eru lýsingar af þeim hamförum sem hafa átt sér stað eftir gos í Kötlu og Öræfajökli. Í einu Kötlugosi á fyrri hluta 18. aldar nánar tiltekið 1721 komu heilu jöklarnir niður á sandinn t.d. Höfðabrekkujökull sem var þar í 80 ár. Að ég tali nú ekki um þegar gaus í Öræfajökli árið 1362 og jökulhettan kom í heilu lagi niður á láglendi. Þetta er eitt mannskæðasta gos á Íslandi og heilu byggðarlögin sem fóru í eyði.