föstudagur, 22. apríl 2016

Flateyrarborðið

Sonur minn og tengdadóttir eru með sameiginlegt áhugamál sem mjög gaman er að fylgjast með. Þau gera upp gömul húsgöng, sem fólk lætur frá sér og gefa þeim nýtt „líf.“  Nú nýlega gerðu þau upp gamalt skrifborð. Það var vægast sagt í mikilli þörf fyrir upplyftingu. Þegar þau voru búin að fara sínum höndum um borðið buðu þau það til sölu með eftirfarandi orðum á netinu:

„Yndislegt gamalt skrifborð sem við fundum ansi illa farið. Það var ekki fyrr en við fórum að ditta að því að við rákum augun í texta undir einni skúffunni þar sem í ljós kom að borðið var árið 1934, sjötugsafmælisgjöf Jóns Guðmundssonar frá Veðrará í Önundarfirði! Við standsettum það og það kemur svona líka ljómandi vel út, bæði sem skrifborð og sem snyrtiborð.“

Það næsta sem gerist er að afkomandi fyrrum eiganda gefur sig fram og kaupir það. Það kemur í ljós að þetta borð var smíðað á Flateyri af sænskum manni sem þar bjó um tíma. Vitað er a.m.k. um eitt borð til viðbótar sem maðurinn smíðaði. Töluverðar vangaveltur voru uppi um hvar borðið hafði lent, en engin skýring hefur fengist á því.


Það sem eftir situr er hversu máttugt netið er til þess að tengja fólk saman. Hitt er svo aftur líka umhugsunarefni hvort það sé hrein tilviljun eða því sé stýrt af ósýnilegum höndum að borðið lendi hjá þessu unga fólki sem fer um það endurlífgandi höndum áður en það fer svo aftur til síns heima. Dæmi hver fyrir sig. Allavega er þessi saga ein af þessum skemmtilegu "anekdotum" hins daglega lífs. 


Engin ummæli: