sunnudagur, 24. apríl 2016

Úr grjótinu til Grænlands

Við skulum bara kalla hann Hans. Hann var grænlenskur sjómaður sem hingað var kominn fyir kvart öld eða svo til þess að kynna sér loðnuveiðar ásamt sex öðrum sjómönnum, sem sendir voru með flugvél frá Nuuk. Þeir áttu að verða 14 en seinni vélin komst ekki í loftið í tíma, þannig að þeir urðu sjö. Það gékk á ýmsu við að koma þessum sjómönnum um borð í loðnuskipin meðan grænlenski leigukvótinn var veiddur. Það er of langt mál að segja frá því.

Hans komst um borð í tvo báta og kynntist loðnuveiðum úr stýrishúsinu. Hann tók ekki beinan þátt í veiðunum, en stytti skipstjórnarmönnum stundir á meðan veiðiferðinni stóð. Sagðist hann vera sonur grænlensks útgerðarmanns sem ætlaði að fjárfesta í loðnuskipi og veiða grænlenska kvótann. Hann ávann sér nokkra athygli með þessari sögu og jafnframt vissa tortryggni. Menn vildu nú ekki vera að deila of mikilli þekkingu með hugsanlegum samkeppnisaðila í framtíðinni.

Hvar sem grænlensku sjómennirnir mínir komu voru ströng fyrirmæli af minni hálfu að hvergi yrði haft áfengi í herbergjum og þeim yrði ekki selt áfengi meðan þeir væru í minni umsjón. Þetta hélt að sjálfsögðu ekki og sögurnar og klögur streymdu inn. Hans og grænlenskur félagi hans komust í barinn á hótelherbergi hér í bæ, sem gleymst hafði að fjarlægja. Þetta endaði þannig að barinn var tæmdur og Hans dó áfengisdauða á gangi hótelsins.

Hann var sóttur af lögreglu og farið með hann í Hverfissteininn. Þá var komið að mér að fá hann leystan úr haldi vegna þess að hann átti að fara heim til Nuuk síðar þennan dag. Ég mætti í Hverfissteininn og það var ekkert mál að fá hann lausan. Lögreglan upplýsti að hann hefði í raun ekkert gert af sér annað en að verða öfurölvi og sofnað áfengisdauða.

Hans var hinsvegar ekki sjálfur glaður með frammistöðu sína þegar ég hitti hann niðurlútan í grjótinu. Hefur örugglega brugðið við að vakna þarna. Hann muldraði þráfaldlega kjökrandi á dönsku að nú væri illa fyrir sér komið og hann hefði betur farið að fyrirmælum móður sinnar og látið áfengið eiga sig.

Þegar við erum komnir út úr grjótinu og upp í bílinn minn var hann enn lítill, kjökrandi og niðurlútur. Ég keyrði þegjandi niður á Sæbraut og segi við hann þegar þangað er komð til að uppörva hann: Hans sérðu hvítu fjöllin þarna handa flóans eftir nokkra tíma verður þú aftur kominn heim til Grænlands til þinna hvítu fjalla. Hann breyttist á einu augabragði og varð eitt sólskinsbros í framan og allar hans áhyggjur voru roknar út í veður og vind. Hef ég reyndar aldrei séð mann skipta jafn skjót um skap áður.

Ferðin til Keflavíkurflugvallar gékk vel og þegar þangað var komið bað ég starfsmann fyrir hann þannig að enginn frekari óhöpp kæmu upp. Síðan hef ég ekki frétt af Hans hinum grænlenska. Það fylgdu nokkur símtöl næstu daga frá mönnum til að forvitnast um son grænlenska útgerðarmannsins.

Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu? Það er nú einfalt, hefur alltaf fundist þetta skemmtileg saga.

Engin ummæli: