þriðjudagur, 19. apríl 2016

Tuddinn tekinn

Það var eitt sumarið að ég glímdi við einelti á fótboltavellinum á Smárahvammstúní. Það var strákur sem var aðeins eldri, sem lagði okkur yngri strákana í einelti. Hann var sérstaklega illskeyttur við mig. Maður bjó við þetta og hafði fáar varnir gagnvart óþokkabrögðum hans. Hann sýndi þessa framkomu gagnvart fleiri strákum. Svo gerist það þetta sumar að völlinn koma tveir stálpaðir unglingar, sem eru gestkomandi í hverfinu. Annar þeirra sér fljótt hvernig strákurinn tuddast um völlinn og skeytir skapi sínu á okkur yngri strákunum. Hann blandar sér óvænt í leikinn og stoppar af strákinn með nokkrum hæðnisorðum. Þegar hann sér að orðræða dugir ekki byrjar hann að ögra honum og hrinda til eins og hann hafði gert við okkur yngri strákana. Tuddinn ætlar ekki að gefa sig og það endar með því að þeir rjúka saman. Sá slagur endar skjótt á því að unglingurinn skellir honum í jörðina með þeim orðum að nú viti hann hvernig það sé að níðast á okkur yngri strákunum. Þetta var mikil upplifun að sjá hvernig tuddinn lippaðist niður fyrir framan okkur. Hvernig hann tapaði stöðu sinni sem skelfirinn mikli í það að liggja sem slytti fyrir framan unglinginn. Hver er svo punkturinn með þessari sögu. Jú hann er sá að maður eigi að gæta að því hvernig maður kemur fram við aðra. Tími skelfisins var liðinn. Hann var ekki lengur sú ógn í augum okkar strákanna sem hann hafði verið. Svona tilfelli koma fyrir enn þrátt fyrir alla uplýsinguna og umræðu um eineilti. Það er hlutverk okkar eldri og reyndari að skakka leikinn í tilvikum sem þessum.  

Engin ummæli: