laugardagur, 25. desember 2010

Jólin að nóttu sem degi.

Frá aðfangakvöldi klukkan sex og fram á annan í jólum rennur tíminn svolítið út í eitt. Dómkirkjan hringir inn jólin að venju og að lokinni messunni hefjast hátíðarhöldin sjálf sem standa í sólarhring með borðhaldi, opnun gjafapakka og samverustundum fjölskyldunnar. Helst má lítið gera þennan tíma, allavega hér áður fyrr og alls ekki spila spil, þótt eitthvað hafi verið gefið eftir í þeim efnum. Þetta er ekki svona allstaðar. Ég frétti af íslenskri fjölskyldu sem fékk símtal frá miðevrópskri vinafólki klukkan sex á aðfangadag og skyldi ekkert í hvað samtalið gékk stirðlega. Tilefnið var að bjóða til teitis síðar um kvöldið í tilefni jólanna. Þarna rákust á tveir ólíkir menningarheimar í jólahaldi sem endaði í uppfræðslu um helgihald jólanna í ýmsum hornum Evrópu. Með öðrum orðum, svona eru jólin, en ekki hjá öllum. Kveðja.

föstudagur, 24. desember 2010

Gleðileg jól

Þá er þetta aðfangadagskvöld á enda komið. Kvöldið hefur verið ánægjulegt í alla staði. Við vorum þrjú hér í Brekkutúni í kvöld og fórum svo í kvöldkakó til Þórunnar systur. Við sendum vinum og vandamönnum bestu óskir um gleðileg jól. -X-

mánudagur, 20. desember 2010

RÚV í blíðu og stríðu.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að RÚV er áttatíu ára í dag 20.desember. Stofnunin er í naflaskoðun og við fáum að fylgjast með síenturteknum innskotum um þessi merku tímamót í sögu stofnunarinnar. Ég er einn af þeim sem hlusta helst á Rás 1 og 2 eftir atvikum. Líklega er ríkissjónvarpið aðalrásin á mínu heimili þótt ég sé með ýmsar aðrar stöðvar. Líklega helgast þetta af íhaldsemi minni. Ég var orðinn "rás" vanur áður en hinar stöðvarnar komu í loftið. En viðhorf mitt til RÚV helgast ekki af tómri "blíðu." Stundum er ég æfur út í stofnunina. Sérstaklega þegar fjallað er um dægurmál sem ég tel mig hafa nokkra þekkingu á og finnst þá oft vanta á fagmennsku í fréttaflutningi. Maður verður að hafa það í huga að það er vinstri slagsíða á fréttaflutningi RÚV. Hinsvegar eru oft athyglisverðir þættir um hitt og þetta sem ég hef haft ánægju og fræðslu af. Ég fór yfir þessa þætti í huganum og staldraði við dagskrárliði jafnvel eldgamla sem ég hafði gaman af. Enginn skyldi vanmeta það tónlistaruppeldi sem RÚV hefur rækt. Jón Múli Árnason og jazzfræðsla hans stendur upp úr í minningunni. Esperanto þáttum Þórbergs Þórðarssonar gleymir maður aldrei. Nú eða síðdegissögunum sem maður fylgdist með mörgum hverjum. Þegar ég fór að rifja þetta upp með mér komst ég að því að öll óskaprógrömmin voru áratuga gömul. Tímarnir eru breyttir og maður hefur úr fleiri valkostum að ráða. RÚV er áfram útvarp allra landsmanna. Allavega hlýtur svo að vera meðan við erum tilneydd að greiða stofnunni áskriftargjald. Hér er ekki staður né stund til að ræða það. Stofnuninni eru færðar bestu kveðjur á þessum tímamótum og megi dagskráin endurspegla það að verða útvarp\sjónvarp allra landsmanna.

miðvikudagur, 15. desember 2010

Á aðventunni.

Hér er lítið skrifað enda hefur Facebook tekið mikinn tíma frá ritstjóra annálsins undanfarna mánuði. Þar má tjá sig í máli og myndum og skiptast á skoðunum við aðra fésverja. Hjörtur og fjölskylda komu í síðustu viku í heimsókn til Íslands í tilefni 80 ára afmælis nafna hans og afa. M.ö.o. pabbi varð áttatíu ára þann áttunda desember og er honum hér færðar árnaðaróskir. Annars hafa dagarnir snúist í kringum vinnu og fjölskyldu upp á síðkastið. Það er eins gott að reyna að njóta þessara stuttu stunda sem gefast til samveru í stórfjölskyldunni vegna þess að þessari jólahátið og nýári fylgja fáir frídagar. Sirrý er komin heim eftir nokkurra vikna dvöl í Svíþjóð þar sem hún leggur stund á nám og rannsóknir. Sigrún er á fullu í hjúkrunarnáminu og hefur nýlokið miðsvetrarprófum. Ef að líkum lætur mun hún væntanlega útskrifast á komandi sumri. Nóg í bili.

föstudagur, 3. desember 2010

Í leit að jafnvægispunktinum.


Í leikfimitímanum í dag vorum við að æfa jafnvægispunktinn m.ö.o. í æfingum sem styrka þjáðan búkinn í að halda jafnvægi í mismunandi stöðum. Þetta ku vera nauðsynlegt fyrir miðaldra karla sem stunda golfíþróttina af kappi. Fimleikastjórinn rak okkur áfram af miklum krafti. Skammaði þá sem komu of seint í tímann og þá sem gerðu æfingarnar ekki rétt. Einn fékk: "Nei sæll vinur gaman að sjá þig hér í dag. Nú sé ég hvað þeir eru orðnir góðir sem mæta reglulega í tímana." Annar sem kom 10 mínútum of seint fékk: "Þú ert fljótur að drífa þig úr fötunum, aðeins þrjár mínútur." Þeir sem mættu á réttum tíma og voru búnir að hita upp urðu að hlaupa þar til síðbúinn félagi var kominn í leikfimigallann. Það tók hann fimm mínútur. "Strákar þig getið þakkað honum fyrir þessar aukalegu fimm mínútur." Síðan voru menn vigtaðir og áminntir um að ef þeir fitnuðu um 1 kg um jólahátíðia yrðu þeir að borga sektir í janúar. Það merkilega við þetta er að allir viðstaddir borga fyrir þessa tíma og það er biðlisti manna sem vilja komast í hópinn. Við þurfum víst flest svona aðhald til þess að ná settu marki í að þjálfa skrokkinn. Allavega eru flestir í hópnum búnir að vera í árafjöld i þessum leikfimihópi.