mánudagur, 20. desember 2010

RÚV í blíðu og stríðu.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að RÚV er áttatíu ára í dag 20.desember. Stofnunin er í naflaskoðun og við fáum að fylgjast með síenturteknum innskotum um þessi merku tímamót í sögu stofnunarinnar. Ég er einn af þeim sem hlusta helst á Rás 1 og 2 eftir atvikum. Líklega er ríkissjónvarpið aðalrásin á mínu heimili þótt ég sé með ýmsar aðrar stöðvar. Líklega helgast þetta af íhaldsemi minni. Ég var orðinn "rás" vanur áður en hinar stöðvarnar komu í loftið. En viðhorf mitt til RÚV helgast ekki af tómri "blíðu." Stundum er ég æfur út í stofnunina. Sérstaklega þegar fjallað er um dægurmál sem ég tel mig hafa nokkra þekkingu á og finnst þá oft vanta á fagmennsku í fréttaflutningi. Maður verður að hafa það í huga að það er vinstri slagsíða á fréttaflutningi RÚV. Hinsvegar eru oft athyglisverðir þættir um hitt og þetta sem ég hef haft ánægju og fræðslu af. Ég fór yfir þessa þætti í huganum og staldraði við dagskrárliði jafnvel eldgamla sem ég hafði gaman af. Enginn skyldi vanmeta það tónlistaruppeldi sem RÚV hefur rækt. Jón Múli Árnason og jazzfræðsla hans stendur upp úr í minningunni. Esperanto þáttum Þórbergs Þórðarssonar gleymir maður aldrei. Nú eða síðdegissögunum sem maður fylgdist með mörgum hverjum. Þegar ég fór að rifja þetta upp með mér komst ég að því að öll óskaprógrömmin voru áratuga gömul. Tímarnir eru breyttir og maður hefur úr fleiri valkostum að ráða. RÚV er áfram útvarp allra landsmanna. Allavega hlýtur svo að vera meðan við erum tilneydd að greiða stofnunni áskriftargjald. Hér er ekki staður né stund til að ræða það. Stofnuninni eru færðar bestu kveðjur á þessum tímamótum og megi dagskráin endurspegla það að verða útvarp\sjónvarp allra landsmanna.

Engin ummæli: