mánudagur, 4. nóvember 2019

Upphaf byggingarsögu - óvænt niðurstaða.

Við keyptum lóð, sökkla og teikningar að einbýlishúsi 1983. Sáum auglýsingu í mbl en gerðum ekkert í því í fyrstu, en svo birtist auglýsingin aftur skömmu fyrir jól. Ég hafði samband við kunningja minn sem bjó í þessu hverfi. Hann upplýsti mig um að þetta væri besta lóðin í hverfinu (bótalóð), hvað staðsetningu varðar. Hann ráðlagði mér að bjóða uppsett verð, þá 750 þúsund krónur, það þýddi ekkert að prútta við eigandann. Við fórum að þessu ráði eftir að hafa skoðað teikningar og hugsað málið yfir helgi. Á mánudeginum hafði fasteignasalinn samband við mig og upplýsti að við gætum fengið lóðina og sökkulinn, ef við borguðum 800 þúsund krónur. En við skyldum hafa hraðann á því eigandinn væri að fara úr bænum og óvíst hvenær hann kæmi aftur. Við urðum forviða og ég var sannfærður  um að við hefðum gert mistök að samþykkja uppsett verð. Hringdi í kunningja minn og sagði honum hvernig tilboðinu var tekið. Ég var að sjálfsögðu ósáttur og leiður hvernig fór. Viðbrögð kunningjans komu á óvart. Hann spurði, "Sveinn hafið þið raunverulegan áhuga á þessari eign og þessu verkefni? Ef  þið hafið áhuga þá gangið þið að þessu verði, Það eru margar 50 þúsund krónurnar, sem munu koma til á byggingatímanum sem ekki er búið að gera ráð fyrir." Ég hafði samband við fasteignasalann og gékk að tilboðinu. Frágangur kaupsamningsins var næst á dagskrá og sú stund var ekki síður eftirminnileg. Við höfum nú búið í þessu húsi í 36 ár.

fimmtudagur, 31. október 2019

Ókeypis í sund

í gær gékk ég eins og fínn maður inn í Sundlaug Kópavogs og í fyrsta skipti á ævinni borgaði ég ekki krónu í aðgangseyri. Hafði orðastað um það við afgreiðslufólkið að þetta væri fyrsta skiptið á ævinni sem ég færi ókeypis í sund. Þau ætluðu að þrátta um það og sögðu að ég hefði ekki heldur borgað fram að 18 ára aldri. Ó jú, ég borgaði líka þegar ég var undir 18 ára aldri, upplýsti ég þetta ágæta fólk um. Oft var það svo að síðustu krónurnar fóru í sundhöllina og ekkert eftir til að kaupa snúð þegar sundi var lokið. Ég er sem sagt einn af þessum sem alltaf hefur þurft að borga ALLT hvað varðar opinbera þjónustu, þar til núna. Nú þarf ég bara að fá mér svona kort sem veitir drjúga afslætti af öllu og sumt ku víst vera ókeypis.

föstudagur, 27. september 2019

Sjávarútvegssýning í Laugardalshöll

Leit við á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll í dag. Það er gaman að rölta um svona sýningu og kynna sér þá þjónustu og þau tæki sem eru í boði fyrir sjávarútveginn. Maður fær einnig ávinning af því sem er að gerast í atvinnugreininni og endurnýjar kynni. Fékk kuldahroll á einum básnum hjá fjármögunarfyrirtæki þegar ég minntist þess að ég var einmitt á sjávarútvegs- sýningunni í Kópavogi 6. okt. 2008 þegar bankarnir féllu og stjórnvöld voru með ákall til almættisins um að blessa Ísland. Allt blessaðist það um síðir og lífið heldur áfram

mánudagur, 29. júlí 2019

Vestur

Undanfarin mörg ár höfum við farið árlega vestur á firði. Pabbi var alinn upp á Ísafirði til 16 ára aldurs. Við fórum með honum margar ferðir vestur á Ísafjörð og eftir að hann dó 2012 fórum við árlega með mömmu. Þetta voru skemmtilegar ferðir og margar sögur um fólkið okkar sagðar. Oft hittum við gamla sveitunga hans, sem var ekki síður skemmtilegt. Nú fórum við Sirrý tvö vestur og erindið var fyrst og fremst að njóta vestfirska umhverfisins og minnast pabba og mömmu. Þetta var yndisleg ferð og veður og náttúra skartaði sínu fegursta, þótt stundum væri skýjað. Hef aldrei áður verið í 20 stiga hita á Vestfjörðum. Við erum líklegast síðasta kynslóð afkomenda sem enn teljumst eiga þarna einhverjar rætur, þótt þær séu eingöngu tilfinningalegs eðlis. Næstu kynslóðir eru höfuðborgarbúar og sum horfa til eða hafa sest að í öðrum löndum. Maður veltir fyrir sér framtíð þessa afskekktu byggða þegar fólk þarf ekki að treysta lengur á þær sér til lífsviðurværis. Sú spurning leitar einnig á hugann hvað verður um næstu kynslóðir. Höfum við tapað varðstöðunni um byggja hér upp fjölbreytt samfélag þar sem næstu kynslóðir sjá framtíð sína eða er þetta óþarfa bölsýni?

mánudagur, 1. júlí 2019

Nordklang 2019 Helsinborg

Undanfarna daga, 26. til 29. júlí höfum við í Söngfélagi Skaftfellinga verið á sönghátíð, sem haldin er í Helsingborg og kallast Nordklang 2019.  Engin orð ná að lýsa þeim hughrifum sem maður upplifir á atburði sem þessum. Það eitt að sitja með 1000 manns að morgni og syngja tvö lög saman áður en vinnuhópar byrja að starfa er einstök upplifun. Allir glaðir, allir gera sitt besta og sungið út, þannig að krafturinn smýgur inn í sálina og fyllir hana gleði. Við í Söngfélagi Skaftfellinga vorum í sama vinnuhópnum Folkmusik, sem Jóhanna Thür frá Hagakirkju í Gautaborg stjórnaði af einstakri lipurð og fagmennsku. Söngfélagið kom fram í Knutpunkten á Járnbrautastöðinni í Helsingborg og söng þar nokkur íslensk lög. Alls staðar bros og þakklæti. Hátíðinni lauk í gær með söngveislu þar sem hver vinnuhópur söng eitt eða tvö lög eftir atvikum, sem hóparnir höfðu verið að æfa í vinnuhópum. Þetta var ógleymanleg stund. Þið sem viljið upplifa svona viðburð getið skellt ykkur í kór. Hátíðin verður haldin næst á Íslandi 29. júní 2022.

þriðjudagur, 28. maí 2019

Leiðsögumaður með réttindi

Ég skrifa orðið lítið á þessari blogg síðu minni. Eiginlega mest fyrir þrjósku að ég held henni gangandi við og við. Facebook hefur verið sá vettvangur sem maður hefur eytt mestum tíma í á undanförnum árum. Það voru krakkarnir mínir sem kenndu mér að opna bloggsíðu fyrir rúmum áratug. Þau eru öll löngu búin að loka sínum síðum, en hvað með það hér er ég enn að hluta.
Það er helst að frétta af mér að ég var að ljúka leiðsögumannanámi í Leiðsögumannaskólanum í MK. Þetta er nám sem hægt er að taka á einum vetri og það tókst. Nú á eftir að koma í ljós hvort að einhver eftirspurn sé eftir leiðsögu á ensku, sænsku eða íslensku. Ég fékk að vísu nokkur tækifæri í vetur til þess að æfa mig sem leiðsögumaður, þótt ég væri ekki búinn að ljúka námi. Fór í nokkrar norðurljósaferðir og Gullna hringinn líka. Ég hafði gaman af því að fara þessar ferðir. Norðurljósaferðir geta verið óvissuferðir í ljósi þess að ekki sjást ljósin eftir pöntun. En oftast gengu þær vel enda ýmis "verkfæri" sem hægt er að styðja sig við. Gullni hringurinn er æði staðlaður og ágætur sem slíkur, þótt hann reyni nú ekki mikið á leiðsögumanninn. Gaman væri að spreyta sig a lengri ferðum og verður það bara að koma í ljós hvort maður landi slíku verkefni í náinni framtíð. Nóg í bili. Kveðja

föstudagur, 19. apríl 2019

Á paskum 2019

Góðan daginn

Lítið verið skrifað hér síðustu mánuði og oftar en ekki settir inn pistlar sem eru teknir af facebook síðu minni. Hef þráast við að setja hér inn efni á annan áratug en það sést hvað þeim fækkar eftir að facebook notkun mín eykst.
Það markverðasta á þessu ári er að sjálfsögðu litli drengurinn sem hún Sigrún okkar eignaðist þann 24. janúar slíðastliðinn. Við höfum verið töluvert i Svíþjóð síðastliðna mánuði. Vorum í Hässleholm yfir jól og áramót og svo til að sjá litla drenginn okkar.
Það að setjast á skólabekk að nýju eftir 40 ára fjarveru hefur tekið töluverðan tíma og hefur verið bæði krefjandi og skemmtileg nýbreytni.

sunnudagur, 20. janúar 2019

Brexit means Brexit

"Brexit means Brexit," hefur frú May forætisráðherra Breta sagt ítrekað. Líklegast hefur hún ekki trúað því sjálf að endalokin yrðu þessi án samnings. Tek undir greiningu höfundar Reykjavíkursbréfs Mbl um málið. Nauðsynlegt innlegg til að átta sig á stöðu málsins. Við þurfum líka að átta okkur á því að útgangan mun hafa viðtæk viðskiptaleg áhrif til að byrja með, hvað vöruútflutning varðar. Hvar erum við í undirbúningsferlinu?