mánudagur, 1. júlí 2019

Nordklang 2019 Helsinborg

Undanfarna daga, 26. til 29. júlí höfum við í Söngfélagi Skaftfellinga verið á sönghátíð, sem haldin er í Helsingborg og kallast Nordklang 2019.  Engin orð ná að lýsa þeim hughrifum sem maður upplifir á atburði sem þessum. Það eitt að sitja með 1000 manns að morgni og syngja tvö lög saman áður en vinnuhópar byrja að starfa er einstök upplifun. Allir glaðir, allir gera sitt besta og sungið út, þannig að krafturinn smýgur inn í sálina og fyllir hana gleði. Við í Söngfélagi Skaftfellinga vorum í sama vinnuhópnum Folkmusik, sem Jóhanna Thür frá Hagakirkju í Gautaborg stjórnaði af einstakri lipurð og fagmennsku. Söngfélagið kom fram í Knutpunkten á Járnbrautastöðinni í Helsingborg og söng þar nokkur íslensk lög. Alls staðar bros og þakklæti. Hátíðinni lauk í gær með söngveislu þar sem hver vinnuhópur söng eitt eða tvö lög eftir atvikum, sem hóparnir höfðu verið að æfa í vinnuhópum. Þetta var ógleymanleg stund. Þið sem viljið upplifa svona viðburð getið skellt ykkur í kór. Hátíðin verður haldin næst á Íslandi 29. júní 2022.

Engin ummæli: