miðvikudagur, 31. maí 2006

Stórafmæli.

Mamma á stórafmæli í dag. Hún er stödd á Mallorka ásamt pabba. Annállinn óskar henni til hamingju á þessum tímamótum. Ég heyrði aðeins í henni í morgun. Sirrý er í Finnlandi á ráðstefnu. Hjörtur Friðrik hringdi frá Svíþjóð og félagi minn frá Kaupmannahöfn. Þannig að það má segja að þetta sé búinn að vera alþjóðlegur samskiptadagur. Hér er allt við það sama. Veðrið hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir, skýjað og skúrir. Hef þetta ekki lengra. Kveðja.

mánudagur, 29. maí 2006

Í mörgu að snúast.


Unnur og Edda.
Skrapp á Hlíðarveginn í gær og þar hitti ég Eddu móðursystur mína. Tók þessa fínu mynd af þeim systrum. Nú svo var það vinna í dag á mánudegi. Fyrsti túnsláttur sumarsins var í dag. Ansi loðið orðið fyrir framan húsið. Nú fer fram endataflið eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn í samstarf í Reykjavík. Óbreytt í Kópavogi og á Akureyri eru Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin að tala saman. Þetta er nú svona það helsta. Kveðja.

sunnudagur, 28. maí 2006

Brúðkaup í Perlunni.


Faðir og brúður.
Það var mikið um að vera hjá okkur Brekkutúnsbúum í gær. Brúðkaup Bille og Hildar dóttur Helga og Ingunnar í Perlunni. Brúðhjónin eru búsett í Stokkhólmi og vinnur brúðurin þar sem læknir en brúðguminn er viðskiptamenntaður. Ég fór í veisluna en Sirrý komst ekki. Hún fór við jarðarför Margrétar móðursystur sinnar í Vík í Mýrdal sem lést í USA fyrr á þessu ári. Veislan í Perlunni var stórglæsileg eins og við var að búast. Vinir brúðhjónannna voru komnir víða að frá Californíu, Boston og London. Sat til borðs með ungu pari sem er uppalið í Gautaborg, en starfar á fjármálamarkaðnum í Lundúnum. Það var mjög athyglisvert að fá innsýn inn í líf þessa fólks. Þar sem vinnumórallinn er slíkur að það þykir ekkert mál að vinna tvo sólarhringa í beit (samfellt) þegar svo ber undir. Enda svefnaðstaða á vinnustaðnum til þess að fleygja sér smástund. Flestir eru líka í kringum þrítugt og tilbúnir að leggja mikið á sig til þess að láta drauminn rætast. Nú sveitartjórnarkosningarnar sem haldnar voru í gær fóru eins og þær fóru. Sjálfstæðisflokknum tókst ekki að ná hreinum meirihluta í Reykjavík og Kópavogi. Einhver pólitískur bræðingur þarf nú að eiga sér stað milli aðila til þessa að mynda starfhæfa meirihluta. Bið að heilsa í K - stad. Kveðja.

laugardagur, 27. maí 2006

Útskrift stúdenta.


Í gær var ég mættur í Digraneskirkju til þess að afhenda afburðarnemanda úr Menntaskólanum í Kópavogi verðlaun fyrir frábæra frammistöðu á stúdentsprófi fyrir hönd Rótarý klúbbs Kópavogs. Stúlkan fékk 10 í 17 fögum. Ég hafði gaman af þessu enda gerist þetta ekki á hverjum degi. Seinni partinn í gær fórum við til Björns í kvöldverðarboð ásamt Þór, Marybeth, Margret Ann og Kyle. Fengum harðsoðinn silung að hætti Kristjönu heitinnar í Álftagerði. Valdimar lögreglumaður leit við en hann var að fara á kvöldvakt. Eftir matinn fórum við suður í Kópavog og vorum mætt í stúdentaveislu hjá Herði Stefáni sem var að útskrifast frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þar vorum við fram undir miðnætti og hittum fullt af fólki. Þar á meðal finnskar vinkonur Hildar sem mættar eru til að vera viðstaddar brúðkaup hennar og Bille. Okkur er boðið í veisluna. Sirrý getur ekki mætt því að hún fer með fólkinu sínu frá Ameríku til að vera við jarðarför Margrétar móðursystur sinnar í Vik í Mýrdal. Þetta er nú svona það helsta í fréttum af okkar vettvangi. Nú svo eru kosningar í dag og töluverð spenna í Reykjavík hvernig þetta fer allt saman. Kveðja.

fimmtudagur, 25. maí 2006

Uppstigningardagur.


Við höfum að mestu verið heima við í dag. Hér komu í dag Valdimar og Stella. Björn og Sunna litu inn. Við skruppum á Hlíðarveginn í kvöld og tókum kosningarstöðuna. Þessu norðan kuldakasti sem staðið hefur undanfarna daga er lokið í bili. Reynitréð okkar hefur látið svolítið á sjá en það nær sér örugglega. Nú hlýtur sumarið að vera komið. Allavega er allt að verða fagurgrænt. Í morgun komu Þór og Marybeth frá Ameríku með börnin sín tvö, Kyle og Margret Ann. Við eigum nú eftir að hitta þau. Það verður væntanlega á morgun. Sirrý hefur verið að undirbúa erindi sem hún mun halda á ráðstefnu í Finnlandi. Sigrún er byrjuð að vinna sumarvinnuna sína. Henni gékk vel í prófum og fékk verðlaun fyrir mætingu stúlkan sú. Annállinn óskar henni til hamingju með árangurinn.

miðvikudagur, 24. maí 2006

Það er gaman að læra á píanó.


Nemandinn.
Rakst á þessa mynd af mér og pínaókennaranum mínum, Þ.Gauta á heimasíðu skólans. Svona getur nú verið gaman að fara í píanótíma, þótt maður sé þreyttur í vikulok eftir amstur vikunnar. Þessi mynd er að vísu frá því í fyrra en hún talar sínu máli eigi að síður.

mánudagur, 22. maí 2006

Sirrý og Sveinn Hjörtur jr.


Sirrý amma og Svenni.
Hér má sjá þau tvö góð saman Sirrý ömmu og Svein Hjört. Við fórum í sunnudagsbíltúr og enduðum á kaffihúsi í gömlu klaustri sem var upphaflega frá 11. öld. Er núna kaffihús, veitingarhús og hótel í eigu sænska ríkisins.

Bäckaskogs slott restaurant.


Á kaffihúsi.
Hér eru lúnir ungbarnaforeldrar og Sirrý að hvíla sig í sófanum í kaffihúsinu meðan frumburðurinn sefur í vagni sínum. Flottur staður með góðu kaffi "kanelbullum" og bacette brauði. Elsti hlutinn er frá 12.öld og var þarna klaustur "betlimunka" sem munu hafa komið frá Frakklandi. Veitingastofan er restin af kapellunni. Munkarnir sem þarna bjuggu lifðu á álaveiðum. Þeir átu álin í allflest mál og það þótti einkenna þá hversu feitir þeir (munkarnir) voru. Einn ábatinn vóg 300 kg. á banalegunni. Þegar átti að fjærlegja líkið komust líkmennirnir ekki með það út úr herberginu. Því var tekið á það ráð að grafa karlinn í herberginu. Hann mun vera þar enn og segja kunnugir að enn megi heyra í honum á ólíklegustu stundum kalla eftir ál að borða. Síðar bjuggu staðinn eftir siðaskiptin ýmsir aðalsmenn. Þar á meðal einn sem hét Toll og bað sér konu tólf sinnum. En aldrei gékk rófan. Hann gróðursetti tré út í hólma nálægt höllinni í hvert skipti sem hann fékk bónorðsneitun. Nú þarna hafðist við konungborið fólk á 19. öld þar á meðal einhver Karl fjórtandi. Hann mun hafa átt "ljúfa" daga þarna í héraðinu því sagan segir að hann hafi átt 22 skilgreinda afkomendur í sveitinni. Með hvað mörgum konum fylgdi ekki sögunni. Þriðjungur fólks í nærsveitum við höllina getur rakið ættir sínar beint til hans og er því með konunglegt blóð í æðum. Þetta var okkur allavega sagt af þeim sem rak veitingasöluna. Þetta þótti honum hið besta mál. Því sveitin lifði sitt gullaldarskeið þegar erfðaprinsinn lifði sínu ljúfa lífi í sveitinni. Þetta var á þeim tímum þegar fólk úr öðrum sveitum þurfti að flýja Skåne til vesturheims vegna vesældóms og örbyrgðar.

Feðgarnir.

Mæðginin.

Kiðlingnum klappað.

Svenni með afa og ömmu í Kópavogi.

sunnudagur, 21. maí 2006

Eurovision sprellið yfirstaðið.

Silvía Nótt. Okkur fannst hún flottust. Það er ekki hægt að biðja um meira. Stelpan stóð sig vel en ég held að enginn hafi nú gert ráð fyrir sigri. En skilaboðin komust á leiðarenda.

laugardagur, 20. maí 2006

Eurovision enn einu sinni.

Carola blessuð "stelpan" mætt einu sinni enn til þess að reyna sig. Ég er fúll yfir því að Silvía skuli ekki vera með. Mér fannst hún lang flottust. Finnarnir eru svolítið "svakalegir" en mér finnst þeir með gott lag. Jæja þetta er skrifað áður en keppnin er yfirstaðinn svo við sjáum hvernig þetta fer.
Hvað er betra en fá sé kaffi og köku úti undir berum himni. Þótt aðeins gjóli. Fundum hestaleigu þar sem líka var selt kaffi ásamt því að bjóða reiðtúr á íslenskum hestum.
Við stoppuðum við eina af fjölmörgum antíkbúðunum sem voru á leið okkar. Hér má sjá ferðafélagana stilla sér fyrir myndatöku.
Hér heilsum við nafnarnir þriðja landanum í Svearíki. Gráni er í eigu hestaleigunnnar sem við heimsóttum og vinnur fyrir sér með því að stytta Svíum stundirnar á baki sínu. Það fór vel á með okkur löndunum og hlýjar kveðjur streymdu á milli okkar án orða en með töluverðri snertingu.

Í heimsókn í Svearíki.

Við Sirrý höfum dvalið hér í helgarfrí hjá Hirti,Ingibjörgu og nafna. Höfum haft það mjög gott hérna á Lasarettsbolevarden 12 c. Keyrt hér um héruð og notið þess að vera til. Kveðja.

mánudagur, 15. maí 2006

Lok á vetrarstarfi.

Ég fór í síðasta píanótíma vetrarins á föstudaginn hjá Þ. Gauta. Nú fer að líða að lokum vetrarstarfsins í leikfiminni. Við ætlum að reyna að þrauka út maí mánuð. Erfiður tími hjá Gauta leikfimistjóra í dag. Söngæfingum lauk 7. maí og svo hætti ég sem ritari á Rotarýfundum eftir mánuð. Þannig að þetta verður gott sumarfrí frá þessum helstu áhugamálum næstu tvo til þrjá mánuði. Nú í vinnunni held ég bara sama striki áfram en þar verður lokað seinni hlutann í júlí. Við höfum aðeins verið að myndast við vorverkin. Bæsuðum sólpallinn og þvoðum og máluðum kjallaratröppurnar. Höfum aðeins hitt nýja nágranna sem hafa verið að flytja inn í nokkur húsin í kringum okkur. Þetta er fólk sem er svona 15 til 20 árum yngra en við með svona + 3 börn og hund (sumir). Manni finnst við vera orðin meðal gamlingjanna í hverfinu en það er allt í lagi. Við fluttum síðust í þetta hverfi af þeim sem fluttu fyrstir inn í húsin á árunum 1983 til 1985 og vorum svona 5 til 7 árum yngri. Hreint ótrúlegt hvað það hefur verið mikil hreyfing í hverfinu á undanförnum árum þegar maður pælir í því. Skýringarnar á þessum flutningum eru vafalaust jafnmargar og tilfellin. Nú fer að styttast í sveitarstjórnarkosningarnar. Maður er einhvern veginn mitt á milli í hinni pólitísku umræðu eða á ég að segja utanveltu. Er ekki með börn á barnaheimilum eða grunnskóla. Er ekki að leita að lóð eða byggja. Búið að malbika og gera göngustíga. Þarf ekki sem betur fer á sjúkraheimili fyrir aldraða að halda í bili eða með áhuga á nýju tónlistarhúsi á Borgarholtinu. Það er helst að maður velti því fyrir sér hvort ekki megi fara að draga úr kostnaði við rekstur sveitafélagsins. En þá segja stjórnmálamennirnir að það sé búið að gera það! Maður megi ekki vera neikvæður miðaldra karl sem vilji bara spara. Nei "the show" verður að halda áfram og nú eru það vöggustofur sem vantar handa "karrier kvinnunum" sem mega ekki vera að því að passa börnin sín. Ef maður spyr í einfeldni sinni hvort þær geti bara ekki verið heima og passað börnin sín meðan þau eru í vöggu. Þá fær maður augnatillit og glósur um úreld viðhorf miðaldra karlmanna. Svona er Ísland.

sunnudagur, 14. maí 2006

Æ,æ,æ þar lágu mínir menn í því..


Hammers.
Hvílíkur leikur og barátta! Náði að fylgjast með úrslitaleiknum í ensku bikarkeppninni í gær. Allir leikmenn gáfu 110% í leikinn. Ég hélt að sjálfsögðu með mínum mönnnum, West Ham. Það er nú orðið langt um liðið síðan þeir hafa verið svona áberandi í sviðsljósinu. Rifjaði upp gamla og góða tíma þegar félagið átti þrjá menn í enska landsliðinu, sem vann Þjóðverja á Wembley árið 1966 og urðu heimsmeistarar. Síðan eru liðin 40 ár !!! og Bretar hafa aldrei unnið síðan. West Ham kapparnir sem urðu heimsmeistarar voru Bobby Moore sjálfur fyrirliðinn, Jeff Hurst og Martin Peters. Síðan enski boltinn fór að þvælast milli stöðva hef ég meira og minna misst af þeirri skemmtan sem hann var hér á árum áður. Er þó ennþá með Sýn og sé einn og einn leik. Það verður spennandi að sjá hvernig Englendingum vegnar í heimsmeistarakeppninni í ár. Kannski þeir nái að halda upp á 40 ára afmælið með því að vinna þessa keppni, hver veit. Annars lítið í fréttum af okkur. Hér komu í gærkvöldi Valdimar og Stella og í gærdag Vélaug og Sigurður með þriggja ára fallega snót sem heitir Bryndís Gunnarsdóttir. Hér er þær mæðgur áfram við sína iðju að fara yfir próflausnir og lesa undir próf.Nú þið getið lesið um það sem ég eyði tímanum í.

laugardagur, 13. maí 2006

Í minningu J.K.Galbraiths.


John Kenneth Galbraith.
Þann 30.apríl síðastliðinn lést hagfræðingurinn John Kenneth Galbraith 97 ára gamall. Hann skipar sér á bekk meðal merkustu hagfræðinga 20.aldarinnar. Galbraith hafði mikil mótandi áhrif á samtíma sinn sem lét/lætur sig þjóðfélagsmál varða. Bækur hans Hrunið mikla í október 1929, Nægtarþjóðfélagið, Iðnríkið nýja, eru meðal merkustu bóka hans. Sjónvarpsþættir BBC um hugmyndir hagfræðinnar og áhrif þeirra, Öld óvissunnar var snjallt framtak í því að fræða almenning um megin þætti hag- og félagsfræðiþátta á skýran og eftirminnilegan hátt. Hann taldist til frjálslyndra hagfræðinga og frekar litinn hornauga af talsmönnum frjálshyggjunnar. Í Nægtarþjóðfélaginu bendir hann á fátæktina og speglar hana í auði hinna fáu og ríku og bendir á að í því geti ekki falist viðunandi réttlæti. Í bók sinni Hrunið mikla 1929 greinir hann orsakir og afleiðingu verðhrunsins mikla á Wall Street. Ég sagði einu sinni við framsækinn bankamann fyrir margt löngu að þessi bók ætti að vera skyldulesning fyrir ungt fólk, sem væri að selja verðbréf. Það er ómögulegt svaraði þessi bankamaður að bragði. Það borgar sig ekki þá verða þeir bara varfærnir og ekki hægt að nota þá. Ég er núna þeirrar skoðunar að bókin ætti að vera skyldulesning hjá alþýðu manna. Það væri heillavænlegra. Hér fylgir ein lýsandi Galbraith setning um áætlanagerð: "Menn telja, að markaðshagkerfi sé við lýði, þegar neytandinn hefur frumkvæðið. Þegar frumkvæðið færist yfir í hendur framleiðandanum - og neytandinn dansar eftir pípu hans - segja menn réttilega, að um áætlunarbúskap sé að ræða." (Iðnríki okkar daga bl.41). Galbraith var mikill stuðningsmaður Kennedy forseta USA. Hann gengdi stöðu ambassadors í Indlandi. Minnist ég skemmtilegrar frásagnar hans af leiðinlegum diplomatískum fundum er hann notaði tímann við skriftir. En þetta varð því miður stundum til að lengja fundina vegna þess að ræðumenn voru svo upp með sér að sjá hvað ameríski ambassadorinn var duglegur að punkta niður hjá sér orðræður þeirra. Gullaldartími Galbraiths var 5.,6. og 7 áratugir 20 aldarinnar. Jæja ég læt þetta duga í minningu þessa mikilhæfa hagfræðings.

fimmtudagur, 11. maí 2006

Styttan frá Vézeley.


María Magdalena.
Ég keypti þessa fallegu styttu af Maríu Magdalenu í klausturbænum Vézeley í Búrgúndi í apríl síðastliðinn. Stórfenglega klausturkirkjan þar er helguð henni og má sjá mynd af kirkjunni í einum apríl pistli sem segir frá Frakklandsferðinni. Miklar vangaveltur hafa verið um það undanfarin misseri hvert hlutverk Maríu Magdalenu sé í kristindómnum og hvað sé leyndarmálið á bak við "hinn heilaga bikar". Það þarf ekki að kafa djúpt í Nýja testamentinu til þess að skilja að hlutverk hennar er stórt. Hún kemur fyrst að gröf Jesú og skýrir frá upprisunni og er því fyrsti boðberi upprisunnar. Ýmsar tilgátur eru nú á lofti um stöðu hennar gagnvart Jesú. Var hún eiginkona Jesú, fylgikona eða hvað? Ég ætla ekki að velta mér upp úr því en ég hef verið að leika mér að tilgátu um hvaða "symbolík" sé á bak við hinn heilaga bikar sem hún heldur á. Staddur í miðju Burgúndý héraði horfandi á þessa styttu þá sló það mig sem augljóst mál að "hinn heilagi bikar" væri tákn um þá guðsblessun sem tilkoma vínviðarins og vínþrúga hans var fyrir þetta svæði. Þessi menning kom frá Rómarríki eins og kristindómurinn. Í hugum fólksins var vínið ljúfa í hinum heilaga bikar kraftaverkið sjálft,´"blóð Krists". Auðvitað hlaut bikarinn að vera í höndum Maríu Magdalenu þeirrar mannveru er fyrst sagði frá upprisu Krists og sagði; "Ég hef séð Drottin". Hún mun hafa flúið til Frakklands. Jóseph frá Arímaþeu sem átti gröfina sem Jesú var lagður í Jerúsalem átti landareign í Frakklandi og þangað segir að hún hafi flutt. Þessvegna er nærvera hennar svo sterk í Frakklandi. Hún mun vera sérstakur verndardýrlingur fanga og annarra sem hafa misstigið sig í lífinu. Jæja hef þennan pistil ekki lengri. Kveðja.

þriðjudagur, 9. maí 2006

Sólsetursmistur


Sól í vestri.
Sósetursmistur kalla ég þessa mynd af sólinni á vesturhimni. Annan dag í röð er mistur í lofti, hlýtt og notalegt veður mælirinn í bílnum sagði +14°C í dag. Þetta er eins og í "útlöndum". Við höfum löngum talið að allt sé best þar. Á svona stundu er örugglega hvergi betra en hér. Vona að þetta trufli ekki þá sem tímabundið eru í staddir í verkefnum erlendis. Nú það er svo sem ekki mikið að frétta þessa dagana. Var á Rótarý fundi í dag alltaf gefandi að mæta á fundi þar. Nú fer að styttast í að ég losni sem ritari á fundum. Á síðustu dögum hefur gróður sprungið út og gróður lyktin í loftinu er yndisleg, fyllir öll vit. Athygli mín beindist að því í dag hversu gagnlegt það getur verið að gera áætlanir, setja sér markmið. Segir ekki líka að betra sé að veifa röngu tré en engu? Áætlun þarf ekki að vera flókin eða merkileg. Maður skrifar niður nokkrar línur um það sem stendur til að gera. Ég hef stundum sagt að leiðin að settu marki sé alltaf næsta skref. En það hjálpar til að hreyfa fæturnar að vita hvert maður ætlar að stefna.
Jæja hef þessa pælingar ekki lengri. Verðum í sambandi.

mánudagur, 8. maí 2006

Nú er komið sumar.....

Í gær var Skaftfellingakaffi fyrir eldra fólk. Kórinn söng nokkur lög og voru þetta einu formlegu tónleikarnir á þessu ári. Það gékk ágætlega og undravert hvað margir voru mættir þrátt fyrir gott veður úti. Í kvöld var svo aðalfundur kórsins og kvöldkaffi þar sem afgangar gærdagsins voru étnir. Ef einhverjir Skaftfellingar slæðast inn á þessa vefsíðu hvet ég þá til þess að koma í kórinn það er nóg pláss. Þetta á líka við um aðra söngfugla, jafnvel þótt þeir séu ekki úr Skaftafellssýslunum. Annars höfum við mest verið heima við. Fúavörðum pallinn og þrifum kjallaratröppurnar og var ekki vanþörf á. Veðrið þessa helgi hefur verið hreint út sagt frábært. Hlýtt og allur gróður að sprynga út með látum. Þær mæðgur sitja þó mest inni við. Önnur við próflestur og hin við lestur prófúrlausna. Hér litu við í gær þær mæðgur Unnur og Stefanía. Annars lítið í fréttum. Kveðja.

fimmtudagur, 4. maí 2006

Hækkandi bensínverð


Rakst á þessa mynd á www hún segir í raun allt sem segja þarf varðandi hækkandi bensínverð. Tók eftir því að bílaleigubíllinn sem ég tók í Frakklandi í apríl var díselbíll og eyddi aðeins um 5 lítrum á hundrað km. Maður fyllti tankinn fyrir 5000 kall og gat keyrt á tankinum 1000 km. Bílarnir okkar eru frekar eyðslufrekir. Ég hugsa að jeppinn eyði 20 lítrum á 100 km. Fyllingin á tankinn kostar 10000 og maður keyrir 400 km á tankinum. Þannig að það er hægt að spara töluverða peninga með því að skoða eyðslugrennri bíla. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Nú fer að nálgast í sveitarstjórnarkosningar maður skynjar að baráttan er að harðna. Spennandi að sjá hvernig landslagið verður í borginni eftir kosningar.

þriðjudagur, 2. maí 2006

Tvö ár á blogginu!

Nú eru liðin tvö ár síðan þessi bloggsíða var opnuð. Í upphafi var þetta fikt sem átti ekki að verða að neitt framhald á. Svo þróaðist þetta smátt og smátt frá einum pistli til annars og eru nú vel yfir 600 innslög frá upphafi. Efnisflokkar annálsins hafa verið hugleiðingar ritstjórans á líðandi stundu oftast tengt lífi og starfi okkar Brekkutúnsbúa ásamt vaxandi fjölda mynda. Merkisatburðir, ferðalög, skemmtanir, tónleikar, áhugamál, þjóðmál, heimsóknir, veðurfarslýsingar. Þetta eru helstu flokkarnir. Ritstjórnarstefnan annálsins hefur haft það að leiðarljósi að fjalla mildilega um menn og málefni. Á þessum tveimur árum sem bloggsíðunni hefur verið haldið úti hafa alls verið um 10300 heimsóknir samkvæmt teljara. Þetta verður að teljast gott í ljósi þess að allt fyrsta árið voru einungis 1300 heimsóknir og ritstjórinn átti líklega 400 til 500 innkomur sjálfur. Af þessum rúmlega 10 þúsund heimsóknum sem nú eru komnar á síðuna á ritstjórinn örugglega töluverðan fjölda, 2000 til 3000 en varla fleiri heimsóknir. Þetta starfar af því að gott er að geta flett upp í annálnum til að rifja upp atburði. Ég sé nú til hvað maður endist í þessum bloggskrifum. Alltaf gaman að fá komment frá ykkur. Hjörtur Friðrik er duglegastur í því. Nú annars er ekkert sérstakt í fréttum. Löng helgi nýafstaðin. Hér komu í dag mamma og pabbi og stoppuðu smástund og sögðu okkur helstu fréttir af fjölskyldunni. Var á Rótarýfundi í dag. Þar var fjallað um félagsmiðstöðvar unglinga, áhugavert erindi. Minnti mann á Fríkirkjuveg 11(Thor Jensen húsið)í Reykjavík, þar sem voru unglingaböll fyrir 13 til 15 ára og svo æskulýðsmiðstöðina á Álfhólsvegi sem sótt var líka á sama aldursskeiði. Þetta hefur verið 1965 - 1966. Þá var verið að spila vikulega fótboltakúluspil, borðtennis og dansa við stelpur. Svo þegar maður varð aðeins eldri tóku við skemmtistaðirnir, Sigtún, Tjarnarbúð og Glaumbær. Keiluspilahallirnar,ballskákarbúllurnar, rúnturinn og fleira. Nú er setið fyrir framan tölvu og párað þetta raup á bloggsíðuna. Kveðja.