fimmtudagur, 11. maí 2006

Styttan frá Vézeley.


María Magdalena.
Ég keypti þessa fallegu styttu af Maríu Magdalenu í klausturbænum Vézeley í Búrgúndi í apríl síðastliðinn. Stórfenglega klausturkirkjan þar er helguð henni og má sjá mynd af kirkjunni í einum apríl pistli sem segir frá Frakklandsferðinni. Miklar vangaveltur hafa verið um það undanfarin misseri hvert hlutverk Maríu Magdalenu sé í kristindómnum og hvað sé leyndarmálið á bak við "hinn heilaga bikar". Það þarf ekki að kafa djúpt í Nýja testamentinu til þess að skilja að hlutverk hennar er stórt. Hún kemur fyrst að gröf Jesú og skýrir frá upprisunni og er því fyrsti boðberi upprisunnar. Ýmsar tilgátur eru nú á lofti um stöðu hennar gagnvart Jesú. Var hún eiginkona Jesú, fylgikona eða hvað? Ég ætla ekki að velta mér upp úr því en ég hef verið að leika mér að tilgátu um hvaða "symbolík" sé á bak við hinn heilaga bikar sem hún heldur á. Staddur í miðju Burgúndý héraði horfandi á þessa styttu þá sló það mig sem augljóst mál að "hinn heilagi bikar" væri tákn um þá guðsblessun sem tilkoma vínviðarins og vínþrúga hans var fyrir þetta svæði. Þessi menning kom frá Rómarríki eins og kristindómurinn. Í hugum fólksins var vínið ljúfa í hinum heilaga bikar kraftaverkið sjálft,´"blóð Krists". Auðvitað hlaut bikarinn að vera í höndum Maríu Magdalenu þeirrar mannveru er fyrst sagði frá upprisu Krists og sagði; "Ég hef séð Drottin". Hún mun hafa flúið til Frakklands. Jóseph frá Arímaþeu sem átti gröfina sem Jesú var lagður í Jerúsalem átti landareign í Frakklandi og þangað segir að hún hafi flutt. Þessvegna er nærvera hennar svo sterk í Frakklandi. Hún mun vera sérstakur verndardýrlingur fanga og annarra sem hafa misstigið sig í lífinu. Jæja hef þennan pistil ekki lengri. Kveðja.

Engin ummæli: