laugardagur, 13. maí 2006

Í minningu J.K.Galbraiths.


John Kenneth Galbraith.
Þann 30.apríl síðastliðinn lést hagfræðingurinn John Kenneth Galbraith 97 ára gamall. Hann skipar sér á bekk meðal merkustu hagfræðinga 20.aldarinnar. Galbraith hafði mikil mótandi áhrif á samtíma sinn sem lét/lætur sig þjóðfélagsmál varða. Bækur hans Hrunið mikla í október 1929, Nægtarþjóðfélagið, Iðnríkið nýja, eru meðal merkustu bóka hans. Sjónvarpsþættir BBC um hugmyndir hagfræðinnar og áhrif þeirra, Öld óvissunnar var snjallt framtak í því að fræða almenning um megin þætti hag- og félagsfræðiþátta á skýran og eftirminnilegan hátt. Hann taldist til frjálslyndra hagfræðinga og frekar litinn hornauga af talsmönnum frjálshyggjunnar. Í Nægtarþjóðfélaginu bendir hann á fátæktina og speglar hana í auði hinna fáu og ríku og bendir á að í því geti ekki falist viðunandi réttlæti. Í bók sinni Hrunið mikla 1929 greinir hann orsakir og afleiðingu verðhrunsins mikla á Wall Street. Ég sagði einu sinni við framsækinn bankamann fyrir margt löngu að þessi bók ætti að vera skyldulesning fyrir ungt fólk, sem væri að selja verðbréf. Það er ómögulegt svaraði þessi bankamaður að bragði. Það borgar sig ekki þá verða þeir bara varfærnir og ekki hægt að nota þá. Ég er núna þeirrar skoðunar að bókin ætti að vera skyldulesning hjá alþýðu manna. Það væri heillavænlegra. Hér fylgir ein lýsandi Galbraith setning um áætlanagerð: "Menn telja, að markaðshagkerfi sé við lýði, þegar neytandinn hefur frumkvæðið. Þegar frumkvæðið færist yfir í hendur framleiðandanum - og neytandinn dansar eftir pípu hans - segja menn réttilega, að um áætlunarbúskap sé að ræða." (Iðnríki okkar daga bl.41). Galbraith var mikill stuðningsmaður Kennedy forseta USA. Hann gengdi stöðu ambassadors í Indlandi. Minnist ég skemmtilegrar frásagnar hans af leiðinlegum diplomatískum fundum er hann notaði tímann við skriftir. En þetta varð því miður stundum til að lengja fundina vegna þess að ræðumenn voru svo upp með sér að sjá hvað ameríski ambassadorinn var duglegur að punkta niður hjá sér orðræður þeirra. Gullaldartími Galbraiths var 5.,6. og 7 áratugir 20 aldarinnar. Jæja ég læt þetta duga í minningu þessa mikilhæfa hagfræðings.

Engin ummæli: