þriðjudagur, 2. maí 2006

Tvö ár á blogginu!

Nú eru liðin tvö ár síðan þessi bloggsíða var opnuð. Í upphafi var þetta fikt sem átti ekki að verða að neitt framhald á. Svo þróaðist þetta smátt og smátt frá einum pistli til annars og eru nú vel yfir 600 innslög frá upphafi. Efnisflokkar annálsins hafa verið hugleiðingar ritstjórans á líðandi stundu oftast tengt lífi og starfi okkar Brekkutúnsbúa ásamt vaxandi fjölda mynda. Merkisatburðir, ferðalög, skemmtanir, tónleikar, áhugamál, þjóðmál, heimsóknir, veðurfarslýsingar. Þetta eru helstu flokkarnir. Ritstjórnarstefnan annálsins hefur haft það að leiðarljósi að fjalla mildilega um menn og málefni. Á þessum tveimur árum sem bloggsíðunni hefur verið haldið úti hafa alls verið um 10300 heimsóknir samkvæmt teljara. Þetta verður að teljast gott í ljósi þess að allt fyrsta árið voru einungis 1300 heimsóknir og ritstjórinn átti líklega 400 til 500 innkomur sjálfur. Af þessum rúmlega 10 þúsund heimsóknum sem nú eru komnar á síðuna á ritstjórinn örugglega töluverðan fjölda, 2000 til 3000 en varla fleiri heimsóknir. Þetta starfar af því að gott er að geta flett upp í annálnum til að rifja upp atburði. Ég sé nú til hvað maður endist í þessum bloggskrifum. Alltaf gaman að fá komment frá ykkur. Hjörtur Friðrik er duglegastur í því. Nú annars er ekkert sérstakt í fréttum. Löng helgi nýafstaðin. Hér komu í dag mamma og pabbi og stoppuðu smástund og sögðu okkur helstu fréttir af fjölskyldunni. Var á Rótarýfundi í dag. Þar var fjallað um félagsmiðstöðvar unglinga, áhugavert erindi. Minnti mann á Fríkirkjuveg 11(Thor Jensen húsið)í Reykjavík, þar sem voru unglingaböll fyrir 13 til 15 ára og svo æskulýðsmiðstöðina á Álfhólsvegi sem sótt var líka á sama aldursskeiði. Þetta hefur verið 1965 - 1966. Þá var verið að spila vikulega fótboltakúluspil, borðtennis og dansa við stelpur. Svo þegar maður varð aðeins eldri tóku við skemmtistaðirnir, Sigtún, Tjarnarbúð og Glaumbær. Keiluspilahallirnar,ballskákarbúllurnar, rúnturinn og fleira. Nú er setið fyrir framan tölvu og párað þetta raup á bloggsíðuna. Kveðja.

Engin ummæli: