þriðjudagur, 5. júlí 2016

Dýrafjarðardagar


Það er gott að skipta um umhverfi og vera þorpari í litlu þorpi vestur á fjörðum, nánar tiltekið Þingeyri við Dýrafjörð. Hér þessa helgi eru Dýrafjarðardagar. Boðið er upp á ýmsa afþreyingu fyrir gesti og heimamenn. Í dag tókum við Lilja sonardóttir okar þátt í ratleik. Mitt hlutverk var nú bara að koma henni í lið. Ég hefði ekki átt séns í að hlaupa á eftir þessum fimm skottum í liðinu hennar, Sykurpúðunum, eins og þær kölluðu sig um þorpið. Svo á kvöldgöngunni mættum við hópi föngulegra meyja að að fara á ball. Sveimérþá ef blikið í augum þeirra sagði ekki, "komdu með ungi maður." Við vorum fyrr í dag á Bolungarvík og hittum Mörthu hans Karvels heitins og Stínu dóttur hans. Það voru fagnaðarfundir. Mamma og Martha fóru saman að horfa á börn spreyta sig í söng. Myndin sem ég tók af þeim er lýsandi fyrir gamlan og góðan vinskap, sem hefur verið milli foreldra minna og Mörthu og Karvels um áratugaskeið.
Martha og Unnur 

Við höfum gert hér ýmislegt til dægrastyttingar. Farið í ferðir til Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. Farið yfir heiðarnar háu og notið ægifagurs útsýnis á Hrafnseyrarheiði og Dynjanda. Dorgað á bryggjunni á Þingeyri og átt hér hina ljúfustu daga.
Lilja dorgar á Þingeyri
Þá höfum við fylgst með gengi íslenska landsliðsins í fótbolta á EM og haft gaman af. Ég fór eitt kvöldið og horfði með nokkrum Ítölum á lið þeirra tapa í vítaspyrnukeppni fyrir Þjóðverjum og svo fór ég í strætisvagn sem hér er og horfði á leik Íslands og Frakklands. Gestirnir klöppuðu alltaf á vitlausum stað þannig að ég laumaði mér aftur í Litlaholt og horfði á leikinn þar.

Engin ummæli: