mánudagur, 5. september 2016

Í minningu Stefáns Sigurðssonar

Við félagar Stefáns Sigurðssonar í Rótarýklúbbi Kópavogs minnumst með þakklæti og hlýhug félaga okkar við skyndilegt fráfall hans.
Okkur þótti mikill fengur að því að fá Stefán til liðs við klúbbinn fyrir nokkrum árum og væntum okkur mikils af þátttöku hans um ókomin ár. Hann hafði af mikilli reynslu og þekkingu að miðla úr atvinnulífinu, sem vel þekktur veitingamaður, kokkur og framkvæmdastjóri veitingahússins Perlunnar.
Stefán var umfram allt góður félagi og vinur. Hjálpfús, hófsamur og alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd hvenær sem færi gafst. Hann var jafnframt kappsamur og metnaðarfullur í störfum sínum og í fremstu röð í hverju sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann var úr hópi gjörvulegra Kópavogsbúa, sem ólst upp á frumbýlisárum bæjarfélagsins. Æskuheimili Stefáns var viðkomustaður margra Kópavogsbúa á þessum árum, enda faðir hans og móðir leiðandi í málefnum bæjarins um árabil.
Saga Stefáns og afrek, sem ekki verða tíunduð í stuttu máli eru til marks um dugnað þess fólks og þeirra fjölskyldna, sem byggðu sér heimili í Kópavogi og ólu hér upp harðduglegt og gott fólk.
Sjálfur varð Stefán forvígismaður í sínum störfum eins og hann átti kyn til.
Stefán fylgdi með klúbbsaðild sinni í fótspor föður síns, Sigurðar Helgasonar hrl., sem var einn af stofnfélögum, bróður, Helga Sigurðssonar, sem er fyrrverandi forseti klúbbsins og systur, Margrétar Maríu Sigurðardóttur, sem er fyrsta konan, sem gerðist félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs.
Hugur okkar er hjá eiginkonu, sonum og fjölskyldu hans og við biðjum þess að almáttugur Guð styrki þau. Við þökkum Stefáni samfylgdina.
Fyrir hönd Rótarýklúbbs Kópavogs,
Sveinn Hjörtur Hjartarson.

Engin ummæli: