miðvikudagur, 28. september 2016

if it ain´t broke don´t fix it

Fyrstu árin í starfi hafði ég það starf með höndum að hringja í bankana og spyrja hvort útgerðarlánin færu ekki að hækka. Þetta gerði ég samviskusamlega í nokkur ár og stundum voru þau hækkuð vegna þessa, að ég taldi. Einu sinni á götu, eftir svona hringingar, hitti ég yfirmann afurðalánadeildar Landsbankans. Hann tekur mig tali og spyr mig hvort ég viti ekki hvers eðlis þessi útgerðarlán eru. Ég sagðist telja að þetta væru sérstök lán til útgerðar. Hann brosti þá og sagði sposkur: "Sveinn, þetta er yfirdráttur á tékkhefti." Ég hringdi ekki aftur í bankana til að biðja um almenna hækkun á "útgerðarlánum." Annað dæmi er af útgerðarmanninum fyrir vestan, sem seldi skip sitt og aflaheimildir háu verði og sagðist hættur í þessum rekstri fyrir fullt og allt. Nokkrum mánuðum síðar rakst ég á hann aftur og hann er kominn að nýju í útgerð. Ég var forvitinn um þessi sinnaskipti og spurði hverju þetta sætti. Það stóð ekki á svari. Jú, ég fékk ágætis verð og fékk stærstan hlutann af kaupverðinu greitt með skuldabréfum. Vandinn var sá að það vildi enginn kaupa þessi skuldabréf af mér, nema aðilar í sjávarútvegi. Það er enginn markaður fyrir skuldabréf, sem gefin eru út af aðilum í sjávarútvegi. Þetta eru dæmi um þá breytingu sem orðið hefur í sjávarútveginum. Nú er það almennt viðhorf í landinu að sjávarútvegurinn sé eitt helsta gullegg þjóðarinnar. Eitt helsta keppikefli margra stjórnmálamanna er að brydda upp á framsæknum aðferðum til að skattleggja greinina nógsamlega í þágu heildarinnar. En gætið að, það er auðveldlega hægt að eyðileggja þennan árangur og þarf ekki langan tíma til. Þessvegna segi ég "if it ain´t broke don´t fix it."

Engin ummæli: