miðvikudagur, 14. september 2016

Þrjátíu ára gömul hugleiðing og sjálfspeglun.

Eftirfarandi texti spratt fram við lestur fyrirtækjatalsins, Heildverslanir 1987, útgefið af Félagi íslenskra stórkaupmanna og skrifuð á spássíur þess á því skattlausa ári.

„Það er einkennilegt hvernig maður getur vaxið frá sumum draumum sínum. Einu sinni ætlaði ég að vera sjálfs míns herra. Reka eigið fyrirtæki, heildverslun eða eiga önnur viðskipti. En árin líða eitt af öðru og nú er ég orðinn „kerfiskarl“ í þjónustu annarra.

Í stuttu máli lifi ég af því að velta pappírum frá einni borðbrúninni að þeirri næstu. Skoða tölur, sem segja sögu annarra. Hvort þeir hafi þénað milljóninni meira eða minna  á síðastliðnu ári, svo rýni ég í meðaltalsreikninga útbúna af kollegum, sem svipað er ástatt um. Þess í milli velti ég mér upp úr hugsunum um eigin persónu og því hvort ég sé meiri eða minni karl en ég var í gær, í fyrra eða fyrir fjórum árum.

Fyrir allt þetta allt þigg ég sæmilegustu laun, miðað við enn aðra meðaltalsreikninga, sem gerðir eru af félagi Viðskipta- og hagfræðinga fyrir þá, sem svipað er ástatt um og eru flestir í svipaðri stöðu og ég.

Hugsun okkur leikrit með dágóðum fjölda leikenda, þannig er lífið. Sumir hafa stór hlutverk, aðrir smærri. Stóra spurningin er væntanlega fyrir þann, sem er í litla hlutverkinu, hvort hann geti komist í „aðalhlutverkið.“ Augljóslega eru margar hindranir á veginum. Sú fyrsta er sjálfur leikarinn, sem leikur aðalhlutverkið. Getur nokkuð velt honum úr sessi. Síðan er það hlutverkið sjálft. Hvers konar persónugerð er um að ræða. Það er erfitt fyrir lítinn og feitan að taka að sér hlutverk hins stóra og granna. Þannig mætti lengi halda áfram.

Öll höfum við leikendur væntingar um „stóra“ hlutverkið, sem færir okkur frægð og frama og síðast en ekki síst virðingu og viðurkenningu annarra. Það er erfitt að gefa einhlít ráð við svona hugleiðingum, en samt er ýmislegt, sem vert er að hugleiða:

1.      Af störfum sínum er að lokum hver og einn metinn.
2.      Ræktun persónuleika, andlega, menntunar, framkomu og líkamlegs atgervis skiptir hér miklu.
3.      Óbrengluð hugsun og hæfileg skynsemi er ómetanlegt veganesti.
4.      Ákvarðanataka og framkvæmd í kjölfarið skiptir miklu.
5.      Þolinmæði hefur mikið að segja.
6.      Fálkinn er ránfugl. Hann tekur bráð sína og er árásargjarn. Það má taka hann til fyrirmyndar.
7.      Hollusta og heilsusamlegt líferni, ásamt gæfu er líka nauðsynlegt.“



Engin ummæli: