sunnudagur, 21. febrúar 2016

Fyrsta myndin

Myndin sem hér fylgir er eftir Sigfús Halldórsson máluð á Þingvöllum 1958. Þannig var að Sigfús bað mig um að aðstoða sig við að mála glugga á efri hæð. Hann sagðist svo lofthræddur og ekki treysta sér í stigann. Það var ekki mikið mál og ég málaði gluggana en hann stýrði verkinu af jörðu niðri. Þegar við vorum búnir vildi hann endilega borga mér fyrir aðstoðina, en ég vildi það ekki. Leit á þetta sem sjálfsagt viðvik við nágranna og vin foreldra minna. Þá sagði hann að fyrst ég vildi ekki greiðslu fyrir aðstoðina væri lágmark að við hefðum kaup kaups. Ég hefði málað fyrir hann og því rétt að hann málaði fyrir mig. Síðan fór hann með mig inn í vinnuherbergi sitt og ég fékk að velja mér mynd. Þetta er myndin sem ég valdi. Minnir að þetta hafi verið sumarið 1967 frekar en 1966. Þessi mynd hefur veitt mér mikla gleði og fleirum. Tengdamóðir mín var með hana að láni í mörg ár. Myndin er sérstök að því leiti að hún sýnir kunnuglega íslenska náttúru en ekki í sínum litríkasta blóma eins og er svo algengt með náttúrumyndir.


Engin ummæli: