þriðjudagur, 21. júní 2016

Brexit, inni eða úti

Það er ekki mikil umræða hér á landi um Brexit þ.e. hugsanlega útgöngu Breta úr ESB. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hver áhrif þess verða í álfunni hætti Bretar í sambandinu, hvað þá á okkur Íslendinga.

 Svörtustu spár spá verulegum samdrætti í efnahagslífi Breta, vaxandi atvinnuleysi og gengissigi. Því er haldið fram að þessi staða muni hafa versnandi áhrif á efnahagslíf okkar í ljósi þess að Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar. Aðrir gera minna úr þessum efnahagslegu áhrifum og halda því fram að Brexit muni leiða til þess að nýir möguleikar skapist. 

Eftir stendur að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer má ljóst vera að ESB er á tímamótum. Verulegir erfiðleikar í jaðarríkjum kringum þýsk - franska öxulinn skapar mikla óvissu í álvunni. (Svo er Frakkland ekkert í sérstaklega góðum málum, en hafa gamalt og gott tak á Þjóðverjum).

Stórmál eins og Schengen og evran og ójöfn samkeppnisskilyrði á innri markaði bandalagsins eru mikil vonbrigði. Ljóst að evran er mun veikari en talið var. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með helsta talsmanni Brexit úr flokki íhaldsmanna Boris Johnson, sem heldur því blákalt fram að ESB sé steinrunnið batterí, sem kosti Breta stórfé en skili litlum sem engum árangri.

 Hamrað er á hlutverki ESB sem öryggisstofnun fyrir Evrópu m.a. hefur Obama blandað sér í umræðuna hvað það varðar. Reyndin er hinsvegar sú að ESB hefur náð afar takmörkuðum árangri á þeim vettvangi.

 Sambandið og stofnanir þess hefur aftur á móti reynst góð "mjólkurkú" fyrir bírókrata, sem hafa haft góða afkomu í Brussel á meðan fólk í aðildarlöndum ESB hefur það í vaxandi mæli fremur skítt.

 Í öllu falli er ljóst að gangi Bretar úr ESB eru framundan miklar breytingar í farvatninu á vettvangi Evrópumála. Stofnanir og hinir betur settu vilja óbreytta aðild en almenningur í Bretlandi, grasrótin, virðist vera búin að fá sig fullsadda af þessum félagsskap. Nóg í bili.

Engin ummæli: