mánudagur, 6. júní 2016

Minnisstæður útgerðarmaður

Hjó eftir því hjá Elísabetu Jökulsdóttur í umræðuþætti í gær að hún nefndi nafn útgerðarmanns og skiptstjóra sem var ágætis kunningi minn. Hann hét Óskar Þórarinsson, stundum kenndur við bát sinn Frá VE í Vestmannaeyjum. Af öllum þeim útvegsmönnum sem ég hef kynnst á 30 ára ferli hjá samtökum útvegsmanna voru fáir betur máli farnir en Óskar. Það var hrein unun oft á tíðum að hlusta á hann reifa málin á útvegsmannafundum, þótt hann væri ekkert alltaf sammála síðasta ræðumanni. Hann var hnittinn með afbrigðum og beittur í senn. Hann gat verið mikill grallari og gleðimaður var hann. Víðlesinn og fróður um margt. Fræg er sagan þegar hann keypti verðlauna stóðhestinn upp á landi á einhverju hestamannamótinu. Eftir nokkurn tíma var hringt og hann spurður hvort ekki ætti að fara sækja gripinn. Óskar mundi ekkert eftir þessum kaupum en skoðaði í tékkheftið sitt og mikið rétt þar stóð hrossakjöt fyrir 700 þús. krónur. Já, eða þegar þeir fóru á barinn í Tryggvagötu nokkrir félagar úr Eyjum og ætluðu að finna þar reykvískan glæpon, sem þeir höfðu heyrt að héldi til þar. Mikið rétt þeir sáu einn við barinn, sem gæti verið glæpon. Tókum manninn tali og spurðu hann hvaða starf hann hefði með höndum. Það stóð ekki á svari: Ég er bara svona venjuleg fyllibytta eins og þið. Síðar kom í ljós að maðurinn var prófessor við Háskóla Íslands og fór vel á með þeim þarna á búllunni. Óska sjómönnum og útgerðarmönnum til hamingju með daginn.

Engin ummæli: