sunnudagur, 27. nóvember 2016

Frá Tarragona

Það hefur svo margt komið mér á óvart þennan tíma hérna á Spáni. Ég hafði ákveðna staðalmynd af landinu, sem byggði á mjög þröngri sýn á landi og þjóð, já fordómum. Í stuttu máli var Spánn í mínum huga sólarstrendur, letilíf og frekar óspennandi og ég hafði engan áhuga á að elta allan þann fjölda ferðamanna sem þangað fór í "hvítum" buxum í áraraðir. Þessar bráðum sex vikur sem við höfum dvalið hérna í Tarragona hafa gjörbreytt þessu viðhorfi. Hvílíkt land, fólk, menning og saga! Ég gæti skrifað langan pistil um þetta en ég ætla aðeins að segja nokkur orð um fólkið hér í Katalóníu. Það vekur fyrst athygli gestsins hvað hér er mikið af fallegu og myndarlegu fólki, sem samsvarar sér vel í líkamsburði. Maður nánast sér ekki fólk sem stríðir við vigtarvandamál. Það hlýtur að skrifast á mataræðið. Það vekur athygli hvað fólk er snyrtilega til fara og kurteist. Vandamál mitt er að ég skil ekki spænsku né katalónsku og það gerir samtöl erfiðari því flestir sem ég hef hitt skilja ekki mikið í ensku. Ég hef þó notið samvista við fræðimenn við háskólann hér í Tarragona sem tala ensku. Maður hefur meira að segja þurft að grípa til þýsku sem ég hef ekki reynt að tala í áratugi. Allt hefur þetta gengið einhvern veginn. Nú veit ég að sólarstrendur og sangrían er annar heimur í þessu landi, "business," sem er nánast aðskilinn hluti af daglegu lífi Katalóníumanna. Skreppi maður út í Salou, þar sem ferðamenn dveljast á sólarströndu er um aðra veröld að ræða. Þar er nú eins og að horfa yfir autt leiksvið. Enginn á ferli og hús og strendur bíða þess að nýtt ferðamannatímbabil hefjist. Spænski menningarheimurinn er viðfemur og hann býður upp á góða tilbreytingu frá hinum engilsaxneska, sem maður þekkir mun betur.

Engin ummæli: