laugardagur, 22. október 2016

.. og ég vissi ekki af því.

Ég á 11 ára afastrák, sem er að auki alnafni minn. Honum finnst gaman í tölvum og vill helst hvergi annars staðar vera. Nú nýlega spurði hann mig undrandi: Afi, hvernig stendur á því að þú ert með heimasíðu og ég vissi ekki af því? Það varð nú eiginlega fátt um svör. Ég er búinn að halda þessari síðu gangandi síðan 2004. Það byrjaði þannig að börnin mín sem öll hafa verið mikið í tölvunum byrjuðu að blogga og ég var forvitinn og langaði að prófa líka. Þau aðstoðuðu mig við að opna síðu og ég man þegar ég byrjaði á þessu var ég svo spéhræddur og feiminn að ég þorði varla fyrir mitt litla líf að skrifa á bloggsíðuna mína. Svo vandist þetta og næstu árin var ég nokkuð duglegur. Síðan kom facebook og bloggið mitt datt niður og ég var næstum því hættur að blogga. En skelti inn einu og einu þess í milli. Þau eru öll löngu hætt aða blogga og líklegast búin að loka sínum bloggsíðum. Ég held mínu áfram meðan ég get og nenni. Hvað gerir maður ekki fyrir barnabörnin. Ég velti því stundum fyrir mér hversu lengi þessi síða muni verða til. Hef kynnst því að vefsíður og myndasíður hafa horfið sporlaust á netinu.  Þetta pár er þá bara eins og að skrifa í sandinn. Næsta alda kemur og skolar þessu pári í burtu. Hinsvegar finnst mér gaman að pára stundum svona á bloggið. Það festir betur í minni og mótar afstöðu um menn og málefni með markvissari hætti. En til hvers er maður þá að þessu. Jú líklegast til þess að deila skoðun sinni og hafa áhrif á þig, helst til góðs.

Engin ummæli: