fimmtudagur, 20. janúar 2011

Sigurganga landsliðsins öðrum til eftirbreytni.

Guðjón Valur Sigurðsson. Enn á ný eru það handboltastrákarnir "okkar", sem rífa mann upp úr svartsýni og drunga hversdagleikans og lyfta huganum til nýrra hæða. Þegar öll sund virðast við það að lokast koma þeir til leiks og minna mann á að það er allt hægt. Baráttuvilji, hæfni og þrek þeirra er aðdáunarvert. Þrátt fyrir mikið mótlæti í kjölfar bankahrunsins undanfarin ár hefur okkur lagst ýmislegt jákvætt til. Almættið sendi okkur makrílinn inn í íslenska lögsögu. Handboltaliðið okkar hefur unnið frækilega sigra undanfarin ár. Meginþættir atvinnulífsins hafa staðist þær hremmingar sem dunið hafa yfir. Auðvitað hefur ýmislegt farið úrskeiðis, sérstaklega hjá þeim sem tefldu djarft og skuldsettu sig of mikið. Ýmsir hafa misst atvinnu sína og enn aðrir séð ástæðu til að leita til annarra landa í leit að vinnu og tækifærum. Æ oftar spyr ég sjálfan mig að því hvernig standi á því að skulum sitja uppi með þessa vesælu ríkisstjórn.Við hljótum að eiga annað og betra skilið. Stjórnin virðist taka vitlausar ákvarðanir í hverju málinu á fætur öðru eða snýst eins og skopparakringla í kringum sjálfa sig. Hvenær skyldum við fá ríkisstjórn sem hugsar vel um grunnstoðir samfélagsins, atvinnulífið og fólkið sem vill lifa hér og starfa? Ég ætla ekki að eyðileggja stemmninguna frekar en maður er farinn að bíða óþreyjufullur eftir "sigrum" á sviði stjórnmálanna. Áfram Ísland.

Engin ummæli: