laugardagur, 2. apríl 2011

Tvennir tónleikar

Salurinn. Þetta var fínn endir á vinnuvikunni í gær. Fyrst fórum við Sirrý í Salinn í Kópavogi og hlustuðum á frábæra listamenn flytja lögin hans Sigfúsar Halldórssonar í "swing" útgáfu. Þeir spiluðu og sungu nokkur helstu lögin hans fyrir fullum sal s.s. Dagny, Litlu fluguna, Í dag, Íslenskt ástarljóð og fleiri og fleiri. Þarna sungu Egill Ólafsson, Stefán Hilmarsson og Andrea Gylfadóttir. Í hljómsveitinni voru m.a. Vignir Þór Stefánsson á píanói, Jón Rafnsson á bassa, Björn Thoroddsen á gítar. Egill Ólafsson var kynnir á tónleikunum og var stundum full málglaður en það er fyrirgefið. Sigfús er mér kær og minning hans björt. Hann er einn af þessum samferðamönnum sem maður minnist ævinlega með þakklæti og gleði yfir að hafa fengið að kynnast persónulega. Hann var nágranni foreldra minna og mikill vinur fjölskyldunnar. Eftirminnilegast er þegar við höfðum með okkur skiptivinnuna. Ég málaði gluggakarmana á húsinu hans og fékk borgað með málverki í staðinn. Það voru ekki slæm býtti. Næst lá leiðin niður á Hverfisgötu 46 til þess að fara á tónleika "Lame Dudes" félaga á Hverfisbar.
The Lame Dudes með Kyle og félaga. Það er nú nokkuð síðan ég heyrði í þeim félögum síðast og óhætt að segja að þeir verði stöðugt betri. Svíðsframkoma öll fumlaus, söngur og spil með ágætum. Það bar til tíðinda á þessum tónleikum að tveir ungir Ameríkanar tóku nokkur lög með hljómsveitinni. Annar þeirra Kyle og Snorri sólógítarleikari The Lame Dudes eru frændur. Það var ekki að sjá að kynslóðabilið kæmi í veg fyrir að þeir sameinuðust í músíkinni. Það gefst tækifæri á næstu blúshátíð um páskana að heyra í þeim félögum og það verður enginn svikinn af þeirra tónlist ef viðkomandi á annað borð hefur gaman af blús og rokki. Flutningur þeirra eru bæði eigin lagasmíðar og annarra. Hér má heyra eitt af þeirra lögum: Hversdagsblámann.

Engin ummæli: