fimmtudagur, 28. apríl 2011

Írar heimsóttir á páskum.

Það eru 1700 krár í Dublin. Í nýju umhverfi leitar maður að kunnuglegum kennileitum. Sérstaklega ef maður er á höttunum eftir skyldleika, frændsemi og þvílíku. Eitt af því fyrsta sem ég rak augun í á leiðinni frá flugvellinum inn í Dublin voru löngu sérhljóðarnir "í, á, é" á vegvísum þar sem kennileiti voru rituð á gelísku. Nú þeir eru þá svona skyldir okkur hugsaði ég með mér. Eftir því sem leið á þessa páskaheimsókn varð ég þess fullviss að við værum mikið skyld Írum. Viðmót, fas og útlit var oft æði líkt því sem hér má finna. Þessi ferð til Dublinar nú um páskana reyndist langt umfram væntingar. Yndislegt páskaveðrið með allt að 20°C hita og sólskini var bónus sérstaklega í ljósi þess kalsa og vetrarríkis sem við komum úr að heiman. Dögunum var varið í heimsóknir á sögustaði borgarinnar, gönguferðir, búðarráp, kráarheimsóknir, strætóferðir auk þess sem við fórum dagpart út fyrir borgina í rútu með leiðsögumanni. Miklir efnahagsörðugleikar eru á Írlandi um þessar mundir í kjölfar banka- og fasteignabólu sem sprakk með háum hvelli í kjölfar stóra bankahrunsins. Írar glíma við gríðarlegan skuldabagga og mikið atvinnuleysi. Þeir eru að endurmeta stöðu efnahagsmála í kjölfar hrunsins og uppteknir að því að leita svara við því hverjum sé um að kenna. Ofurlaun bankamanna er umræðuefni sem þeim er hugleikið svo og því hvernig málin gátu farið svona úr böndum. Þetta eru nú dægurmál sem Íslendingur í fríi eyðir ekki miklum tíma í. Augljóslega eru þetta mál málanna í dægurumræðunni og hún fer ekkert framhjá þeim sem kíkir í blöðin eða horfir á sjónvarp. Nóg í bili. Kveðja.

Engin ummæli: