sunnudagur, 10. apríl 2011

Tónleikar Goðalandi í Fljótshlíð

Tenórar Í gær hélt Söngfélag Skaftfellinga tónleika ásamt Hring, kór eldri borgara í Rangárþingi. Tónleikarnir voru haldnir að Goðalandi í Fljótshlíð og var fjölmenni mætt til þess að hlusta á kórana m.a. hópur eldri borgara austan úr Skaftárhreppi. Jón G Kolbrúnardóttir, sópran, ung og ný söngkona söng með kórnum nokkur einsöngslög. Hér er efnileg söngkona á ferðinni sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Lagt var af stað austur kl. 10.00 og keyrt upp Landsveit. Leiðsögumenn voru Guðni Olgeirsson og Kolbrún Einarsdóttir en bæði eiga ættir að rekja í Rangárþing. Farið var í hellaskoðun að Hellum í Landsveit. Um er að ræða manngerðan helgan helli, sem upphaflega var byggður af írskum Pöpum. Þá var heimsótt Heklusetrið að Leirubakka. Á báðum þessum stöðum var lagið tekið. Næst var brunað að Goðalandi í Fljótshlið þar sem tónleikarnir voru haldnir. Góður rómur var gerður að söng kóranna og þeir klappaðir upp til að syngja nokkur aukalög. Eftir tónleikana var haldið í heimboð í sumarhús til Kolbrúnar Einarsdóttur kórformanns og eiginmanns hennar Gísla Sigurþórssonar í Ketlubyggð í landi Ketilhúshaga. Þar var borðaður kvöldverður og haldið áfram í söng og gleði. Lagt var af stað í bæinn um ellefuleytið. Góður og eftirminnilegur dagur var að baki í góðra vina hópi.

Engin ummæli: