sunnudagur, 10. desember 2006

Hagfræðingur fær friðarverðlaun Nobels.

Muhammad Yunus Það var ánægjulegt að fylgjast með afhendingu friðarverðlauna Nobels í Oslo í norska sjónvarpinu í dag. Muhammad Yunus hagfræðingur frá Bangladesh og stofnandi Grameen Bank fékk verðlaunin ásamt bankanum fyrir brautryðjanda starf í veitingu mikrólána til fátæklinga. Með mikrólánum hefur bankanum tekist að hjálpa milljónum manna í Bangladesh og þannig lagt nýjan grunn að leið eða tæki til þess að bæta hag fátæks fólks og hjálpa til við að brjóta upp þá fátækragildru sem meira en helmingur mannkyns búa við. Þetta starf Yunusar byrjaði á því að hann sjálfur hóf að veita fátæklingum lán og þannig hjálpa þeim til þess að komast úr viðjum okurlánara og byrja nýtt líf á skynsamlegum grunni. Það sýndi sig að jafnvel fátækustu öreigar vilja standa í skilum. Hugmyndin gengur út á það að lána fyrst og fremst konum því að þær nota féð frekar til uppbyggilegra fjárfestinga og til að bæta kjör fjölskyldunnar, en karlar eru meira fyrir það að eyða í sjálfa sig. Í stíliskri ræðu í anda Kennedy komst Yunus að þeirri niðurstöðu að það væri sterkt samband milli fátæktar og friðar í heiminum: "Að þremur fjórðu hlutum mætti ná friði á grundvelli félagslegra, pólitískra og efnahagslegra leiða. Friðinum væri ógnað af óréttlátum efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum aðstæðum, skorti á lýðræði, umhverfis eyðileggingu og skorti á mannréttindum. Meðal fátækra væru alls engin mannréttindi til staðar. Örvænting, illska og hugarástand sem væri vegna niðurlægjandi fátæktar getur ekki leitt til friðar í nokkru samfélagi. Vilji mannkynið lifa við varanlegan frið, verði það að leiða til lykta hvernig hægt er að gera fólki kleift að að lifa mannsæmandi lífi." Þessi umræða Yunusar minnti mig á samtal sem ég átti við tvo þekkta hagfræðinga fyrir mörgum ár um hvernig stæði á því að fiskveiðar okkar Íslendinga hefðu leitt til þess að við náðum gríðarlegum áföngum í efnahagslegri uppbyggingu, en ekki hafi náðist sambærilegur árangur í Peru. Ein kenningin var sú að það væri vegna þess að þegar "okkar menn" fengu sína aflahuti tóku eiginkonurnar þá í sínar hendur og notaðu þá til uppbyggingu heimila og fjölskyldna með skynsamlegum fjárfestingum. Í Perú aftur á móti færi allt of stór hluti í eyðslu sem leiddi ekki til efnahagslegrar uppbyggingar með sama hætti og hér á landi. Þar var aflahlutunum í ríkari mæli sólundað á barnum og í hið ljúfa líf. Það þætti ekkert tiltökumál að fiskimenn héldu t.d. uppi tveimur til þremur vinkonum. Þessvegna hafi hin efnahagslega uppbygging ekki gengið fyrir sig með sambærilegum og jafn glæsilegum hætti og hér varð raunin.

Engin ummæli: