fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Vísitasía biskups í Grafarkirkju.

Biskup í predikunarstól. Fór sem bílstjóri og fylgdarmaður sr. Hjartar og Unnar í Grafarkirkju í Skaftártungu til þess að taka þátt í Vísitasíumessu biskups Íslands í kirkjunni. Tilgangurinn var að hitta fyrrum sóknarbörn og kirkjustarfsmenn í sókn sr. Hjartar, en hann þjónaði í þessari kirkju frá 1990 til 1996. Hér má sjá biskup í predikunarstól Grafarkirkju og til hægri er altaristaflan. Það fer vel að hafa hana á myndinni því hann lagði m.a. út af henni. Biskup gat þess m.a. um hversu vel kirkjunni og kirkjugarðinum væri við haldið og velti upp ýmsum spurningum varðandi trúarlíf kristinna manna.

Biskup, prófastur, sóknarprestur og sóknarnefndin. Tók þessa mynd af embættismönnum kirkjunnar eftir messuna þar sem þeir stilltu sér upp fyrir ljósmyndara. Sóknarnefndarformanninum Halldóri í Ytri Ásum er sýnilega létt eftir góða athöfn í kirkjunni. Eftir messu var boðið upp á kirkjukaffi í félagsheimili Skaftártungumanna, Tunguseli. Það var gaman að hitta fólk í sókninni sem maður hafði ekki séð í mörg ár.






Sóknarnefndarformaðurinn og sr. Hjörtur. Hér stinga þeir saman nefjum félagarnir sr. Hjörtur og Halldór stórbóndi og sóknarnefndar-formaður. Það gékk erfiðlega að fá þá til þess að stilla sér upp fyrir hefðbundna myndatöku, þannig að þessi mynd verður að duga. Það er alltaf sami galsinn í þessum þjónum kirkjunnar þegar þeir hittast. Samband sem myndast milli manna sem unnið hafa mikið og vel saman. Þar að auki góðir grannar á árum áður.





Flaggað í fulla. Gaman að sjá að flaggstöngin góða sem þær systur Halla og Sigrún, dætur Valdimars í Hemru gáfu kirkjunni í minningu Jóns Einarssonar hreppstjóra, dannebrogmanns og afa þeirra kemur að góðum notum. Sól og mjög gott veður í Tungunni þennan dag. Veðrið á leiðinni var hinsvegar fremur leiðinlegt rok og rigning.








Foreldrarnir. Áður en haldið var til messu var komið við í Göggubústað sem er nálægt kirkjunni. Þar var helt upp á könnuna og snæddur hádegisverður áður en haldið var til messu. Allt var í stakasta lagi í bústaðnum.

Engin ummæli: