laugardagur, 18. ágúst 2007

Iðan heimsótt.

Iðan til vesturs.
Í gær var mér boðið af Helga vini mínum í Iðuna í laxveiði. Þau eru nú orðin mörg árin síðan Iðan gaf mér lax. Ég er löngu hættur að gera mér minnstu vonir um að fá fisk í þessu fljóti. Iðan er þar sem Stóra - Laxá og Hvítá renna saman í ármótum rétt austan við Skálholt. Maður fer þanngað til að breyta um umhverfi, horfa á náttúruna, berja vatnið, borða góðan mat og dvelja í góðra vina hópi. Við gistum í sumarhúsi góðs vinar rétt hjá Sólheimum í Grímsnesi í góðu yfirlæti. Fórum í heitan pott og tókum lagið og ræddum mannkynsögu kvöldið fyrir veiðidaginn. Nutum þess besta sem Ísland hefur að bjóða, vatnsins í heitapottinum, kyrrðarinnar á ágústnóttu, stjörnubjarts himins og góðs félagsskapar. Við vorum mættir að ánni kl. sjö um morguninn næsta dag. Það var hrollkallt og þurfti maður að vera vel dúðaður til þess að þola kuldann. Þegar leið á daginn hlýnaði og veðrið var hið allra besta. Hinsvegar er vatnsbúskapur árinnar í engu jafnvægi. Það er svo lítið bergvatnið úr Stóru - Laxá að það nánast hverfur við suður jaðar fljótsins. Iðan er nánast öll jökulhvít að sjá. Við sáum tvo laxa stökkva út á jökulárbreiðu fljótsins en ekki fengum við högg. Nú við héldum áfram til kvölds og að því loknu héldum við í bæinn. Við dunduðum okkur við að rifja upp aulabrandara. Sá aumasti var þessi: Hvað er það sem er brúnt og ferðast á tveggja metra dýpi á 200 km hraða? Nú auðvitað moldvarpa á mótorhjóli. Hvað annað. Kveðja.

Engin ummæli: