sunnudagur, 30. september 2007

Hauststemmning í laufsins litum.

Nærmynd. Hún er svo skáldleg fyrirsögnin að annað hvort er ég að stela henni óafvitandi nú eða maður er orðinn svona skáldlegur í hugsun. Við tókum þessar myndir í morgungöngu. Sirrý er "hönnuður" víðmyndarinnar sem á að sýna haustlitina og regndropana. Nú ég tók svo nærmyndina svo ekki færi á milli mála að dropar og litir myndu skila sér á myndinni.








Víðmynd. Afrek helgarinnar eru engin því miður.Fórum á grænmetismarkaðinn í Mosfellsdal í gær og keyptum þetta fína grænmeti. Þar gafst kostur á að bragða á grænmetissúpu og smakka á frönsku víni. Ég hringdi í Helga vin minn sem er nú í Frakklandi við vínsmökkun. Honum þótti ekki mikið til um þessa vínsmökkun mína í samanburði við Búrgúndí "smakkið" hans með Michelin bókina við hönd. Fingurbjörg í Mosfellsdalnum var alveg nóg fyrir mig. Hvernig væri nú að lögleiða bruggið í sveitum landsins og fá þetta vínsmökkunarfólk í heimsókn til okkar til að smakka afraksturinn. Einhver kann að fitja upp á nefið, en er það ekki í raun svo þegar kafað er ofaní tilganginn með þessari vínsmökkun að þá er það alkohólið sem fólk er að sækjast eftir? Það má örugglega finna einhvern fínt yfirskin með bruggsmökkun í sveitum landsins.

Engin ummæli: