laugardagur, 8. september 2007

Smekklaus auglýsing.

Hún hefur verið fyrirferðamikil umræðan um auglýsingu Símans á þriðju kynslóð farsíma. Eins og alltaf skiptist fólk í tvo hópa, þá sem finnst þetta í lagi og þá sem telja þetta ekki í lagi. Í stuttu máli finnst mér þessi auglýsing skrumskæling og vanvirða á heilagri athöfn, sakramenti Krists sjálfs. Athöfn sem Leonardo da Vinci lýsti svo eftirminnilega í frægu málverki, mynd sem í aldir hefur verið ein þekktasta helgimynd kristindómsins. Auðvitað er auglýsingin meiðandi skrumskæling á helgum atburði. Hvað gengur Símanum til að ryðjast inn á þetta svið í þeim eina tilgangi að auglýsa símtæki? Getur það verið að þeir sem fara með markaðsmál Símans telji þetta enn við hæfi í ljósi umræðunnar? Auglýsingin muni leiða til mikillar sölu á þessum símum? Ég á erfitt með að trúa því. Líklegra er að þeir sem fara með markaðsmál fyrirtækisins hafi verið sofandi á verðinum þegar hugmyndin var kynnt og því hafi farið sem fór. Nú er aðeins spurningin hvað Síminn þarf langan tíma til þess að átta sig á þessum mistökum í gerð auglýsingar. Hversu lengi þeir telji sig þurfa að kosta birtingu hennar áfram til þess að geta gengið uppréttir frá þessu máli. Ég hef vissa samúð með hugmyndasmið auglýsingarinnar. Við lestur pistla hans m.a. í Fréttablaðinu hefur ekki farið á milli mála að þar fer leitandi maður. Hann hlýtur að sjá mistök sín, þótt málið sé ekki lengur í höndum hans. Skilin milli fyndni og smekkleysu hefur honum að mínu mati yfirsést að þessu sinni.

Engin ummæli: