miðvikudagur, 28. febrúar 2007

Veröldin er græn og út í rautt.

Umhverfismál eru í brennidepli í hinum ríku löndum Vesturálfu. Ég sá Al Gore við afhendinguna á Óskarsverðlaununum í Holliwood í gær. Hann sagði eitthvað í þá veru að umhverfismálin væru þverpólitískt mál. Nú væri bara að einhenda sér í að laga það sem úrskeiðis hefði farið í umhverfismálum og vinna á menguninni. Þetta leit allt vel út í Holliwood umgjörðinni. Hann fékk þrjátíu sekúndur eða þar um bil til að halda "pepp" tal. Svo hélt "showið" áfram með glitter og glimmer. Holliwood hafði sagt sitt í málinu og við pöbullinn höfum fengið línuna. Umhverfisunræðan er fyrirferðamikil hér á landi þessa dagana. Það er í tísku að vera meðvitaður í þessum málaflokki. Meira að segja heiðblái fálkinn er sýndur með grænni slikju. Það skýtur þó skökku við að eina gegnum græna aflið í stjórnmálum, Framsóknarflokkurinn, berst í bökkum þessa dagana. Það er eins og þeir séu ekki með réttan grænan lit. Þeir fá að á sig flestallt sem skammast er yfir í umhverfismálum. Gömlu kommunum í vinstri grænum virðist ganga miklu betur í umræðunni, ef marka má skoðanakannanir. Það virðist vera vænlegra að hafa svolítið út í rautt í þessari umræðu. Málflutningur þeirra gengur út á það að vera góðir og trúverðugir en "hinir" séu skúrkar. Ég held að þegar á hólminn er komið þurfi nú eitthvað haldbærara í málflutninginn. Nú úr einu í annað. Ég er ekki frá því að tyggjóslummunum niður í 101 hafi fækkað undanfarið í kjölfar þeirrar vitnundar sem orðið hefur í umhverfismálum, svo tekið sé lítið og nærtækt dæmi. Enda gengur það ekki að skilja eftir sig hvíta slummu á gangstéttini og fara svo inn á kaffihús og ræða umhvefismálin. Við vorum niður í 101 á föstudagskvöldið og skemmtum okkur á safnadögum. Fórum á nokkur söfn og hlustuðum á fyrirlestur um nornir. Þetta var góð afþreying og skemmtileg og hittum þó nokkuð af fólki. Jæja, best að fara slá botninn í þetta. Ég ætlaði nú að tengja þessa umhvefisumræðu vandræðum okkar Kópavogsbúa í vatnsmálum. Það er vonandi að ráðamennirnir á höfðubólinu norðan lækjar fari að láta okkur hafa framkvæmdaleyfið svo að okkar vatn fari nú að skila sér í pípurnar. Það hlýtur að vera hægt að laga það jarðrask sem orðið hefur þannig að vel sé, ef ég þekki minn mann. Mætti bara ekki leggja göngustíg þarna? Við hér í Brekkutúninu fórum um þar síðustu helgi að skoða vegsummerkin, en því miður fundum við ekki skurðinn. En eftir að sjónvarpið leigði þyrlu sem flaug yfir skurðinum endirlöngum þarf maður ekki að gera sér ferð þarna uppeftir. Hugsa sér svo er maður skyldaður til að borga fyrir svona bruðl á fjármunum. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

Engin ummæli: