sunnudagur, 11. febrúar 2007

1001 dagur.

Eftir þúsund og einn dag sagði teljarinn á þessari heimasíðu að 20 þúsund sinnum hefði þessi síða verið heimsótt. Tuttugu heimsóknir á dag að meðaltali. Á síðustu mánuðum hefur orðið sprenging í bloggi á Íslandi. Bloggurum hefur fjölgað mikið og verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessi bylgja þróast. Mjög margir þeirra sem blogga á blog.is eru að blogga um dægurmálin almennt og eru margir eins konar "kolomistar" fyrr Mbl. Blogg vafstur mitt byrjaði sem fikt til að nálgast yngri kynslóðina sem var á kafi í blogginu. Markhópurinn var eigin börn, tengdabörn, foreldrar, systkini, frændur, frænkur og vinir. Hinsvegar hefur ekkert verið gert til þess að vekja athygli markhópsins á síðunni. Þetta hefur svona síast út hægt og rólega. Miðað við þá sem helga sig hinum "stóru" málum líðandi stundar fær maður stundum á tilfinninguna að boðskapur annálsins sé heldur léttvægur og sjálfhverfur. Um það læt ég annars lesendur um að meta og dæma. Í upphafi námsferlis síns í framhaldsskóla einum voru nemendur beðnir um að lýsa sér með því að teikna sig. Það var afar misjafnt hvernig þeir gerðu það. Allt frá því að teikna sig sem naktar fígúrur á útopnu í það að vera í kyrrstöðu og í öllum sínum fötum. Þannig eru blogg síðurnar. Sumir eru á útopnu og leitandi, aðrir skrifa af meiri varfærni, fjöldinn allur er fræðandi, enn aðrir eru með sína patent lausnir á vandamálum líðandi stundar og jafnvel út fyrir það. Einstaka skammast út í allt og alla og aðrir reyna að gera gott úr. Blogg "flóran" er með ólíkindum. Maður hefur hrifst með þessari bylgju og haft gaman af því eignast bloggvini og fengið kveðjur frá fjarlægum ströndum. Á þessari síðu verður áfram leitast við að sýna mannúð og mildi í skoðunum, jafnvel þótt dyggir lesendur kvarti stundum undan því að efnisval sé ekki nógu krassandi. Áfram verður ritstjórnarstefnan með svipuðu sniði og undanfarin ár. Á meðan ritstjórinn hefur gaman af þessu pári. Dyggum lesendum er þökkuð samfylgdin og boðið að tjá sig í "commentakerfinu" svo framarlega sem það er gert af kurteisi og hófsemd. Kveðja.

Engin ummæli: