miðvikudagur, 21. febrúar 2007

Vopnafjörður heimsóttur.

Loðnan flokkuð.
Í gærdag fór ég í örstutta heimsókn til Vopnafjarðar. Lagt var af stað frá Reykjavíkurflugvelli kl. 9.00 ásamt hópi gesta á vegum HB Granda hf. Flogið var með FÍ vél austur. Ný frystigeymsla HB Granda hf. var skoðuð svo og loðnuhrognavinnsla fyrirtækisins. Flogið var aftur suður kl.14.00 og lent í Reykjavík kl. 15.00. Þetta var í alla staði ánægjuleg og skemmtileg ferð. Þetta er snotur lítill bær og býður af sér góðan þokka. Íbúafjöldinn í sveitarfélaginu er um 700 manns. Sveitarstjóri er minn gamli vinnufélagi úr fjármálaráðuneytinu, fjárlaga- og hagsýslustofnun Þorsteinn Steinsson. Annar góður fyrrum vinnufélagi Vilhjálmur Vilhjálmsson hefur komið mikið að þessu uppbyggingar verkefni. Hafnaraðstaðan er orðin mjög góð þarna. Þessi uppbygging HB Granda hf. er mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið og á eftir að efla stöðu þess í framtíðinni. Það er óhætt að taka undir það að forráðamenn HB Granda hf. hafa sýnt mikla framsýni og þor í uppbygginu aðstöðunnar sérstaklega í ljósi þeirrar óvissu sem var um það hvort að yfir höfuð yrði loðnuveiði á þessari vertíð.
Loðnuhrogn.
Ég hef ekki komið til Vopnafjarðar í sautján ár. Ég kom þarna á hverju sumri í fjögur ár í tengslum við veiðiferðir í Vesturárdal í Vopnafirði, sem voru miklar ævintýraferðir á sínum tíma. Staðurinn einstaklega fallegur að sumarlagi og Vesturárdalur unaðsreitur, þótt áin jafnist væntanlega ekki á við hinar þekktari árnar þarna, Selá og Hofsá. Maður tóktvo daga í það að keyra austur var þarna við veiðar í fjóra daga og svo aftur tvo daga í bæinn. Það munar miklu að geta skotist þetta fljúgandi. Flugið var í alla staði hið þægilegasta þótt töluverður vindstyrkur væri.

Engin ummæli: