mánudagur, 19. mars 2007

Tónleikar og árshátíð.

Þegar dyggir lesendur eru farnir að ýta við manni vegna pistlaleysis á þessari síðu þá verður maður nú að reyna að taka sér tak og pára eitthvað til þess að seðja fréttahungrið. Við höfum nú öll verið upptekin í vinnu undanfarna daga og haft í mörgu að snúast. Af áhugamálum er það helst að frétta að í gær héldu Skaftarnir tónleika í Breiðholtskirkju. Við sungum við messuna og svo vorum við með stutta tónleika í kaffinu. Skrítið að kyrja undir þegar fólkið gékk til altaris. Kórinn kyrjar aftur og aftur sama ljóðið í síbylju. Með okkur söng kirkjukórinn á Höfn í Hornafirði, en þessi messa var helguð Skaftfellingum. Á laugardagskvöldið vorum við á árshátíð HÍ uppí Gullinhömrum í Grafarholti. Flott hátíð með úrvalsmat og hin besta skemmtan. Undir dansi lék hljómsveit sem ég þekki engin deili á nema að með henni söng Ragnar Bjarnason. Hann kann ekki neina texta, en alltaf gaman að heyra röddina hans. Nú í dag var maður í leikfimi og fékk að heyra af "pepp" fundi sem AGGF félagar héldu með sálfræðingi á fimmtudagskvöldið. Ég mætti nú ekki. En mér skilst að skilaboð hans hafi verið þau að maður ætti að setja sér markmið um flest það er lýtur að lífshlaupinu. Hér voru í gærkvöldi finnsk hjón en frúin er að kenna við HÍ. Áttum hér ánægjulega kvöldstund. Mikið spurt og spjallað um íslenskar og finnskar hefðir og venjur. Hér komu í gærkvöldi Stella og Valdimar. Kveðja.

Engin ummæli: