fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Fram fram fylking.

Var á ráðstefnu í gær. Þar voru ýmsir uppar að pæla í framtíðinni. Ísland árið 2015 var yfirskrift fundarins. Fullyrt var að þeir sem setja enga stefnu kæmust ekki spönn frá rassi. Forsætisráðherrann var nokkuð klár á kúrsinum. Hann sér okkur í Evrópusambandinu árið 2015. Aðrir ræðumenn töluðu í klassískum frösum svona blámóðu framboðsstíl, ala "presedenten" í nýjársræðum: aukin menntun, þjónusta, alþjóðvæðing, alþjóðleg fjármálamiðstöð, skattaparadís, minnkun ríkisbáknsins. Framganga ræðumanna og panels einkenndist af öryggi í fasi og framsögn. Við þessir venjulegu þúfulallar sem rákumst þarna inn heyrðum ekki minnst á fisksporða eða lambaspörð. Við gengum með veggjum og furðuðum okkur á hvar þetta fólk hefði öðlast alla þessa visku, þetta öryggi og alla þessa löngu og miklu sýn. Ekki var nú hátt gengi að valda þeim áhyggjum, raunar þvert á móti. Þessar vangaveltur minna mig á þegar menn í "den" í gamla Sóvet voru að gera 5 ára áætlanir sínar, Gosplan, minnir mig að þær hafi verið kallaðar. Þá hlógu allir á vesturlöndum og sögðu að þetta væri nú meiri dellan að búa til áætlanir til svo langs tíma. Þar var meira segja lýst í þaula hvernig ætti að ná þessum áætlunum. Nú drafta menn 9 ára stefnu á svona ráðstefnu og lýsa í almennum orðum hvernig eigi að ná þeim og allir mæna í aðdáun og undrun yfir framsýninni. Tímarnir breytast og mennirnir með. Talandi um sovésku áætlunina minnist ég sögu þar sem lagt var á ráðin í einni áætluninni um að vegna skorts á pottum og pönnum ætti að vera búið að framleiða 17 000 tonn af slíkum tólum innan ákveðins tíma til þess að fullnægja miklum skorti heimilanna. Þegar farið var að kanna hvernig hafði gengið að fylgja áætluninni kom í ljós að enn var mikill skortur á pottum og pönnum á heimilum landsmanna. Hvernig mátti þetta vera, höfðu ekki verið framleidd umrædd tonn af pottum og pönnum eins og áætlunin gerði ráð fyrir? Jú jú, það hafði verið gert. En þegar framleiðendur sáu að þeir gátu aldrei framleitt þetta magn í tonnum af litlum pottum og pönnum til heimilanna framleiddu þeir bara í staðinn stóra potta og pönnur fyrir mötuneyti og hótel. Svona gátu nú áætlanirnar afvegaleitt menn í "sæluríkinu". En þetta á auðvitað ekkert skilt við svona ráðstefnu um stefnumótun til framtíðar eins og haldin var í gær.

Engin ummæli: