föstudagur, 3. mars 2006

Á glerhálu svelli.

Ég fór í leikfimi í dag eins og ég reyni ávallt að gera á föstudögum. Í dag sagði fimleikastjórinn okkur frá rannsókn á afreksmönnum í íþróttum varðandi muninn á þeim sem væru í fyrsta sæti og öðru sæti. Hann felst ekki í náttúrulegum yfirburðar styrkleika sigurveranna heldur hugarfarinu. Þeir eru með markmið sín á hreinu og stunda æfingar af kostgæfni og eru sjálfsöruggir fram í fingurgóma. Þeir sem eru númer tvö eru aftur á móti ekki með jafn skýr markmið, mæta verr á æfingar og vantar sjálfstraust samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. "Þú hoppar ekki hærra en hugurinn leyfir." Þannig summeraði einn félaginn umrædda niðurstöðu. Það er mjög í tísku um þessar mundir að vitna í svona klisjur til þessa að drífa fólk áfram og hjálpa því að missa ekki móðinn í lífsgæðakapphlaupinu. Það er svo sem gott og blessað eins langt og það nær. Ég held hinsvegar að það sé enn mikilvægara að finna gott sálarjafnvægi þannig að maður skaði sig ekki á glerhálu svelli hins daglega lífs. Ég þekki enga svona afreksmenn sem aldrei efast eitt augnablik á vegferð sinni. Hef lesið um Supermann en aldrei hitt hann. Það er alltaf verið að telja fólki trú um að allir eigi og geti "meikað" það. Ég þekki einungis fólk sem er að berjast við sjálft sig og sinn breiskleika hvern einasta dag. Þetta er auðvitað ekki réttur hugsunarháttur í samfélagi sigurvegaranna, þar sem "the winner takes it all." Nú segir einhver að ég sé að opinbera svona "tapara" hugsunarhátt. Við höfum gott af því Íslendingar minnast þess að við höfum oft orðið undir á mörgum sviðum. Sagan kennir okkur að oft höfum við verið í botni á flestum sviðum mannlífsins. Talandi um íþróttir. Hver man ekki 14 - 2 hérna um árið gegn Dönum. Í mótlætinu verða menn oft sterkastir og þeir herðast í lífsbaráttunni, þroskast og eflast í jákvæðri merkingu þessara orða. Sá sem aldrei hefur orðið undir eða misstigið sig kann ekki að njóta sigurstundarinnar, segir einhvers staðar. Sérhver verður að takast á við sjálfan sig og gera eins vel og honum er unnt í ófullkomleika sínum. Jæja ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili góða helgi.

Engin ummæli: