mánudagur, 20. mars 2006

Söngfélagið og Varðhundurinn Sunna.


Var að koma af söngæfingu. Kórfélagar voru ánægðir með messuna í gær. Við byrjuðum að æfa nokkur ný lög inn í prógrammið okkar. Næst verður farið 1. apríl í Sólheima og þar verður verið í æfingabúðum einn dag. Síðan verður sungið við messu á sunnudeginum. Hjörtur og Ingibjörg eru búin að fá sér bíl í Svíþjóð, annan Passat. Hann ku víst vera mjög flottur. Björn er í Afríku en Sunna gistir hjá okkur. Við vöknum fyrir allar aldir á morgnana til þess að fara með hana í göngutúr. Hún er afskaplega vitur hundur blessunin. Tilvera hennar gengur þó mest út á það að verða sér úti um aukabita. Hennar eini ókostur er að ef einhver nálgast húsið sem hún þekkir ekki lætur hún ófriðlega og geltir ógurlega og gefur frá sér grimmdarhljóð. Stundum ríkur hún upp ef hún heyrir í einhverjum á göngustígnum fyrir neðan húsið. Mörgum bregður við þetta enda er hún alin upp sem varðhundur í svörtustu Afríku. Það dugir nú engin hálfvelgja við gæslustörfin þar og það veit Sunna. Hún er ekkert að breyta um taktík þótt hún búi nú hér uppi í norðrinu. Annars er hún mjög meðfærileg blessunin og vel upp alin. Hér komu í heimsókn í gær Hilda og Vala Birna, Halla og Örn.

Engin ummæli: