miðvikudagur, 15. mars 2006

Vortónleikar Fóstbræðra.

Okkur var boðið á tónleika Karlakórsins Fóstbræðra í Langholtskirkju í gærkvöldi. Kórinn var stofnaður 1916 og er því 90 ára í ár. Þetta voru frábærir tónleikar þar sem fram komu bæði yngri og eldri Fóstbræður. Yngri kórinn taldi 68 félaga og sá eldri um 20 félaga þannig að þegar best lét voru um 90 kórfélagar að syngja, góður tónn það. Stjórnandi var Árni Harðarson. Lagavalið var fjölbreytt, bæði þekkt og óþekkt karlakórslög. Lög eftir Sigvalda Kaldalóns, Árna Thorteinsson og Alþingisrapp Atla Heimis Sveinssonar var skemmtilegt. Tveir félagar sungu einsöng í amerískum slögurum. Pabbi er í eldri Fóstbræðrum núna en hann er búinn að vera 50 ár í Fóstbræðrum og hefur fengið gullmerki kórsins. Maður hefur fylgst með þessum kór frá því maður mann eftir sér. Margir eru þeir söngfélagar pabba sem maður man eftir og kynntist: Jón Pálsson, Jói Gúmm., Árni Jóhanns., Óskar Ágústss., Garðar Jökuls., Þorleifur Páls., Magnús Guðmundsson og fl. og fl. Ég fékk vinnu hjá Árna við brúarsmíði á Kópavogshálsi og Óskari við múrhandlang í sumarvinnu þegar ég var strákur. Nú síðan bauð pabbi mér á hin frægu þorrablót Fóstbræðra í mörg ár þegar maður hafði aldur til. Maður sótti tískusýningar Fóstbræðrakvenna hér áður fyrr og fylgdist náttúrulega af athygli með söngferðum og söngsigrum kórsins. Hver mann ekki eftir Cardiff förinni og öllum hinum söngferðunum í austur og vesturveg. Aðrar fréttir eru þær að hingað komu Valdimar og Stella í gærkvöldi. Hjörtur Friðrik hringdi frá Svíþjóð. Sigrún er á grímuballi í Kvennó. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

Engin ummæli: