fimmtudagur, 16. mars 2006

Tíðindi af Suðurnesjum.


Þá er stundin runnin upp. Herinn á Miðnesheiði er að kveðja okkur eftir sex áratuga viðveru. Maður hefur nú alltaf verið stuðningsmaður þess að hér væri her og við værum í Nato. Heimsmyndin breyttist með hruni Sovétríkjanna og kommúnismans í Austur - Evrópu. Það var engin ógn þaðan lengur og það var við því að búast að herinn færi. Þessi herstöð er búin að kosta bandaríska skattgreiðendur gríðarlega fjármuni. Þeir hljóta líka að þurfa að nota þessi hernaðartæki þar sem meiri þörf er á þeim. Það verður nú mest eftirsjáin af þyrlusveitinni. Hún veitti mikilvæga og þakkarverða þjónustu. Þau eru mörg afrekin sem þyrlusveitin á að baki við erfiðar aðstæður og vandséð hvernig það skarð verður fyllt í næstu framtíð. Eftirminnileg er fyrsta heimsókn mín á Keflavíkurflugvöll á sjöunda áratugnum. Ég var í hópi 25 söluhæstu þeirra barna er seldu Vikuna og verðlaunin voru þessi heimsókn. Þetta var mjög eftirminnileg ferð. Við fengum að prófa að setjast í sæti flugmanns í orustuþotu, heimsóttum sjónvarpsstöðina, keiluspilasal og fengum að borða svakalega góðan mat í einhverju mötuneyti. Maður hefur verið svona tíu til 11 ára gamall. Manni þótti það svo skrítið að hermaðurinn sem fylgdi okkur um stöðina talaði reiprennandi íslensku. Síðar átti maður eftir að koma þarna nokkrum sinnum aftur en of langt mál að segja frá því. Hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja.

Engin ummæli: