miðvikudagur, 29. mars 2006

Brynjólfsmessa Gunnars Þórðarsonar


Grafarvogskirkja.

Við Sirrý og Sigrún fórum í Grafarvogskirkju í kvöld til þess að hlýða á flutning Brynjólfsmessu eftir Gunnar Þórðarson tónskáld. Eins og segir í efnisskrá tónleikanna er messan samin við hefðbundinn latneskan messutexta að viðbættum kaflanum Virgo Díva. Messukaflarnir eru: Kyrie (Miskunarbæn), Gloria (Dýrðarsöngur), Credo (Trúarjátning), Sanctus (Heilagur), Angus Dei (Lamb Guðs) og Virgo Diva (Mærin guðleg) sem er ákall til Maríu guðsmóður frá Brynjólfi Sveinssyni biskup í Skálholti . Einsöngvarar voru Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór og Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran ásamt kirkju- og barnakórum. Hljómsveit Jón Leifs Camerata lék undir. Stjórnandi var Hákon Leifsson. Kórstjórar voru Hilmar Örn Agnarsson og Hörður Bragason. Flutningur þessa verks er merk samtímasaga í ljósi þess að hér er á ferð tónskáld sem skipar sér á fremsta bekk meðal íslenskra tónsetjara - tónskáld alþýðunnar í fjörtíu ár. Maður er að sjálfsögðu þakklátur fyrir að fá að fylgja tónskáldinu í þessa helgiför gæddum í senn ljúfum og tilfinningaríkum tónum. Það er minningin sem maður vill geyma um heiðarlegan dýrðarsöng; "Allt sem til er syngi Guðinum eina Halelujah." Hefði eitthvað mátt betur fara er það helst að undirspilið var kraftlaust. Það var svona eins og að heyra flutning á verki í hljómlitlu útvarpstæki. Einsöngurinn, kórsöngurinn og barnakórarnir komu ágætlega út. Ég hef heyrt flutning á þessum messusöng í gregorískum búningi í flutningi stúlknakóra undir stjórn Margrétar Pálmadóttur (sjá blogg mitt 4. júní 2004). Það var ógleymanlegur og hátíðlegur flutningur sveipaður mikilli helgi. Þessi flutningur var öðruvísi og ákveðin endurnýjun og uppgötvun sem fólst í honum. Hef þessa hugleiðingu ekki lengri. Kveðja.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir ahugaverdar upplysingar