fimmtudagur, 30. mars 2006

Lupus Loricatus.


Brynjólfur Sveinsson biskup (1605 - 1675) í Skálholti hefur verið ofarlega í huga mér í dag. Væntanlega eru það hughrif frá gærdeginum þegar við hlýddum á Brynjólfsmessu í Grafarvogskirkju. Á sérstökum fræðsluvef (http://www.kirkjan.is/brynjolfur/) má finna ýmsan fróðleik um þennan merka biskup, sem óþarfi er að tíunda hér sérstaklega. Nafn hans á latínu sem hefur verið okkur svo tamt allt frá því í menntaskóla er Lupus Loricatus. Mig minnir að það hafi verið okkar ástsæli kennari Magnús "góði" Guðmundsson sem hafi upplýst okkur um það. Lupus Loricatus eða "brynjaður úlfur". Lupus þýðir úlfur og Loricatus er brynja á latínu. Í lokaorðum Ad Beatam Virginem (Maríukvæðinu), sem notað er í Brynjólfsmessunni segir í þýðingu Sigurðar Péturssonar: "Lifðu heil nú sem fyrr, mærin náðarfulla! Skær fyrir tilstilli sonarins, sólarinnar sem stafar birtu. Rís þú milda stjarna og kom þurfandi mönnum til hjálpar (124-126)! Auk heitum þínum heiðvirðum við raddir sjómanna þegar þú sérð að það er í þágu þjóðar sem velkist og erfiðar í ólgandi hafinu (127-129)! Reyn þú að varna þess með umhyggjusamri bón að mér verði leyft að farast hér og sjá til þess að ég megi þrauka, örmagna af striti og þróttlaus af ógleði, innst í forgarði húss hvíldarinnar (130-132). Halt þú ætíð áfram að vera á verði, þú perla himnabúa, með því að biðja ljúfan son þinn þess að hann gefi skipreka þjónum sínum að bjargast á sundi úr hyldýpi dauðans (133-135). Lof sé Guði föður, syni föðurins og meyjarinnar og anda föður og sonar. Allt sem til er syngi Guðinum eina halelújah (136-138)."

Engin ummæli: