sunnudagur, 12. mars 2006

Skattframtal og kratar.

Skattframtalið.
Dagurinn í dag var skattaskýrsludagur hjá okkur. Týndi saman pappírana og kláraði skattframtal okkar á netinu. Það getur ekki verið þægilegra, en það er samt eitthvað sem gerir að maður verður að taka sér tak áður en maður getur byrjað á þessu árlega verki. Annað svipað verkefni sem maður tekur með löngu tilhlaupi er að fara með bílinn í skoðun. Það er nú að mínu mati eitthvað sem gera á á verkstæðum landsins. Það fer vel á því að fjalla um jafnaðarmenn eftir að búið er að kvitta undir skattframtalið.
Alþýðuflokksmenn.
Það er helst í fréttum að kratar fagna 90 ára stofnun Alþýðuflokksins. Mbl. segir frá hátíðardagskrá á vefsíðu sinni í tilefni að því að Alþýðuflokkurinn og Alþýðusamband Íslands voru stofnuð í Bárubúð í Vonarstræti þann 12. mars árið 1916 og hófst stofnfundurinn kl. 15.30, á sama tíma og afmælishátíðin hófst í dag. Ráðhúsið stendur nú þeim stað sem Bárubúð áður stóð. Það er í raun sorglegt hvernig fór fyrir Alþýðuflokknum. Burtséð frá pólitískum skoðunum er íslensk stjórnmálaumræða flatari en áður. Ég set ekki samasemmerki milli Alþýðuflokksins og Samfylkingarinnar. Það verður að skrifast á þá sem voru í forystu fyrir A-flokknum hvernig fór. Þeir náðu ekki að afhenda kyndilinn í tíma og treysta þannig viðgang flokksins. Ég hef verið að lesa greinar eftir dr. Gylfa Þ Gíslason fyrrum formann Alþýðuflokksins. Það hefur verið uppbyggileg lesning og ég hef fengið nýja sýn á þennan mikilhæfa stjórnmálamann. Það er eftirtektarvert hvernig hann fjallar um menn og málefni af yfirvegun, jákvæðni og velvild. Fékk sjálfur einu sinni svona "velvildarvink" frá honum þótt ekki værum við sammála um auðlindagjaldið. Hann á sér ekki marga jafningja meðal stjórnmálamanna á síðari hluta 20. aldarinnar. Maðurinn var afburðamaður á mörgum sviðum: hagfræðingur, tónskáld, stjórnmálamaður og kennari. Lífsviðhorf Gylfa grundvölluðust á kristinni trú og siðfræði sem hann samóf af víðsýni við pólitísk gildi jafnaðarstefnunnar. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að hann var einn af lærisveinum sr. Friðriks Friðrikssonar æskulýðsleiðtoga. Ég tel að Gylfi skipi sér á bekk meðal fremstu stjórnmálaleiðtoga Norðurlanda á 20. öld. Læt þessar hugleiðingar duga í bili. Kveðja.

Engin ummæli: