föstudagur, 4. apríl 2008

Gengið um opnar dyr.

Í dag tók ég áskorun í Mbl um að ganga inn um opnar dyr að undrum tónlistarinnar. Ég rakst á grein í lestri blaðsins við morgunverðarborðið um að Robert nokkur Levin kennari við Harvard háskóla mundi halda fyrirlestur í Sölvhól, tónleikasal LHÍ. Í greininni sagði m.a. að ef eitthvað væri að marka orðið sem fer af Robert Levin væri alls ekki ósennilegt að einhverjir áheyrendur yrðu aldrei samir aftur. Þetta stóðst ég ekki og var mættur í hádegisfyrirlesturinn. Þetta var afar fróðlegt og vel flutt erindi um klassíska tónlist, túlkun hennar og flutning í dag. Hann fjallaði um hvernig Beethoven breytti tónlistarhefðum á 19.öldinni með því að túlka sinn innri mann og leyfa okkur að njóta hans með sér. Hann ræddi hvað það væri mikilvægt að tónlistin eins og myndlistin byggðist á skilningi og þekkingu verksins. Flytjandi sem túlkaði verkið einungis eins og nóturnar segðu til um væri ekki túlkandi heldur eins og góður verkmaður. Ein feilnóta og töfrarnir væru horfnir úr flutningi slíkra manna. Hann sagði að Mendelsohn hefði sagt að tónlistin snérist um nákvæmni og aftur nákvæmni. Enda hefði hann verið vísindamaður og frábær vatnslitamyndamálari. Ein vitlaus stroka við slíka málun þýddi að myndin væri ónýt. Sama ætti við feilnótur í flutningi verks. Hann fjallaði töluvert um Bach sem bjó til tónlist fyrir almættið til þess að leyfa mannsandanum að kynnast því. Enda stundum talinn 13 postulinn. Hann var með þann samanburð að tónlistin gæti breytt lífi okkar varanlega eins og trúarbrögðin. Það mætti ekki misnota þennan kraft tónlistarinnar, sérstaklega klassískrar tónlistar. Tónlistin væri tungumál sem allir skyldu sbr. verk Hydns um sjö síðustu orð Krists á krossinum. Hann talaði um að tónlistin væri til að draga fram hughrif hins góða og fagra í mannskepnunni - muninn á réttu og röngu. Hver mínúta í lífinu skipti máli í því að þroska og efla mannsandann. Maður ætti að njóta stundarinnar og leggja áherslu á gæðin eins og í öllu. Leiðin til þess að hrífa áheyrandann með væri að vekja forvitni hans, draga hann inn á sporið og kynna honum í framhaldinu heim tónlistarinnar. Hann gaf iðnaðarpopptónlist að vísu ekki háa einkunn. Hún væri til þess fallinn að slæva mannsheilann. Læt þetta duga að sinni - þetta er einn besti fyrirlestur sem ég hef sótt og snerti við manni. Í kvöld fórum við svo í Háskólabíó til þess að fræðast meira og heyra hann flytja píanókonsert nr.3 í c-moll op. 37 (1800 - 03). Wow hvílíkur snillingur í flutningi og sinfóníuhljómsveitin líka. Tónleikana endaði hann svo á spuna um stef sem áheyrendur lögðu til. Meðal stefa sem lögð voru fram var lag Inga T. Lárussonar, Ó blessuð vertu sumarsól. Þannig getur lestur á greinastúf leitt mann inn á lærdómsbraut sem gefur manni meira en orð fá lýst. Takk fyrir þetta. Læt þetta duga í bili. Kveðja.

Engin ummæli: