laugardagur, 10. maí 2008

Á hvítasunnunni.

Poseidon í Gautaborg
Hinn heilagi andi kom yfir lærisveinana á hvítasunnunni og gaf þeim styrk til að hefja boðun fagnaðarerindisins. Maður hefur svona verið að bíða eftir því að andinn kæmi yfir mann líka. Allavega andagift til þess að geta skrifað eitthvað á þessa síðu sem nú fagnar fjögurra ára afmæli. Tékkneska tónskáldið Betrich Smetana hefur verið mér hugleikið undanfarna daga eftir að ég eignaðist disk með laginu Moldá í verkinu Föðurland mitt. Við Smetana eigum einn sameiginlegan snertiflöt. Báðir höfum átt heima í Gautaborg í Svíþjóð um tíma að vísu með 120 ára millibili. Hann við Gautakanal en ég á Krokslätt aðeins austar í borginni. Ég minnist þess að hafa heyrt það nefnt að lagið Moldá hefði hann samið í Gautaborg horfandi á kanalinn með heimþrá. Hvergi hef ég þó fengið það staðfest. Dvöl hans í Gautaborg skipti hann miklu máli og hjálpaði honum að ná fótfestu í tónlistarlífinu i Prag þegar hann fór heim til Tékklands að nýju. Við lestur Wikpediu á netinu er ekki að sjá að hann hafi samið þau sex eða sjö ár sem hann átti heima í Gautaborg! Aftur á móti segir í Wikpediu að finna megi tengsl milli frægustu laglínu hans í verkinu Moldá við sænska lagið Ack Värmland. Þannig að tónlistin tengir lagið Moldá við Svíþjóð, þótt dagatöl Tékka segi allt aðra sögu. Að vísu segir forstöðumaður Smetana safnsins í Prag að hann hafi lagt grunninn að þremur mikilvægum verkum sínum í Gautaborg. Hvað sem öðru líður reyndist dvölin Smetana heilladrjúg. Segja má að þar eigum við Smetana annan og mikilvægan snertiflöt sem er að báðir áttum við góða dvöl og fengum gott veganesti frá þessari fegurstu borg Norðurlanda. Hann á sviði tónlistarinnar og ég hagfræðinnar, þótt vissulega hafi ég orðið fyrir gríðarlegum tónlistaráhrifum í Gautaborg m.a. á tónleikum hjá Fred Åkerström og Johnny Cash. Að ég gleymi nú ekki þeirri staðreynd að hafa verið "leiddur til söngs" í Söngfélagi Skaftfellinga undanfarin fjögur ár af skaftfellskum Gautaborgurum.

Engin ummæli: