miðvikudagur, 31. janúar 2007

Stórkostlegur leikur.

Leikurinn milli Dana og Íslendinga var frábær. Þvílík barátta milli liðanna. Það fór ekki milli mála að bæði liðin gáfu allt sem þau áttu í leikinn. Það er ekki hægt að biðja um meira. Það að Danir skyldu merja sigur með einu marki í framlengingu er ekki sigur í mínum huga. Það er í raun aðeins ótrúleg heppni þeirra, því okkar piltar áttu skilið að vinna leikinn miðað við framgang hans. Þetta hlýtur þeim Dönum sem horfðu á leikinn að vera einnig ljóst. Þá hlýtur það vera þeim einnig til umhugsunar hversu langt við Íslendingar höfum náð á öllum sviðum mannlífsins síðustu áratugi. Það endurspeglast best í þessum leik. Hver og einn gerði sitt besta og allir lögðu sitt af mörkum. Einhver leiklýsandi hafði að orði að það hefði verið hið "íslenska drenglyndi" sem gerði það að verkum að við töpuðum á lokasekúndu leiksins. Við hefðum átt að brjóta á þeim. Þetta þótti mér fáranleg athugasemd. Hvers virði væri slík leikniðurstaða fyrir okkur. Annars verð ég að segja að þessi móðursýki í lýsingum leikja gerir það að verkum að maður endist ekki til að horfa á leiki nema með því að skrúfa niður í lýsingunni. Ég tel að það þurfi að koma til nýjar aðferðir við að lýsa svona kappleikjum. Það þarf meiri yfirvegun í umfjöllun og fagmannlegri umfjöllun. Þessi móðursýkisóp ættu að heyra fortíðinni til. Í útlöndum gefst áheyrendum kostur á að velja um nokkra leiklýsendur sem hentar hverjum og einum. Ég stóð mig að því í leik Þjóðverja og okkar manna að hafa á þýsku stöðina því þar var hægt að fylgjast með leiknum án þessarar móðursýki.

Engin ummæli: