miðvikudagur, 3. janúar 2007

Flensuskítur.

Ahh, það er leiðinlegt að byrja nýtt ár á því að liggja eins og slytti í flensu. Þannig byrjuðu tveir fyrstu dagar ársins hjá mér. Ég er nú allur að ná mér en þetta var ekkert fljúgandi start á árinu hjá manni. Ég segi bara það sama og hr. Kristján Eldjárn forseti í Háskólabíó forðum daga þegar hann hrasaði á leið í pontuna á kosningarhátiðinni: Fall(flensa!) er sama og fararheill. Sirrý lagðist líka þannig að þetta er engin uppgerð í mér. Höfum verið í sambandi við Hjört í Svíþjóð. Hilda er komin suður eftir áramótin fyrir norðan. Ekkert heyrt í Valdimar og Stellu. Hér komu í kvöld í heimsókn foreldrar mínir og fengu að smakka hinn einstaka "Jensínu ömmuís". Það er stillt og heiðskýrt veður í dalnum okkar. Yfir miðjum Fossvogsdal dansa Norðurljósin í öllum sínum skrúða. Einstaka stjörnur má greina á himninum, þótt ekki kunni ég að greina frá nöfnum þeirra. Kórónan á Bogarspítalanum trjónar sínu fegursta vegna þess að það eru slökkt öll ljós í turninum. Flugvitinn á Perlunni lýsir upp himininn með hvítu og grænu ljósi. Efst á kúpli Perlunnar logar hinsvegar rautt ljós. Fossvogskapellan er upplýst í næturmyrkrinu. Útvarpshúsið einnig upplýst að vanda. Húsin kúra í dalnum og mest ber á lýsingu ljósastauranna. Það er orðin svo mikill gróður kringum húsin að hann deyfir birtuna í gluggum margra húsa jafnvel þótt laufin séu fallin. Held ég láti þessa lýsingu út um gluggan minn duga í dag. Kveðja.

Engin ummæli: