þriðjudagur, 23. janúar 2007

Þrjár kynslóðir.


Þessi mynd var tekin á sunnudaginn var af afa í Kópavogi, Hirti langafa og Unni langömmu, daginn sem Sveinn Hjörtur og Jóhannes Ernir fóru til síns heima í Svearíki. Sveinn Hjörtur hefur svo gaman af að heyra gömlu klukkuna sem sjá má á myndinni slá. Hún var í eigu langalanga afa hans og ömmu. Þau munu hafa fengið hana í giftingargjöf árið 1928 þ.e. snemma á síðustu öld. Ég man það sjálfur þegar ég var barn og afi minn Axel létt klukkuna slá nokkur slög fyrir mig. Þessvegna var tilvalið að nafni fengi líka að heyra hljómfagrann sláttinn í henni. Hann hafði mikið gaman af því. Þegar maður verður sjálfur afi þá rifjast upp fyrir manni löngu gleymdar minningar í samskiptum við sína afa og ömmur sem barn. Það sem manni fannst gott og vakti hjá manni öryggiskennd byrjar maður ósjálfrátt að flytja yfir til eigin barnabarna. Er þetta ekki einmitt hinn verðmæti arfur kynslóðanna? Annars lítið í fréttum. Maður er í þessu sama. Kóræfing í gærkvöldi, Rótarý í dag. Ég ætla að færa til bókar frækið afrek handaboltastrákanna í landsliðinu í leiknum við Frakka í gær. Hvílíkt baráttuþrek sem þeir sýndu í erfiðri stöðu. Svona frammistaða verður lengi í hávegum höfð. Sýnir okkur hversu megnug við getum verið þótt staðan sé ekki alltaf eins og best verður á kosið. Til hamingju handboltastrákar. Kveðja.

Engin ummæli: