laugardagur, 7. mars 2015

Árni Jóhannsson minning

Var í fallegri jarðarför í dag þar sem kirkjan ómaði öll af söng. Jarðsunginn var Árni Jóhannsson verktaki og söngvari. Árni og pabbi voru góðir vinir og samferðarmenn í lífinu. Söngurinn sameinaði þá og sem ungir menn gerðust þeir félagar í Karlakórnum Fóstbræðrum og voru í honum alla sína tíð. Báðir voru þeir fyrstu tenórar í kórnum. Árni hafði ægifallega rödd og bjarta og fór ekkert milli mála hver var á ferð þegar hann tjáði sig í söng eða tali á mannamótum. Í raun ótrúlega björt rödd í manni sem hafði svo sannarlega vaxtarlag eins og dýpsti bassi. Ég var svo heppinn að fá vinnu tvö sumur í röð hjá Árna sem handlangari við brúarsmíði í Kópavogi sem strákur. Vafalaust fyrir vinskap pabba og Árna.
Sú hugsun sló mig undir þessum mikla söng að nú færi heldur betur að færast fjör í sönginn í himnaríki. Þeir hafa verið að hverfa margir gömlu félagarnir hans pabba í Fóstbræðrum undanfarin misseri og eins víst að þeir munu taka lagið saman við endurfundi. Kórinn er nánast orðinn fullskipaður í himnaríki þeim félögum sem lyftu kórnum í hæstu hæðir á síðari hluta tuttugustu aldar. Við jarðarförina gat presturinn þess að það væri barnabarn Árna sem söng einsöng í Ave María eftir Kaldalóns. Það var líka ánægjulegt að upplifa það að barnabarn pabba söng með Karlakórnum Fóstbræðrum við athöfnina. Þannig heldur lífið áfram kynslóðir fara og kynslóðir koma. Blessuð sé minning Árna Jóhannssonar.

Engin ummæli: