miðvikudagur, 4. mars 2015

Ertu með penna?

Í gær vantaði mig penna á rótarýfundi og spurði sessunaut minn hvort hann gæti lánað mér slíkan. Hann hafði engan penna heldur. Nokkru síðar rekur sessunautur minn upp þennan rokna hlátur og segir að sér hafi dottið í hug skemmtileg minning í tengslum við þetta pennaleysi mitt. Þannig var að hann var ungur maður í vegavinnu norður í landi staddur við fermingarathöfn í kirkjunni á Svalbarði í Þistilfirði. Rétt áður en athöfnin hefst tekur hann eftir því að það er maður sem gengur um kirkjuna með vínflösku í hendinni og hvíslar einhverju að fólki. Þegar nær dregur heyrir hann að maðurinn er að hvísla hvort það sé mögulega með tappatogara á sér. Það hafði sem sé gleymst að hafa með tappatogarann í athöfnina og nú voru góð ráð dýr svo hægt yrði að veita messuvínið í altarisgöngunni. Hver er svo lærdómurinn af þessari sögu? Jú maður gleymir ekki nauðsynlegum verkfærum þegar mikið leggur við. Ég ætlaði að nota pennann til þess að skrá mig í rótarýferð í haust.



 

Engin ummæli: