föstudagur, 17. apríl 2015

"Markaðir fylgjast með ykkur"

Göran Persson fyrrverrandi forsætisráðherra Svía og núna fyrirlesari og bóndi var gestur á aðalfundi SA í dag. Hann hældi okkur fyrir það sem áunnist hefur frá bankahruni en hvatti okkur til þess að fara varlega og vera á verði. Hættan væri sú að "markaðir," væntanlega fjármálamarkaðir mundu fylgjast náið með okkur og nýta sér það ef við erum ekki á verði. Hann sagði að við værum rík, ung þjóð með miklar auðlindir og með framtíðaráform sem fylgir ungu fólki. Hann varaði okkur við og sagði að erfiðleikarnir væru ekki yfirstignir. Við ættum eftir að vinna úr erfiðum málum í uppgjöri hrunsins og við ættum eftir að gera breytingar sem koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur. Vitnaði í því sambandi í reynslu Svía frá 10. áratug síðustu aldar. Sænskir stjórnmálamenn ákváðu að hætta að lofa fólki úrræðum án þess að segja hvaðan tekjurnar kæmu. Hann var ekkert að selja okkur evruna eða ESB aðild en nefndi að Þjóðverjar, Frakkar og fleiri Evrópuríki sem hann kallaði "gráhærðu" ríkin vegna þess hve aldursamsetning þjóðanna er óhagstæð ættu í miklum vandræðum. Þetta má túlka þannig að við eigum ekki samleið með þessum þjóðum sem ráða í ESB. Þá gerði hann að umtalsefni deilur þar sem ríki Evrópu væru að deila um óuppgerð mál eftir síðustu heimstyrjöld en Grikkir telja að Þjóðverjar skuldi þeim miklar fjárhæðir vegna síðari heimstyrjaldarinnar. Samandregið má segja að þetta hafi vel einnar messu virði hjá karli.



Engin ummæli: